Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:50:39 (835)

2003-10-28 14:50:39# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að með þessari tillögu væri verið að hola skattkerfið og gera það flóknara og lýsti því réttilega að skattkerfið er í grundvallaratriðum öðruvísi gagnvart launþegum en atvinnurekendum.

En grunnurinn að því að hafa grundvöllinn svona mismunandi átti að vera að menn hefðu persónuafslátt og væru með þeim hætti varðir fyrir ríkisskattinum. Hv. þm. hefur gengið fram með félögum sínum í stuðningi við ríkisstjórn á undanförnum árum í því að grafa í raun undan þeim grundvelli sem hann lýsti. Það hefur skekkst meira og meira eftir því sem árin líða. Menn hljóta að velta því alvarlega fyrir sér hvort eigi að halda svona áfram og hvort menn eigi þá að reyna að finna aðrar leiðir til þess að létta launþegum skattbyrðina og koma á einhverju réttlæti hvað varðar kostnað þeirra, því að það er auðvitað mjög undarlegt að líta annars vegar þannig á að fyrirtæki þurfi hagnað til að geta borgað skatt en hins vegar að launþegar þurfi ekki einu sinni upphæð sem dugar til framfærslu til að borga skatt. Þetta er tvískinnungur sem er í rauninni óþolandi.

Mér finnst að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi með því að halda því fram að helst ætti að láta alla borga sömu skattprósentu hversu lág laun sem menn svo sem hefðu, þá sé hann í raun með tvískinnung gagnvart því sem hann lýsti hér áðan, þ.e. mismuninum á þessum tveimur kerfum, annars vegar sem snýr að launþegum og hins vegar sem snýr að atvinnurekendum.