Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:51:57 (885)

2003-10-28 18:51:57# 130. lþ. 15.22 fundur 99. mál: #A afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum# þál., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir áhyggjur hv. þm. Péturs Blöndals af því sem kann að gerast ef hann og aðrir þingmenn stjórnarliðsins innleiða þessi 90% lán þegar fasteignaverð er trúlega nokkuð nærri því að vera í hámarki. Það er vissulega hætta á verðfalli. Ég held að það séu ekki rök gegn því sem ég hef haldið hér fram. Ég held þvert á móti að það séu rök með því sem ég hef haldið fram vegna þess að með verðtryggingunni er verið að hækka lánin vegna hækkunar á húsnæðismarkaði ár frá ári. En ég á ekki von á því að við sjáum að sama skapi verðhjöðnun í vísitölunni þó að fasteignaverð hrapi á næstu árum. Þá erum við auðvitað í mjög alvarlegri stöðu þegar skuldir heimilanna eru orðnar jafngríðarlega stór hluti af ráðstöfunartekjum þeirra og raun ber vitni og skuldsetning fasteigna orðin svo mikil, hafandi hækkað með verðtryggingunni ár frá ári. Síðan fellur verðið á markaðnum. Þá getur það valdið skyndilegum og óvæntum áföllum fyrir almenning. Ég held að það eigi að reyna að miða kerfin við að forða almenningi frá slíkum skyndilegum og ófyrirsjáanlegum áföllum.