Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:13:42 (856)

2003-10-28 16:13:42# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir andsvörin. Það er mér mikill heiður að veitt skulu andsvör við jómfrúrræðu minni.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson spurði mig hvort fjárhagslega sjónarmiðið væri ekki aðalatriðið.

Ástandið er þannig núna að það eru engin vandamál varðandi fjárskipti ríkis og kirkju nema hvað varðar prests\-setursjarðir. Að öðru leyti hefur verið um þau samið. Ég tel mjög mikilvægt að ljúka þeim áfanga þannig að við getum fengið reynslu af þeirri kirkjuskipan sem nú er í gildi, frá 1997, og mín afstaða hefur alltaf verið sú að við þyrftum að fá reynslu af henni í a.m.k. 10--15 ár áður en einhver ný skref yrðu tekin. Og ég held að í stofnun sem hefur verið að þróast í þúsund ár sé í rauninni engin ofrausn að ætla henni þennan tíma til þess að laga sig að nýjum aðstæðum. Ég bendi á að rammalög voru sett um kirkjuna og hún hefur verið mjög upptekin við að fylla út í þann ramma og er núna að móta sér stefnu til næstu ára sem skiptir miklu máli um framhaldið. Ég held að hún þurfi svolítinn tíma. Ég er ekki að biðjast undan því að menn ræði málin en ég bendi á að í Noregi eru menn að ræða þetta, hafa tekið sér tíma fram til 2014 og ætla þá hugsanlega að taka skref sem nálgast það sem við erum búin að taka. Ég held að menn eigi að taka sér góðan tíma í þetta. Þess vegna finnst mér fimm árin of stuttur tími og mér finnst það ekki boðlegt að setja það sem markmið að stefnt sé að fullum aðskilnaði.