Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:45:04 (862)

2003-10-28 16:45:04# 130. lþ. 15.12 fundur 22. mál: #A vextir og verðtrygging# (verðtryggð útlán) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:45]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er meginmál þessa frv. ekki verðtryggingin, heldur er lagt til að það verði ekki heimilt að hækka vexti á verðtryggðum lánum. Það er meginmál frumvarpsins.

Síðan vek ég athygli á því að rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi sýna fram á að raunvextir á verðtryggðum lánum eru talsvert lægri, að jafnaði tveimur prósentustigum lægri en á óverðtryggðum lánum. Ég legg áherslu á að meginmáli skipti hvaða raunvexti lántakandinn er að axla af lánsskuldbindingum sínum. Ég held að í verðtryggingunni sé ekki skýring á þeim mun sem er á vaxtakostnaði annars vegar hér á landi og því sem tíðkast í ýmsum öðrum löndum. Ég held að þar komi aðrir þættir til sögunnar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar vísar til Sigtúnshópsins. Það er alveg rétt að ég tók þátt í starfi hans og fleiri sem eru staddir í þessum sal, ég horfi hér á hv. þm. Einar Karl Haraldsson. Við sem störfuðum í þeim hópi gerðum þetta aldrei að meginmáli. Við sögðum sem svo: Reynum að ná raunvaxtakostnaðinum niður án þess að hengja okkur í leiðir til þess eða hvernig raunvaxtakostnaðurinn er saman settur, hvort hann er kallaður vextir eða verðbætur. Það sem við spurðum um var: Hvað þarf lántakandinn að greiða fyrir lánið.