Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:11:36 (855)

2003-10-28 16:11:36# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Karli Haraldssyni fyrir ágæta ræðu og bollaleggingar. Ég geri mér grein fyrir því að það er venja í þinginu að menn fari ekki í andsvar við jómfrúrræðu en þar sem hv. þm. er vanur í pólitíkinni held ég að hann hafi gott af því að fá andsvar og að um hann gildi e.t.v. ekki sömu reglur og um aðra nýbakaða þingmenn.

Mér fannst margt koma fram í ræðu hv. þm. og hann var með margar bollaleggingar og hugmyndir um samskipti ríkis og kirkju. Þess vegna langar mig bara að spyrja hann hvort hann telji ekki, eins og ég kom inn á í minni ræðu áðan, að sú skoðun sem er lögð fram í 3. gr. frv. verði til góðs og leggi grunn að frjóum umræðum um samskipti ríkis og kirkju. Ég er sannfærður um það og ég vil undirstrika enn og aftur, eins og kom fram í málflutningi mínum, að ég er þeirrar skoðunar að hér sé verið að leggja grunn að frjórri umræðu um samskipti ríkis og kirkju og bind vonir við að það verði til góðs fyrir kirkjuna og efli starf hennar.

Mér fannst á hv. þm. Einari Karli Haraldssyni að hann væri sama sinnis og velti hér upp mörgum nýjum vinklum sem menn þyrftu að skoða. Auðvitað gera sér allir grein fyrir því að margt er enn óskoðað og órætt en ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé mér ekki sammála í því að erfiðasta dæmið þarna sé hvernig eigi að afgreiða þessi fjárhagslegu samskipti, söguleg og í nútímanum. Á grunni 3. gr. er sú vinna sett af stað og hún á sem sagt að leiða okkur inn á þær brautir að geta rætt þessi mál á vitrænum nótum, að ég tel.