Flutningur sláturfjár yfir varnarlínur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:00:46 (900)

2003-10-29 14:00:46# 130. lþ. 16.4 fundur 121. mál: #A flutningur sláturfjár yfir varnarlínur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Sauðfjársjúkdómar ollu miklum skaða hér á landi fyrr á tíð og valda tjóni enn í dag. Riðuveikin hefur reynst erfið viðfangs og virðist geta leynst jafnvel í mörg ár á svæðum þar sem skorið hefur verið niður. Virðing manna og þekking á gildi þeirra varnarlína sem eru í landinu gegn sjúkdómi í sauðfé virðist þverrandi. Nú hallast menn að því t.d. að riðuveiki sem nýlega kom upp á Suðurlandi hafi borist þangað með heyi af sýktu svæði á Norðurlandi. Virðing stjórnvalda og trú á gildi þessara varnarlína virðist líka hafa minnkað mikið.

Sérstaka athygli vekur framganga stjórnvalda á þessu sumri hvað varðar rekstur sláturhúsa. Þar er sem ríkisstjórnin kasti út gulli úr ríkissjóði og láti skeika að sköpuðu eins og Egill forðum vildi gera um hver skuli hljóta. Ég tel að það sé kominn tími til að hæstv. ráðherra þessara mála útskýri það fyrir þjóðinni hver stefna hans og ríkisstjórnarinnar er í þessum málum. Telur hæstv. ráðherra það engu máli skipta hvar slátrað er í landinu, hvort sláturfé er keyrt milli landshorna yfir varnarlínur af svæðum þar sem riðusmit hefur komið nýlega upp og inn á önnur þar sem smit hefur ekki greinst lengi, svo dæmi sé tekið? Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu efni? Hvernig kemur hún fram í stuðningi við úreldingu sláturhúsa?

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann telji að mikill og vaxandi flutningur sláturfjár yfir varnarlínur sé forsvaranlegur með tilliti til útbreiðslu sjúkdóma í sauðfé, svo sem riðuveiki. Við þurfum að fá já eða nei við þessu. Ef svo er ekki, hvað hefur ráðherrann gert eða fyrirhugar að gera til að tryggja sauðfjárveikivarnir?

En það er líka annar afar mikilvægur hluti þessa máls að þau þrjú svæði á landinu þar sem aldrei hefur greinst riða verði varin. Frá þeim svæðum hafa bændur fengið líflömbin. En nú háttar svo til að fé af þessum svæðum er flutt landshorna á milli til slátrunar á farartækjum sem hafa verið notuð til að flytja fé af svæðum sem hafa þennan sjúkdóm. Þessi þrjú svæði eru í rauninni eins konar líftrygging íslenska sauðfjárstofnsins. Finnst hæstv. ráðherra, sem ekki vill hleypa ketti inn í landið öðruvísi en að hafa hann í einangrun langtímum saman, vansalaust að ekki gildi sérstakar reglur til varnar þessum hreinu svæðum?

Það er svo líka mikilvægt hvað þessi svæði varðar að hægt er að selja kjöt frá þeim undir merki sérstaks hreinleika vegna þess að þar er ekki riða. Mér er kunnugt að fyrirspurnir um hvort slíkt væri fyrir hendi hafa komið erlendis frá. Og þá er ekki hægt að verða við þeim óskum.

Hyggst ráðherra gera ráðstafanir til að verja Strandir, Snæfellsnes og Þistilfjörð fyrir riðusmiti, t.d. með því að hlutast til um að sérstök sláturhús verði starfrækt þar og umferð fjárflutningabíla af riðusmituðum svæðum um þau héruð verði bönnuð?