Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:53:00 (836)

2003-10-28 14:53:00# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hvort tveggja hefur gerst að persónuafsláttur hefur verið hækkaður í samræmi við verðbólguforsendur fjárlaga hverju sinni, það hefur verið gert. Einnig hefur skattprósentan verið lækkuð þannig að frítekjumarkið, þ.e. þær tekjur sem menn hafa eftir skatt hafa hækkað nokkurn veginn í takt við verðbólgu frá 1993 eða 1994 miðað við verðlag.

Að sjálfsögðu hefur frítekjumarkið ekki haldið í við hækkun launa því að laun hafa hækkað svo mikið umfram verðlag að það þykir jafnvel til vandræða, sérstaklega hjá stjórnarandstöðunni. Ég sé ekki vandann alveg svo slæman að laun hækki svona mikið. Og ef skattkerfið er þannig uppbyggt eins og það er í dag, að hærri laun þýði hærri skatta þá er það bara rökrétt afleiðing af því að laun hækka mikið umfram verðlag, að menn borgi hlutfallslega stærri hluta af tekjum sínum.

Reyndar er markmið núverandi ríkisstjórnar að lækka skattprósentuna töluvert mikið þannig að menn borgi þá minna af tekjum sínum til skattkerfisins en núna.

Ég hef reyndar lagt fram frv. um það að taka upp flatan tekjuskatt. Ég held að það yrði í rauninni einfaldasta og besta kerfið þó að það virki ófélagslega, þ.e. að þeir sem eru með lág laun eins og hv. þm. nefndi borgi skatta, en þá lagar launakerfið sig að því. Launakerfið tekur nefnilega mið að skattkerfi hvers lands. Og ef ákveðin laun eru skattfrjáls þá þurfa þau ekki að vera eins há, herra forseti.