Aukin meðlög

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:52:35 (897)

2003-10-29 13:52:35# 130. lþ. 16.3 fundur 128. mál: #A aukin meðlög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þegar litið er á fyrirspurnir þingmannsins má segja að auðvelt sé að svara fyrri spurningunni játandi. Leitað hefur verið álits á þessu og þetta mál hefur verið kannað. Ég vil þó sérstaklega taka fram að menntunarframlög og sérframlög eru greidd úr Tryggingastofnun ríkisins innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja. En aukið meðlag er ekki greitt úr Tryggingastofnun. Leitað var til réttarfarsnefndar eins og kom fram í svari forvera míns á þessum stað við fyrirspurn hv. þm. á sínum tíma. Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr bréfi réttarfarsnefndar sem barst ráðuneytinu sem svar við þessu erindi. Þar segir:

,,Leyfir réttarfarsnefnd sér að ganga út frá því að ráða megi af þessum gögnum að hverju erindi yðar lýtur.``--- þ.e. að umræðunum hér á þingi um fyrirspurn hv. þm. á sínum tíma.

,,Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, samanber 24. gr. barnalaga, er heimilt án undangenginnar dómsúrlausnar eða dómsáttar að gera fjárnám fyrir þeim meðlagsgreiðslum sem um ræðir í erindi yðar. Með þessu nýtur krefjandi meðlags þess réttarfarshagræðis sem frekast getur almennt staðið til boða að núgildandi lögum til innheimtu annars konar kröfu en þeirrar sem tryggð kann að vera með veði. Fær réttarfarsnefnd ekki séð á hvaða hátt megi ganga lengra til að greiða fyrir innheimtu meðlagskröfu með því að breyta lögum nr. 90/1989 eða öðrum réttarfarslögum.

Til þess má hins vegar líta að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, getur hún tekið að sér, samkvæmt beiðni og gegn greiðslu, innheimtu á þeim hluta barnsmeðlags sem er hærra en lögmæltur barnalífeyrir svo og öðrum kröfum sem framfærslumaður barns kann að eiga á barnsföður eða barnsmóður. Réttarfarsnefnd er ekki kunnugt um hvort þessarar heimildar hafi verið neytt í einhverjum mæli í framkvæmd. Hún telur þó ástæðu til að ætla að svo sé ekki. Mætti allt að einu benda á að þetta úrræði getur staðið til boða handa þeim sem á vangoldin hjá foreldri barns aukin meðlög, sérframlög eða menntunarframlög samkvæmt úrskurði sýslumanns. Ef til álita kæmi að gera breytingar á lögum til að liðsinna þeim sem eiga í vandkvæðum við innheimtu á slíkum meðlögum eða framlögum mætti huga að því hvort efni séu til að breyta tilvitnuðu ákvæði laga nr. 54/1971 þannig að Innheimtustofnun sveitarfélaga yrði ekki aðeins heimilt að taka að sér innheimtu þessara krafna heldur skylt ef eftir því er leitað, svo og að fella niður áskilnað um að hún geri þetta gegn greiðslu.``

Þetta er það svar sem kom frá réttarfarsnefnd. Það liggur fyrir varðandi hins vegar þann lagabálk sem þarna er nefndur um Innheimtstofnun sveitarfélaga að það er e.t.v. ekki á verksviði dómsmrn. að beita sér gagnvart þeirri stofnun eða fara með þau mál, enda er þar um samskipti við sveitarfélög að ræða sem eru í höndum félmrn. Réttarfarsnefnd nefnir þarna úrræði sem væri hægt að skoða. En hún segir jafnframt, eins og fram hefur komið, að eins og málum er háttað varðandi réttarfarslögin þá njóta þessar kröfur þess réttar sem bestur er fyrir utan kröfur sem eru tryggðar með veði.