Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:22:22 (848)

2003-10-28 15:22:22# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Frú forseti. Ég vil einungis í lok þessarar umræðu þakka það í örfáum orðum hversu menn hafa tekið kröftugan þátt í henni. Ég vil þakka þeim hv. stjórnarliðum sem hér komu og lögðu sín viðhorf á borðið fyrir það. Mér þótti vænt um að heyra að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti yfir góðum þokka á málinu. Ég kýs að túlka það svo að hv. þm. Pétur Blöndal hafi alls ekki skotið loku fyrir að hann kynni á síðari stigum málsins að styðja það. Ég hjó eftir því að í andsvari við mig áðan, frú forseti, sagðist hann ekki vera mjög hrifinn af málinu. Það útilokar samt ekki svona lágmarkshrifningu eigi að síður ef hann skoðar það grannt.

Ég vil líka segja að ég held að þegar menn velta þessu máli fyrir sér sjá þeir að hér er um réttlætismál að ræða. Ég vil ítreka að forsenda þess að við þingmenn Samf. leggjum þetta mál fram er sú staðreynd að mótaðilinn á vinnumarkaðnum, fyrirtækin sem eru aðilar að atvinnurekendasamtökum, fær að draga frá skatti gjöldin sem hann greiðir til atvinnurekendasamtakanna. Af þeim sökum finnst mér ekki bara einboðið heldur sjálfsagt réttlætismál að launamenn fái sömuleiðis að draga frá skatti félagsgjöld sín. Um þetta kann mönnum að sýnast sitt hverjum. Við í Samf. höfum lagt fram rök okkar í þessu máli. Hv. þm. Pétur Blöndal fann að því með réttu að við gátum ekki sagt hvað þetta kostar. Það er einungis vegna þess að við höfum ekki getað fengið upplýsingar um það. Þær upplýsingar munu innan örfárra daga liggja fyrir hér í svari við skriflegri fyrirspurn minni. Það er eina leið stjórnarandstöðuþingmanns til þess að fá svör við lykilspurningum af þessu tagi.

Frú forseti. Ég vil að lokum óska eftir því að þessu máli verði í lok umræðunnar vísað til hv. efh.- og viðskn.