Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:18:05 (846)

2003-10-28 15:18:05# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði ekkert um það að launamenn væru almennt ekki læsir. Ég sagði að hluti þjóðarinnar væri ólæs, því miður, vegna lesblindu og annars slíks. Það er talið og hefur komið fram í ræðum á þingi að um 7% þjóðarinnar hafi ekki lesið heila bók sér til gagns. Þetta fólk stendur frammi fyrir mjög flóknu kerfi, bótakerfi og skattkerfi. Ég held að það ætti að vera markmið þingmanna að hafa þessi kerfi einföld, einmitt til þess að gæta hagsmuna þessa hóps.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um fjármagnstekjuskattinn þá er það ekki rétt að þeir sem hafa stofnað hlutafélag borgi bara 10%. Þeir borga fyrst 18% af hagnaði fyrirtækjanna. Þeir geta ekki borgað út arð nema fyrirtækið skili hagnaði og séu búnir að borga skatt af því. Síðan borga þeir 10% af því sem eftir stendur þannig að þetta kemur út sem 26% skattur. Það er reyndar miklu lægra en er á launatekjur. En ríkisskattstjóri á að reikna þeim tekjur. Ef reksturinn skilar ekki þeim hagnaði að hann dugi fyrir tekjunum þá er tap á rekstrinum. En þeir verða að borga skatt samt. Þeir verða að borga tekjuskatt samt af þeim reiknuðu tekjum sem ríkisskattstjóri reiknar þeim. Þarna kemur því inn í einmitt sú áhætta sem atvinnulífið býr við. Fjármagnstekjuskatturinn var á sínum tíma valinn 10% en ekki 20% vegna þess að inni í honum eru verðbætur sem ekki eru tekjur. Inni í honum er áhætta. Ríkinu kemur ekkert við þó að menn tapi í hlutabréfum eða í rekstri. Ég hugsa því að meðalprósentan, 10%, sé nokkuð nálægt því að vera eins og skattur á laun.