Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:18:13 (858)

2003-10-28 16:18:13# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson spurði nánar út í fjárhagsrammann og ég verð að segja að þetta er alveg hárrétt hjá honum. Annars vegar ber þetta vott um mjög mikið og vaxandi starf og þjónustu kirkjusafnaða í okkar fjölmennari samfélögum þar sem mjög reynir á fjárhaginn og ekki bætti það nú úr skák þegar ríkisstjórnin skerti sóknargjöldin fyrir tveimur, þremur árum til þess að hamla gegn verðbólgu að því sagt var. Fjárhagur sókna er af þeim ástæðum víða mjög þröngur og mikið álag á starfsfólki. Maður getur t.d. mjög vel skilið fríkirkjuprestinn hér í Reykjavík, í stórum söfnuði, sem ekki fær borguð sín föstu prestlaun úr ríkiskassanum, að hann skuli vera að kikna undan starfsálagi. Það er mjög vel skiljanlegt. Hins vegar tel ég að hann eigi ekki endilega að gera kröfur á hendur þjóðkirkjunni heldur á hendur ríkinu. Það er annað mál.

Á hinn bóginn er menningarhlutverk og stuðningshlutverk presta í litlum sóknum og í dreifbýlinu, sem á mjög í vök að verjast víða um land, gríðarlega mikilvægt og verður seint ofmetið. Það er þyngra en tárum taki að það skuli þurfa að leggja prestsembættið þar niður vegna þessa fjárhagsramma. Hann er eins og harmonikka, það er bara föst tala af prestum sem má vera og síðan verður kirkjan að stjórna því hvar er helst brúk fyrir þá. Og hún neyðist til þess að taka mjög erfiðar ákvarðanir. En það kemur hart niður á byggðum þar sem síst skyldi. Þar fyrir utan er kirkjan að reka 200 friðaðar byggingar um allt land sem eru mikil menningarverðmæti. Þannig að auðvitað er full ástæða til þess að ræða fjármál þjóðkirkjunnar á jákvæðan hátt.