Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:20:02 (847)

2003-10-28 15:20:02# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Þetta ber allt að sama brunni, þ.e. að svo mikil áhætta sé fólgin í því að standa í atvinnurekstri. Hv. þm. sagði að þeir sem hafa hætt að vera launamenn og breytt sér í einkahlutafélag borguðu sennilega jafnháa ef ekki hærri skatta. Mér er spurn: Eru þeir allir ólæsir eða hvað? Er einhver misskilningur á ferðinni hjá þessum tugþúsundum, liggur mér við að segja, einstaklinga sem hafa ráðist í þessa aðgerð? Nei, ég hygg að svo sé ekki. Ég hygg þvert á móti að þeir sjái ávinning í því og trúi því að svo sé.

En bara þessi eina yfirferð hv. þingmanns á mismunandi skattprósentum undirstrikaði það sem ég sagði áðan, þ.e. að ég væri ekki var við mikinn vilja hjá hv. þingmönnum í hans flokki að einfalda þetta kerfi, að færa þá þessa skattprósentu til samræmis þannig að kerfið geti verið einfalt og gagnsætt eins og við viljum, hygg ég, báðir.

Staðreyndin er sú, frú forseti, og það verður alveg að vera skýrt, að mér finnst hv. þm. leyfa sér dálítið í umræðunni að segja að allt öðru máli gegni um hinn almenna launamann en einstaklinga í atvinnurekstri sem ég vil auðvitað að séu kröftugir og hafi gott skjól og gott svigrúm til þess að stunda rekstur sinn. Guð minn almáttugur, frú forseti. Hefur hv. þm. ekki orðið var við að fólk er að missa vinnuna? Hefur hv. þm. ekki orðið var við að yfirvinna er að dragast saman? Hefur hv. forseti ekki orðið var við breytingar í lífi íslenskra fjölskyldna? Hinn virki dagur er ekki eins frá degi til dags, frá mánuði til mánaðar, frá missiri til missiris. Þar er því óöryggisþáttur einnig í för. Ég segi bara að hin almenna regla á að vera sú að hér ríki jafnræði og þetta litla frv. snýst um það. Ég segi: Ef hv. þm. vill tryggja jafnræði þá samþykkir hann þetta frv. En ef hann er andvígur þessum ostagötum á hann auðvitað að vera sjálfum sér samkvæmur og loka þá öðrum.