Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:38:37 (891)

2003-10-29 13:38:37# 130. lþ. 16.1 fundur 76. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin þótt ég harmi þann drátt sem er á því að framkvæmdaáætlunin verði lögð fyrir þingið. Það er þó gott að heyra að það er hreyfing á málinu. Hæstv. ráðherra tímasetur hér að verkefninu ljúki um nk. áramót og stefnt er að því að leggja fram framkvæmdaáætlun á yfirstandandi þingi. Það er út af fyrir sig jákvætt. Ég tók eftir því að þessi nefnd var ekki skipuð fyrr en í október þó að tillagan hafi verið samþykkt í maí þannig að það hefur orðið óþarfadráttur á þessu verki þó að ég viðurkenni vel og gerði í framsögu minni fyrir fyrirspurninni að þetta sé umfangsmikið verk.

Ég vil líka segja það, herra forseti, að ég vona svo sannarlega að drögin sem lágu fyrir ráðstefnunni í október breytist og það verði tekið tillit til þeirra ábendinga sem fram komu. Ég heyrði ekki annað á máli hæstv. ráðherra en að það yrði gert. Það skorti verulega á í þeim drögum sem lágu fyrir að þau væru í samræmi við það markmið sem þessari stefnumótun var sett í ályktun Alþingis frá maí 2001. Þeir annmarkar voru á stefnumótuninni að það vantaði heildstæða yfirsýn og heilsteyptar aðgerðir og tillögur í málefum allra barna en aðgerðir og stefnumótun virðist taka meira mið af afmörkuðum hópum en börnum og unglingum í heild sinni í þeim drögum sem lágu fyrir.

Ég ætla ekki að rekja þessar athugasemdir frekar hér en nefndin sem vinnur þetta mál fékk í febrúarmánuði sl. ábendingar mínar og nokkurra annarra þingmanna í þessu máli þar sem m.a. er lögð áhersla á að framkvæmdaáætluninni verði stillt upp í forgangsröð og hún tímasett auk þess sem gerð verði kostnaðar- og fjármögnunaráætlun sem fylgi áætluninni. Það er nauðsynlegt ef við eigum að sjá árangur af þessu starfi og þeirri framkvæmdaáætlun sem leggja á fyrir þingið. En ég vona að þau tímamörk sem hæstv. ráðherra lýsti hér standi.