Staða hjóna og sambúðarfólks

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:38:34 (872)

2003-10-28 17:38:34# 130. lþ. 15.17 fundur 47. mál: #A staða hjóna og sambúðarfólks# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:38]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um stöðu hjóna. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir, Drífa Hjartardóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Sólveig Pétursdóttir. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er hafi það hlutverk að kanna stöðu hjóna og sambúðarfólks með börn á framfæri með tilliti til skatta, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar og bera hana saman við stöðu einstæðra foreldra.

Nefndin kanni hvort brögð séu að því að fólk skilji eða slíti sambúð til málamynda í því skyni að njóta fjárhagslegs hagræðis í kerfinu. Nefndin kanni einnig hvernig styrkja megi stöðu hjóna og sambúðarfólks í framangreindu tilliti.

Nefndin skili skýrslu um málið til Alþingis fyrir 1. desember 2004.``

Virðulegi forseti. Í greinargerð segir svo:

,,Hjúskapur eða sambúð felur í sér fjárhagslegt hagræði, ekki síst fyrir barnafólk. Hagræðið felst m.a. í því að auðveldara er fyrir tvo einstaklinga að halda heimili, þ.e. borga af húsnæði, innkaup o.s.frv. Um þetta er ekki deilt og hefur verið um það almenn samstaða að styrkja beri einstæða foreldra sem ekki njóta þessa hagræðis og hafa bæði ríkisvaldið og sveitarfélög gripið til ýmissa ráðstafana í því skyni. Má þar nefna hærri barnabætur, uppbætur á meðlagsgreiðslur, hærri húsaleigubætur, hærri námslán, lægri leikskólagjöld o.fl. Hér er ekki gerður ágreiningur um þessar ráðstafanir enda gegna þær mikilvægu hlutverki við að jafna lífskjör hér á landi.

Því hefur verið haldið fram að fólk skilji eða slíti sambúð til málamynda beinlínis með það að markmiði að fá þær bætur og njóta þess hagræðis sem einstæðir foreldrar hafa notið. Þá má ætla að framangreint letji fólk mjög til að ganga í hjónaband eða tilkynna sambúð. Með hliðsjón af tekjutengingu þessara bóta má halda því fram að það sé einkum tekjulágt fólk sem grípur til þessara ráða.

Slíkir málamyndaskilnaðir og sambúðarslit er vitaskuld ólöglegt athæfi búi fólk eftir sem áður saman en þiggi bætur sem ætlaðar eru einstæðum foreldrum. Eftirlit með því hvort fólk býr saman eða ekki er hins vegar mjög erfitt og hefur ekki verið reynt nema að takmörkuðu leyti. Verst er þó að mati flutningsmanna að í kerfinu skuli vera innbyggðir hvatar til að slíta hjónabandi eða sambúð, hvatar sem hafa jafnframt þau áhrif að draga úr áhuga fólks á því að stofna til hjúskapar eða hefja sambúð.

Fram hefur komið hjá þjónandi prestum á höfuðborgarsvæðinu að þeir viti nokkur dæmi um hjónaskilnaði af ástæðum sem að framan greinir.

Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er því fyrst og fremst að kanna mismunandi stöðu fólks í hjúskap eða sambúð og bera hana saman við stöðu einstæðra foreldra og hversu algengt það sé að fólk skilji eða slíti sambúð vegna þess lagalega umhverfis sem hér hefur verið rakið. Í kjölfar þessa er síðan lagt til að nefndin kanni hvernig unnt sé að styrkja stöðu hjónabandsins og stöðu sambúðarfólks. Rétt er að taka fram að þær aðgerðir sem kann að verða gripið til mega ekki á neinn hátt rýra núverandi kjör einstæðra foreldra.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili skýrslu um málið til Alþingis fyrir 1. desember 2004.``

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til hv. efh.- og viðskn.