Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:53:40 (877)

2003-10-28 17:53:40# 130. lþ. 15.20 fundur 91. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhagsaðstoð sveitarfélags) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þeir hv. þingmenn sem flytja málið með mér eru hv. þm. Össur Skarðhéðinsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Björgvin G. Sigurðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson og Jóhann Ársælsson.

Markmið þessa frumvarps er að felldur verði niður skattur á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Rétt til fjárhagsaðstoðar eiga þeir einstaklingar og fjölskyldur sem hafa ónógar tekjur sér og sínum til lífsviðurværis.

Rökin fyrir afnámi skattlagningarinnar eru augljós. Um er að ræða neyðaraðstoð sem ætluð er til skamms tíma og þar af leiðandi um lágar upphæðir að ræða, enda hugsaðar til þess að fólk geti dregið fram lífið í stuttan tíma meðan verið er að komast yfir erfiðleika. Af sjálfu leiðir að afar óeðlilegt er að taka skatt af slíkum bótum. Skattlagning fjárhagsaðstoðar hefur líka leitt til þeirrar tilhneigingar að halda bótunum sem næst skattleysismörkum til að reyna að forðast skattlagningu þeirra. Skattleysismörkin hafa á undanförnum árum ekki fylgt almennum verðlagshækkunum og vísitölu sem aftur hefur því leitt til þess að fjárhagsaðstoðin hefur lítið hækkað.

Óeðlilegt er að skattleggja þessa fjárhagsaðstoð enda er hún aðeins veitt þeim sem ekki eiga fyrir brýnustu nauðþurftum. Ekki er óalgengt að þeir sem leita sér fjárhagsaðstoðar þurfi aftur að leita aðstoðar gagngert til að geta greitt skatta af fjárhagsaðstoðinni sem þeir fengu árið áður. Það sýnir kannski best fáránleika málsins. Þetta sýnir kannski best hve fáránlegt er að skattleggja slíka neyðaraðstoð.

Frú forseti. Ég tel næsta víst að ef á það mundi reyna í þingsölum þá hefði þetta mál þingmeirihluta. Ég held að allir flokkar, nema Sjálfstfl., hafi skilning á að það eigi að afnema skattlagningu á slíka fjárhagsaðstoð. Ég minnst þess að þegar ég var í stóli félagsmálaráðherra hafði ég oft á orði að óeðlilegt væri að skattleggja þessa fjárhagsaðstoð, reyndar var það svo að húsaleigubætur komust ekki á, hlutu ekki samþykki Sjálfstfl., nema þær yrðu skattlagðar. Þetta er með sama hætti varðandi fjárhagsaðstoðina. Af einhverjum ástæðum telja sjálfstæðismenn brýnt að hafa peninga af fólki sem í neyð sinni þarf að leita eftir fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum.

Þetta er afar sérstætt í ljósi þess að sjálfstæðismenn hafa verið í fararbroddi fyrir því á umliðnum árum að lækka skatta hjá þeim sem mestar hafa tekjurnar, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar. En það ætlar allt um koll að keyra hjá þeim ef á því er imprað að lækka skatta örlítið á þeim sem minnstar hafa tekjurnar. Fólk sem hefur lágar tekjur eða meðaltekjur og lífeyrisþegar, sem voru fyrir tveimur árum með tekjur undir 90 þús. kr. á mánuði, borga í ríkissjóð einn milljarð af sínum litlu tekjum í skatt. Það er náttúrlega til skammar, frú forseti, að tekinn skuli í skatt einn milljarður af fólki sem á ekki fyrir brýnustu nauðþurftum sér og sínum til framfærslu á milli mánaða.

En með þessu frv. er gerð tilraun til að breyta þessu, frú forseti. Reyndar gerðum við tilraun, þegar stóru skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar fóru í gegn fyrir 2--3 árum, til að flytja brtt. í þá veru að hætta að skattleggja neyðaraðstoð við þá verr settu í þjóðfélaginu en hún var felld af stjórnarmeirihlutanum.

Annars staðar á Norðurlöndum, svo að því sé haldið til haga, hefur ekki verið tekinn skattur af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í Danmörku var þó fyrir þremur til fjórum árum tekin upp skattlagning á fjárhagsaðstoðinni um leið og viðmið aðstoðarinnar var samræmt um allt landið. Þar eru fjárhæðir slíkrar aðstoðar á hinn bóginn líka miklu hærri en hér á landi. Í raun er þeim upphæðum ekki saman að jafna, frú forseti.

Þetta eru ekki háar fjárhæðir fyrir ríkissjóð en skipta öllu fyrir þá sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Samkvæmt lauslegu mati Þjóðhagsstofnunar á árinu 2001 kostar það 120--135 millj. kr. að hætta að skattleggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Gera má ráð fyrir nokkuð hærri fjárhæð nú þar sem fjárhagsaðstoðin hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2000 fóru tæplega 600 millj. kr. í fjárhagsaðstoð í Reykjavík en áætlað er að fjárhagsaðstoðin verði um 1.200 millj. kr. á yfirstandandi ári. Þannig hefur fjárhagsaðstoðin aukist um helming á stuttum tíma, þ.e. frá árinu 2000.

[18:00]

Hvaða skýringar eru á þessu, frú forseti? Ja, þær má tína til margvíslegar. Við höfum oft rætt það hér í þingsölum að fátækt hefur verið að aukast í þjóðfélaginu og hvernig hjálparstofnanir hafa þurft að koma til með neyðaraðstoð og matargjafir handa fólki sem hefur ekki átt fyrir mat út mánuðinn eða hefur ekki getað haldið jólin á eðlilegan hátt. Þetta höfum við verið að sjá í góðæri undanfarinna ára. Við höfum séð þetta í Hjálparstofnun kirkjunnar, mæðrastyrksnefnd og hjá sveitarfélögum þar sem fjárhagsaðstoðin hefur blásið út.

Við höfum vissulega séð það líka að þegar ríkisstjórnin hefur skert lífeyrinn eins og hún hefur gert frá 1996 með því að afnema tengingu lífeyris við launavísitölu og breyta viðmiði að því er varðar atvinnuleysisbætur hafa lífeyrisgreiðslur og einkum atvinnuleysisbætur verið skertar svo verulega að ef þær hefðu í dag sama viðmið og þær höfðu á árinu 1996 væru þær 15 þús. kr. hærri á mánuði. Það er verið að hafa af atvinnulausum, þeim sem minnst hafa milli handanna, um 180 þús. kr. á ári, frú forseti. Þetta hefur haft þær afleiðingar að þegar verið er að rýra kjör þessa fólks sem verst er statt í þjóðfélaginu svo verulega eins og gert hefur verið á umliðnum árum kemur það auðvitað út í auknum útgjöldum hjá sveitarfélögum vegna þess að meiri þörf verður fyrir fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum. Ríkið ýtir raunverulega útgjöldum yfir á sveitarfélögin og býr svo um hnútana að þeir sem verst hafa það í þjóðfélaginu þurfa að leita eftir aukinni aðstoð hjá sveitarfélögum gegnum fjárhagsaðstoðina. Þetta sjáum við í þeim tölum sem ég nefndi, þ.e. bara fyrir Reykjavík eina hefur fjárhagsaðstoðin tvöfaldast, farið úr 600 millj. í 1.200 millj. á þessu ári.

Mér finnst furðulegt, virðulegi forseti, að ekki skuli heyrast meira frá sveitarfélögunum vegna þess að það er algengt að ríkisvaldið fari í gegn með alls konar lagabreytingar í þinginu án þess að hafa um þær samráð við sveitarfélögin. Við getum bara rifjað upp að þegar skattalagabreytingin sem auðveldaði það að færa rekstur úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög fór í gegn var reiknað út að með þeirri lagabreytingu --- það jókst mjög að einstaklingar flyttu starfsemi sína yfir í einkahlutafélög út af skattalegu hagræði --- skertust tekjur sveitarfélaganna um einn milljarð. Ég hygg að ég muni þá tölu rétt. Með því að skerða lífeyri og atvinnuleysisbætur er verið að koma útgjöldum bakdyramegin yfir á sveitarfélögin. Þessu er brýnt að halda til haga þegar við ræðum þetta mál sem ég hélt að væri sjálfsagt að gæti farið í gegnum þingsalina og orðið að lögum vegna þess að eins og ég segi er ekki forsvaranlegt að skattleggja þessa fjárhagsaðstoð.

Hverjir eru það sem njóta fyrst og fremst fjárhagsaðstoðarinnar? Það eru einstæðir foreldrar, einstaklingar eru vaxandi hópur þeirra sem leita sér fjárhagsaðstoðar og síðan eru það lífeyrisþegar, atvinnulausir og tekjulágar, barnmargar fjölskyldur. Þetta er hópurinn sem er verið að seilast í vasann hjá. Þegar hann hefur leitað sér fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögunum er hún skattlögð hinum megin og með þeim afleiðingum, eins og ég sagði, að þetta bítur allt í skottið á sjálfu sér og viðkomandi þarf oft að leita aftur til sveitarfélaganna til þess að eiga fyrir skattlagningunni á fjárhagsaðstoðina.

Það er auðvitað mjög mismunandi hversu lengi fólk hefur þörf fyrir fjárhagsaðstoð. Það er algengt að það sé um nokkurra mánaða skeið en það hefur verið reiknað út að 5--10% af heildinni hafi á undanförnum þremur árum fengið fjárhagsaðstoð í ár eða lengur. Fólk þarf orðið að treysta mjög á það, ekki síst atvinnulausir. Þeir sem vegna veikinda eða annarra erfiðleika hafa ekki getað verið á vinnumarkaðnum þurfa að treysta svona lengi á fjárhagsaðstoðina, eitt ár eða lengur. Virðulegi forseti. Það eru ekki bara atvinnulausir og lífeyrisþegar sem endar ná ekki saman hjá sem þurfa að leita sér fjárhagsaðstoðar, heldur er það í vaxandi mæli fullvinnandi fólk sem nær ekki endum saman. Það segir auðvitað sína sögu vegna þess að ég held að það sé ekki langt um liðið, kannski örfá ár síðan við fengum einmitt þær upplýsingar að það væru ekki bara þeir sem ættu við mikla erfiðleika að stríða vegna atvinnuleysis, heilsubrests eða annars sem þyrftu að leita sér fjárhagsaðstoðar, heldur líka fullvinnandi fólk.

Sýnt hefur verið fram á það með ýmsum talnalegum samanburði í norrænum könnunum að útgjöld vegna félagslegrar aðstoðar eru hvað minnst á Íslandi. Það er ekki eins og hægt sé að líta á það, eins og mér finnst stundum sumir gera, sem þjóðfélagið standi og falli með því að það séu skertar atvinnuleysisbætur eða kjör þeirra verst settu. Við veitum, virðulegi forseti, miklu minna fé til þessara félagslegu þátta en grannþjóðir okkar sem við berum okkur saman við, miklu minna til lífeyrismála elli- og örorkulífeyrisþega, miklu minna til málefna barna og atvinnulausra og er það auðvitað einstakt. Það verður lengi í minnum haft þegar þeir stjórnarflokkar sem að þessari ríkisstjórn standa komu úr kosningum þar sem þeir ætluðu allt að gera fyrir þá sem verst höfðu það. Ég minnist þess, virðulegi forseti, að ég sat stóra ráðstefnu sem ASÍ boðaði til þar sem kynnt var skýrsla um neyðaraðgerðir fyrir fátækt fólk, m.a. atvinnulausa þar sem lagt var til að atvinnulausir fengju lágmarkslaun í atvinnuleysisbætur, þ.e. 93 þús. Þá vantaði ekki að forsvarsmenn stjórnarflokkanna, hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. ef ég man rétt, sem mættu á þann fund hefðu góð orð um að virkilega þyrfti að bretta upp ermar, taka til hendi við að bæta kjör þeirra sem verst hafa það í þjóðfélaginu.

En hvert er svo þeirra fyrsta verk, virðulegi forseti? Það er að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, ráðast að atvinnuleysisbótunum, skerða þau smánarkjör sem atvinnulausir hafa, um 77 þús. kr. á mánuði, skerða þau í fyrsta mánuði í atvinnuleysinu um 10 þús. kr. Ég spái því, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. verði fyrr en seinna rekinn til baka með þá ætlan sína að skerða kjör atvinnulausra og ætli það verði ekki hæstv. forsrh., sem oft er í skjóli þegar verið er að ræða erfiða hluti sem snerta skerðingu á félagslegum réttindum eða í heilbrigðiskerfinu, sem komi fram áður en fjárlög verða afgreidd og tilkynni að hætt verði við að skerða þessa þrjá daga hjá atvinnulausum. Þessu spái ég, virðulegi forseti. Og ég trúi því ekki að verkalýðshreyfingin ætli að láta þetta verða einhverja skiptimynt í kjarasamningum, skiptimynt í staðinn fyrir launabætur svo sjálfsagt sem það er að ríkisstjórnin falli frá þeirri ósvinnu sem það er að skerða atvinnuleysisbæturnar. Ég skora á hæstv. félmrh. að verða fyrri til, verða á undan hæstv. forsrh., að tilkynna þjóðinni, tilkynna atvinnulausum, tilkynna fátæku fólki, að hann hafi gert mistök þegar hann blessaði þetta í fjárlagafrv. sem nú er til meðferðar í þinginu. Það er slæmt, virðulegur forseti, að hann geti ekki verið við þessa umræðu og rætt við okkur um þennan þátt mála. Félagslega aðstoðin, félagsþjónustan, heyrir undir ráðuneyti hans þannig að það hefði verið mjög gott að fá afstöðu hæstv. ráðherra til þessa máls sem við ræðum hér. Mér skilst, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. sé bundinn á Norðurlandaráðsfundi þannig að hann hefur auðvitað lögmæt forföll, ef ég veit rétt.

Ég vil aðeins drepa á eitt, virðulegi forseti, það vantar töluvert upp á að reglur um fjárhagsaðstoð séu samræmdar milli þessara u.þ.b. 100 sveitarfélaga og ég tel, virðulegi forseti, að það væri þarfaverk ef menn yndu sér í að reyna að samræma slíkar reglur milli sveitarfélaga. Víða um land hafa sveitarfélög sameinast um félagsmálanefndir og eru reglurnar því mun færri en sveitarfélögin en mér finnst Reykjavíkurborg hafa nokkra sérstöðu varðandi fjárhagsaðstoðina. Þar er t.d. ekki tekin með fjárþörf vegna barna en á móti eru meðlög, mæðralaun og barnabætur ekki reiknuð til tekna við útreikning fjárhagsaðstoðar. Það er viðurkennt með þessu að t.d. barnabæturnar séu raunveruleg eign barnanna eins og gert er víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við og þetta sé eitthvað sem á að taka út fyrir sviga og ekki tekjutengja eins og við gerum hér. Sennilega tekjutengir ekkert ríki sem við berum okkur saman við barnabætur. Þau eru a.m.k. mjög fá. Mig minnir að þau hafi verið eitt eða tvö síðast þegar ég skoðaði það, virðulegi forseti. Sum sveitarfélög telja allar greiðslur með börnum til tekna með börnum nema umönnunarbætur og reikna síðan framfærslu þeirra með í fjárþörfina. Þessar aðgerðir koma auðvitað misvel út miðað við aðstæður fjölskyldna og geta fjölskyldur sem búa við sambærilegar fjárhags- og félagslegar aðstæður fengið mismunandi aðstoð eftir sveitarfélögunum.

Virðulegi forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar. Málið skýrir sig mjög sjálft og er einfalt í sniðum. Þetta er aðeins ein grein þar sem lagt er til að styrkur sem greiddur er með fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi verði undanþeginn skattlagningu. Ég hef trú á því þar sem ekki er um mikil fjárútlát fyrir ríkissjóð að ræða, um 200 millj., að þetta mál hafi breiðan stuðning hér á þingi. Það væri fróðlegt að fá fram, og þjóðin vissi þá um það, hvers vegna Sjálfstfl. hefur ávallt lagst gegn því að afnema þessa skattlagningu á fátækasta fólkið, það fólk sem minnst ber úr býtum í þjóðfélaginu. Fyrir því eru ekki nokkur rök. Eina ferðina enn er gerð tilraun til að ná þessu máli í gegnum þingið. Nú er kominn nýr formaður í efh.- og viðskn., hv. þm. Pétur H. Blöndal, 3. þm. Reykv. s. Ég veit ekki hvort það veit á að þetta mál eigi greiðari aðgang í gegnum þingið og geti orðið að lögum en ég heyrði að hv. þm. bað um orðið og við bíðum spennt eftir afstöðu hans til þessa frv.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.