Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:29:47 (880)

2003-10-28 18:29:47# 130. lþ. 15.20 fundur 91. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhagsaðstoð sveitarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég hef staðið að því að aðstoða fólk við að skilgreina skuldir sínar, kortleggja þær og greiða þær niður oft af ekki mjög háum tekjum og menn hafa lagt mjög hart að sér í mörg ár við að koma skuldum sínum á hreint. Þetta fólk sem oft er ekki með háar tekjur borgar skatta af öllum sínum tekjum áður en það borgar niður skuldirnar. Það verður svo að horfa upp á aðra sem fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu og þurfa ekki að borga skatta af tekjum sínum og fá skuldir sínar felldar niður.

Það er kannski rétt sem hv. þm. sagði með uppáskriftir, þeim óvana og ósið á íslenskum fjármálamarkaði, að þar geta menn lent í mjög slæmum málum. Auðvitað eru menn fjárráða. Auðvitað eiga menn að hafa vit á þessu en margir gera það ekki og skrifa upp á í einhverju léttlyndi, jafnvel fyrir lánasjóðinn og þurfa síðan að standa skil af þeim greiðslum, oft milljónum. Þetta er mjög slæm staða oft á tíðum og ég hef verið eindreginn stuðningsmaður hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar í því að taka á þessum málum. En við skulum alltaf passa okkur á því að það er til fólk sem leggur mjög hart að sér að borga skuldir sínar niður og við þurfum að gæta samræmis milli þess fólks sem þarf að borga skatta af tekjum sínum að fullu á móti hinum sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna til að gera upp skuldir sínar og eiga að fá það skattfrjálst.