Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:50:08 (884)

2003-10-28 18:50:08# 130. lþ. 15.22 fundur 99. mál: #A afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. talaði um áhættu og þá væntanlega áhættu almennings, launþega, af verðbólguskoti eins og var hérna fyrir tveim árum þegar verðbólga fór upp í 8% og skuldirnar jukust sem því nam, verðtryggðu skuldirnar. Hann gleymir því að einn stærsti þáttur í verðbólgu undanfarinna áratuga hefur verið hækkun á húsnæði. Hækkun á húsnæði hefur aukið eignir fólksins. Eignirnar hafa hækkað miklu meira heldur en lánin, alveg sérstaklega í Reykjavík og það er áhætta sem ég mundi gjarnan vilja koma að. Hvort sem menn kaupa það með verðtryggðum eða óverðtryggðum lánum, alveg sama, þá felst áhættan í því að kaupa eign sem hugsanlega er komin í hámark og gæti lækkað í verði. Það er aftur áhætta sem er miklu stærri heldur en það sem við erum að tala um út af einhverju verðbólguskoti. Segjum að fasteignaverð sé komið í efri mörk. Það eru ákveðin efri mörk á fasteignaverði sem markast af nýbyggingarverði og framboði lóða. Ef mikið er byggt vegna þess hvað verðið er orðið hátt þá getur verðið lækkað um 10--15% og þá erum við að tala um miklu meiri áhættu fyrir unga fólkið heldur en það sem talað er um í verðbólgu. Ég vil því spyrja hv. þm.: Hefur hann áttað sig á þessari stöðu og hvernig 90% lánin kynnu að koma inn í það?