Lífeyrisréttindi hjóna

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:36:08 (871)

2003-10-28 17:36:08# 130. lþ. 15.16 fundur 46. mál: #A lífeyrisréttindi hjóna# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það er ein smáathugasemd sem hv. þm. kom með. Hún var sú að nú eru hjón búin að skipta með sér lífeyrisrétti og annað fellur frá, þá tapast inneignin. Þetta er ekki réttur skilningur á hlutverki lífeyrissjóðs. Réttindi hjá lífeyrissjóði eru ekki inneign. Lífeyrissjóður tekur að sér að bæta áfall sem menn verða fyrir, annaðhvort að verða öryrkjar á starfsævinni eða falla frá um aldur fram og skilja eftir börn í ómegð, til þess er greiddur barnalífeyrir og makalífeyrir eða áhættan af því að verða mjög gamall og til þess er borgaður ellilífeyrir. Það er nefnilega ein áhættan. Maður sem verður 100 ára gamall eða 107 ára gamall getur lent í því að vera í 40 ár, frá 67 ára aldri, án tekna. Þetta er áhættan af því að verða gamall. Maður sem fellur frá 70 ára og skilur hvorki eftir sig maka né börn, hann var bara heppinn.