Endurskoðun laga um meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:47:50 (895)

2003-10-29 13:47:50# 130. lþ. 16.2 fundur 49. mál: #A endurskoðun laga um meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hæstv. dómsmrh. tjáði sig ekki um efnisinnihald. Það er kannski ekkert óeðlilegt við það. Það er fyrst og fremst beint spurningum til hans um hvernig gangi hjá réttarfarsnefnd sem er að endurskoða þessi lög. Sjálfum finnst mér hér vera á ferðinni mannréttindamál sem þoli ekki þá töf sem fyrirsjáanleg er. Ég minni á að fyrst var talað fyrir málinu í febrúarmánuði árið 2002. Það fékk ágætan hljómgrunn. Hið sama gildir um umfjöllun í allshn. þingsins. Einnig þar tóku margir undir efnisatriði frv. Niðurstaðan varð síðan sú að allshn. sameinaðist um að skjóta málinu til dómsmrn. í ljósi þess að á vegum þess væri verið að vinna að endurskoðun laganna.

Ég var orðinn óþolinmóður þegar liðið var langt á haust 2002 og 11. desember í fyrra spurði ég þáv. hæstv. dómsmrh. hvað þessari vinnu liði. Hæstv. ráðherra Sólveig Pétursdóttir sagði orðrétt m.a., með leyfi forseta:

,,Það er úrvalslið sem skipar réttarfarsnefndina. Því er ekki að neita að ég hef mikinn áhuga á að sjá tillögur frá þeim sem fyrst. Ég get að vísu ekki fullyrt um það núna hvenær þessari vinnu lýkur en ég vænti þess að það verði innan tíðar og vonast svo sannarlega til þess.``

Nú upplýsir hæstv. dómsmrh. okkur um að þessari vinnu ljúki ekki fyrr en vorið 2004 og að við megum ekki vænta þess að frv. komi fram á Alþingi frá ríkisstjórninni fyrr en haustið 2004. Ég vek athygli á að við (Forseti hringir.) erum að fjalla hér um mannréttindamál sem þolir ekki þessa bið.