Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:39:37 (850)

2003-10-28 15:39:37# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég er 2. flm. frv. til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins. Ég vil þakka hv. 1. flm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir mjög greinargóða yfirferð og kynningu á frv. Segja má að litlu sé við að bæta. Þó langar mig aðeins að draga fram nokkur atriði til viðbótar. Ég les í upphafi 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.``

Hæstv. forseti. Það væri öldin önnur ef 65. gr. stjórnarskrárinnar væri uppfyllt að öllu leyti. Orðið hafa miklar breytingar á samsetningu þjóðarinnar. Stöðugt fjölgar þeim mönnum af erlendum uppruna sem hér búa. Þar af leiðandi fjölgar þeim sem iðka aðra trú en kristna trú. Þetta er þróun sem við sjáum allt í kringum okkur í hinu fjölmenningarlega þjóðfélagi hér sem annars staðar. Þetta er spurning um hlutfall Íslendinga og útlendinga. En ekki er hægt að horfa fram hjá því að samfélag okkar er mikið að breytast. Þó svo að hér sé ekki mjög hátt hlutfall fólks af erlendum uppruna sem iðkar hér sína trú aðra en kristna ber okkur auðvitað að taka tillit til þess, þó svo að það sé núna ekki mjög margt. Við getum litið til nágrannaþjóða okkar og Evrópu og verðum þá vitni að því að þar er þetta hlutfall mikið að breytast. Múhammeðstrú m.a. hefur sótt mjög á. Þetta gerist hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við getum lítið varist því öðruvísi en að gæta jafnréttis gagnvart öllum trúarbrögðum.

Töluverðar umræður hafa verið um þetta mál í þjóðfélaginu þar af leiðandi, um hvort rétt sé að binda í stjórnarskrá að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og hvort ríkisvaldinu beri að styðja hana og vernda, þ.e. að hafa það bundið í lögum. Þessu ákvæði má eingöngu breyta með breytingu á lögum og það viljum við að verði skoðað en þó fara mjög varlega í það því að svo samofin er hin kristna trú og evangelíska lúterska kirkja allri stjórnskipun landsins að að mörgu er að hyggja. Það þarf að skoða mjög marga þætti áður en hægt er að ráðast í að breyta lögunum. Svo varin er þessi réttur kirkjunnar að samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar þarf og skal bera það undir þjóðaratkvæði hvort það eigi að breyta stjórnarskránni. Þarna er varnagli sem við teljum eðlilegan. Við teljum og að undirbúa þurfi slíka þjóðaratkvæðagreiðslu vel. Þess vegna er í þessu frv. gerð sú breyting að skipa þegar fimm manna nefnd til að undirbúa nauðsynleg lagafrumvörp og sjá um annan undirbúning fyrir aðskilnað ríkis og kirkju ef frv. verður samþykkt því ef leggja á þetta undir þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður þjóðin að hafa mjög skýra mynd af því um hvað verið er að kjósa, hvað þetta þýðir og hvernig kirkjan standi þá á eftir. Því er nauðsynlegt að töluverð vinna fari fram áður en málið verður lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. ef frv. verður samþykkt.

Gallup-kannanir mörg undanfarin ár hafa sýnt að meiri hluti þjóðarinnar er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En hvort allir vita hvað það þýðir er ég ekki viss um. Um það deila margir. Þess vegna verður að leggja í þá vinnu að kortleggja þetta vel, hvernig það muni ganga fyrir sig og hvernig hin evangelíska lúterska kirkja muni standa á eftir. Prestar eru mjög mikilvægir og kirkjustarf er mjög mikilvæg þjónusta í dag. Víða um land eru störf presta ómetanleg. Þeir gegna þar sínum störfum ekki síst sem sálusorgarar, en einnig félagsráðgjafar. Þeir eru traustur klettur í hverju samfélagi. Hugmyndin með frv. er því ekki að veikja það net sem við höfum byggt upp heldur eingöngu að gera alla jafnréttháa samkvæmt lögum.