Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:14:27 (822)

2003-10-28 14:14:27# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vildi koma að varðandi ræðu hv. þm. Það fyrra er þáttur verkalýðshreyfingarinnar í því að ná efnahagslegum stöðugleika. Um það er ekki deilt. Hún átti mikinn þátt í því á sínum tíma og hefur staðið vörð um það markmið, enda hafa félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar notið þess best að efnahagslegur stöðugleiki hefur verið fyrir hendi þannig að það þarf ekki sérstaklega að umbuna þeim í öðru. Þeir hafa staðið að þessu vegna þess að það er þeirra hagsmunamál og þeir hafa notið þess nú þegar manna best í sínum kjörum.

Hitt atriðið varðar efni frv. um það hvort heimilt eigi að vera að draga frá tekjuskattsstofni félagsgjöld til félaga innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég held að ekki sé deilt um það hvort það eigi að vera heimilt. Ég man ekki betur en að þetta hafi verið frádráttarbært í eldra tekjuskattskerfi. En við kerfisbreytinguna 1988 þegar tekin var upp samtímagreidd staðgreiðsla, eins og við þekkjum núna með staðgreiðslukerfi skatta, voru ýmsir frádráttarliðir sameinaðir í einn og felldir inn í persónuafsláttinn. Þannig að ég tel að alla vega í upphafi kerfisins hafi verið gert ráð fyrir því að þessar greiðslur yrðu áfram frádráttarbærar frá skatti þó að útfærslan væri með öðrum hætti en áður var. Ég held því að við eigum að skoða það í efh.- og viðskn. hvort þetta sé rétt og hvort þróunin síðan hafi verið með þeim hætti að ástæða sé til að bregðast við því.