Staða hjóna og sambúðarfólks

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:42:24 (873)

2003-10-28 17:42:24# 130. lþ. 15.17 fundur 47. mál: #A staða hjóna og sambúðarfólks# þál., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna framkominni þáltill. frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni og fleiri þingmönnum, öllum úr Sjálfstfl., hygg ég, ef ég tók rétt eftir. Það hlýtur að vekja sérstaka athygli að þessir þingmenn gangi sérstaklega fram fyrir skjöldu til að flytja ályktun af þessu tagi því að við í Öryrkjabandalaginu höfum nú m.a. um nærri því áratugs skeið bent á það með hvaða hætti tekjutenging, þ.e. tenging bóta við tekjur maka í lífeyriskerfinu hafi strítt gegn hjónabandinu og stuðlað í rauninni jafnvel að hjónaskilnaði, a.m.k. dregið mjög úr hvata fólks til þess að staðfesta samvistir sínar. Og fyrir daufum eyrum þessara þingmanna vakið athygli á því að óhóflega langt væri gengið í því að skerða tekjur einstaklinga á grundvelli tekna maka þeirra. Við höfum þurft að fara með þau mál fyrir dómstóla og fyrir Hæstarétt og fá stjórnarmeirihlutann og þar með hv. þm. Guðmund Hallvarðsson og félaga hans dæmda í tvígang til þess að ganga til baka með ákvarðanir í þessu efni. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson hvort hann líti svo á að tenging bóta örorkulífeyrisþega við tekjur maka þeirra sé til þess fallin að grafa undan hjónabandinu og hvort hann sé í raun með flutningi þessarar ályktunar að lýsa andstöðu við slíkar ráðstafanir í tryggingakerfinu.