Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:34:42 (890)

2003-10-29 13:34:42# 130. lþ. 16.1 fundur 76. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurnum um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga:

1. Hvað líður undirbúningi heildstæðrar og samræmdrar opinberrar stefnumótunar í málefnum barna og unglinga, en samkvæmt ályktun sem Alþingi samþykkti 11. maí 2001 átti að leggja framkvæmdaáætlun um slíka stefnu fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002?

Alþingi ályktaði hinn 11. maí 2001 að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Í ályktuninni segir að markmið stefnumótunarinnar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Einnig segir að á grundvelli stefnumótunar nefndarinnar verði henni falið að undirbúa téða stefnu og skuli gerð 5 ára framkvæmdaáætlun í samræmi við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þar með talið félagasamtökum unglinganna sjálfra.

Þann 25. október 2001 skipaði forsrh. 7 manna nefnd samkvæmt tilnefningu frá fimm ráðuneytum, félmrn., dómsmrn., heilbr.- og trmrn., menntmrn. og umhvrn., sem og Sambandi ísl. sveitarfélaga og var síðan Drífa Hjartardóttir alþingismaður skipuð til að vera formaður þessarar nefndar.

Á starfstíma nefndarinnar hefur hún leitað upplýsinga hjá um 130 aðilum um hver séu helstu áhyggjuefni varðandi hagi barna og unglinga nú um þessar mundir og til næstu ára horft. Á grundvelli þeirra upplýsinga er það markmið nefndarinnar að setja fram nokkur stefnumið sem unnt er að vinna að með árangursríkum hætti á næstu 5 árum. Þó að að því væri stefnt að nefndin lyki vinnu nokkru fyrir alþingiskosningarnar sl. tókst það ekki. Verkefnið reyndist umfangsmeira en horft var til í fyrstunni. Því tekur nefndin upp störf þar sem frá var horfið nú að loknum kosningum og skipun nýrrar stjórnar. Verkefnið er að fara yfir vinnuna þar sem frá var horfið, taka tillit til breytinga eins og hv. þm. nefndi í sinni ræðu, hugmynda og tillagna í framhaldi af umræðum um efnið, nýrra upplýsinga sem fram hafa komið, svo og til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og frv. til fjárlaga fyrir árið 2004. Það er stefnt að því að endanlegri skýrslu verði skilað til forsrn. fyrir lok þessa árs.

Seinni liður fyrirspurnarinnar hljóðar þannig:

2. Hvenær verður framkvæmdaáætlun lögð fyrir Alþingi og hverjar eru helstu tillögur að opinberri stefnumótun í málefnum barna og unglinga?

Því er til að svara að eins og kom fram í svari við 1. lið er ekki gert ráð fyrir að nefndin ljúki störfum fyrr en við lok þessa árs. Í framhaldinu verður rætt af stjórnvöldum, ráðuneyti og ríkisstjórn, einhvern tíma til að fara yfir skýrsluna og setja fram framkvæmdaáætlun á grundvelli hennar. Því er stefnt að því að framkvæmdaáætlun verði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar, umræðu og afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt tel ég ekki vera efni til að tína út úr vinnu nefndarinnar á þessu stigi, ekki til gagns fyrir umræðuna hvaða tillögur munu vera þar fremstar á blaði. Þó að ég hafi séð yfirlit um slíkar hugmyndir frá nefndinni hafa þær ekki verið afgreiddar og ég tel ekki vera til framdráttar fyrir framgang málsins að fara að tína þær úr samhengi á þessu stigi máls undir fyrirspurnaliðnum.