Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:18:32 (824)

2003-10-28 14:18:32# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er orðið þunnt í pólitíkinni ef menn þurfa að fara að búa til ágreining. Það er ekki ágreiningur um málið. Ég sagði að það hefði verið ákveðið í upphafi að þessar greiðslur yrðu frádráttarbærar, þannig að ég tel að ekki sé um neinn pólitískan ágreining að ræða í þessu efni.

Það sem þarf að skoða er hvort þróunin sem síðan hefur orðið á persónuafslættinum sé slík að það gefi tilefni til að ætla að það þurfi að leiðrétta, þannig að menn telji að sú regla sem menn settu sér sé ekki lengur að fullu í gildi. Við skulum skoða það, herra forseti, og ég efa ekki að hv. efh.- og viðskn. nær samkomulagi um framkvæmd að þessu.

En mig langar aðeins að rifja upp söguna fyrir hv. þm. vegna þess að sá fjmrh. sem var þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp var þáverandi formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson. Við vorum reyndar hvorugur í þeim flokki, ég né hv. ræðumaður, (Gripið fram í.) við vorum samflokka samt. Það var síðan næsta ríkisstjórn sem kom á eftir þeirri sem afnam tenginguna milli persónuafsláttar og lánskjaravísitölu.