Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:17:26 (906)

2003-10-29 14:17:26# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.

1. gr. frv. hljóðar svo:

Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, 2. tölul., sem orðast svo: Útgjöld vegna sannanlegs ferðakostnaðar til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. á ári en þó aldrei hærri en 400.000 kr. á ári og er í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.

Síðan segir í 2. gr. en frv. er aðeins tvær greinar:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2006.

Með frv. fylgir stutt greinargerð, svohljóðandi:

Með frumvarpi þessu er lagt til að kostnaður manna við ferðir til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. verði frádráttarbær frá tekjum áður en til skattlagningar kemur, þó að hámarki 400.000 kr. á ári.

Frádráttarheimild þessi gildir ekki um þá sem fá útlagðan kostnað greiddan í formi ökutækjastyrkja enda eru slíkar greiðslur frádráttarbærar skv. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. Við framkvæmd ákvæðisins er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur gildi um sönnun á útlögðum kostnaði og gilda um sönnun á kostnaði á móti ökutækjastyrkjum.

Hér er um sanngirnismál að ræða enda um að ræða kostnað sem til fellur við öflun atvinnutekna. Eins og frumvarpið er fram sett er markmiðið einkum að koma til móts við þá sem þurfa að sækja vinnu um langan veg og bera af því mikinn kostnað.

Frumvarp þetta samrýmist vel þeirri stefnu sem haldið hefur verið á lofti í byggðamálum og felst í því að stækka atvinnusvæði á landsbyggðinni. Mikill ferðakostnaður getur hamlað slíkri þróun og er til þess fallinn að draga úr samkeppnishæfni byggðarlaga um vinnuafl. Mikill ferðakostnaður getur einnig virkað vinnuletjandi með þeim afleiðingum að menn sjá hag sínum betur borgið með því að þiggja atvinnuleysisbætur en að sækja vinnu í næsta byggðarlag.

Þess má geta að í Noregi eru í gildi reglur um skattalega ívilnun til þeirra sem bera mikinn kostnað af ferðalögum til og frá vinnu en aðstæður þar eru að mörgu leyti svipaðar og hér á landi.

Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2005 og komi til framkvæmda við álagningu árið 2006.

Virðulegi forseti. Fyrir þessu máli höfum við áður mælt í hv. Alþingi og sá sem hér stendur verið 1. flm. málsins. Við lítum svo á að hér sé á ferðinni frv. sem getur skipt verulegu máli fyrir fólk sem þarf að sækja atvinnu um langan veg og þetta geti einnig skipt verulegu máli í byggðalegu tilliti.

Atvinnuástand getur verið mjög mismunandi og ótryggt. Þó að stærstu atvinnusvæði landsins séu eðlilega á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þar megi að öðru jöfnu finna nýja atvinnu ef menn missa atvinnu sína, þá er það ekki jafnauðvelt á landsbyggðinni. Reyndar er nú ástandið svo á höfuðborgarsvæðinu og víðar að atvinna liggur ekki alveg á lausu þrátt fyrir góðærið eins og tölur sýna.

Það sem við flm. leggjum til er að með þessari heimild í skattalög geti launþegar nýtt sér að draga frá kostnað til og frá vinnu sinni sem þeir leggja út sannanlega við það að afla tekna. Við teljum að þetta geti orðið til þess að fólk sjái sér betur borgið en ella væri með því að sækja atvinnu jafnvel um langan veg í lengri eða skemmri tíma eftir aðstæðum.

Það er reyndar einnig þannig, virðulegi forseti, og hefur gerst í meira mæli í þjóðfélagi okkar á undanförnum árum að menn hafa verið að stofna einkahlutafélög um sjálfa sig. Þegar slíkt hefur verið gert og menn hafa aðstæður til þess að standa þannig að málum, þá er ferðakostnaður og annar kostnaður, sem telst útlagður við að ferðast t.d. til að selja vinnu sína, frádráttarbær eins og hver annar rekstrarkostnaður hjá fyrirtæki. Fólki er því mjög mismunað að þessu leyti til eftir því hvort það hefur aðstæður til þess að starfa í einkahlutafélögum eða starfa sem launþegar. Þetta hafa aðrar þjóðir viðurkennt að sé eðlilegt að taka tillit til í skattkerfum sínum. Eins og ég vék að áður hafa t.d. Norðmenn viðurkennt það að kostnað launþega megi draga frá tekjum áður en skattlagt er.

Sú upphæð sem við leggjum til sem við miðum við 120 þús. kr. á ári, þ.e. 10 þús. kr. á mánuði að jafnaði, að það þurfi að vera umfram það til að menn geti farið að nýta sér þennan frádráttarlið, er einfaldlega sett inn vegna þess að það hafa allir einhvern kostnað af ferðum sínum til og frá vinnu en hann er misjafnlega mikill. Við ákváðum þegar við vorum að vinna frv. að reyna ekki að miða við einhver ákveðin farartæki, hvorki einkabílinn, strætisvagninn, ferjuna, flugvélina né langferðabílinn og setja það upp með þeim aðferðum heldur nota krónutöluna og síðan væri það í þessu tilviki eins og fjölmörgum öðrum í sambandi við skattkerfið á ábyrgð framteljandans, þ.e. launþegans í þessu tilviki að sýna fram á það að hann hefði þennan kostnað og sá kostnaður sem hann teldi fram tilheyrði vinnunni. Sönnunarbyrðin er auðvitað hjá launþeganum. Í fyrsta lagi að telja kostnað fram og í öðru lagi að hafa rök á bak við það að sá kostnaður sé raunverulegur og draga megi það þá frá sem fer umfram 120 þús. kr. og frádrátturinn á einu ári geti að hámarki hjá hverjum einstaklingi orðið 400 þús. kr. í frádrag áður en skattlagt er. Þetta þýðir eins og þetta er upp sett að viðkomandi einstaklingur, ef hann gæti nýtt sér hámarksfrádragið, hefði þá haft kostnað á einu ári upp á 520 þús. kr. Ella næði hann ekki þessu hámarki miðað við að fyrstu 120 þús. kr. í ferðakostnað séu ekki frádráttarbærar.

Við hv. þingmenn sem flytjum þetta mál ætlum ekki að halda því fram að 120 þús. kr. séu byggðar á einhverjum hárnákvæmum vísindum um að það sé akkúrat sú upphæð sem rétt sé að hafa sem viðmiðun og kostnað umfram þá upphæð megi draga frá. Hins vegar er það svo að allir hafa einhvern kostnað af því að sækja atvinnu sína, mismunandi mikla og það verður auðvitað að semja um það lög og reglur hvernig slíkur kostnaður á að dragast frá en þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir því að hann megi nýtast launþeganum.

Við teljum, virðulegi forseti, að hér sé um réttarbót fyrir launþega að ræða og teljum að í mörgum tilvikum geti slík heimild sem hér er lögð til orðið til þess að létta fólki að takast á við breytilegt atvinnuástand. Við erum með í landi okkar því miður nokkur kerfi sem eru afar ótrygg í atvinnulegu tilliti. Þar getum við t.d. nefnt fiskveiðistjórnarkerfið þar sem menn vita varla frá degi til dags hvort atvinna þeirra helst í byggðinni eða ekki og það er í raun og veru háð ákvörðun einhvers aðila sem hefur fengið veiðirétti úthlutað hvort hann nýtir hann til atvinnusköpunar í viðkomandi byggðarlagi eða ráðstafar honum á einhvern annan hátt. Þar af leiðandi hefur fólk ekkert um það að segja.

Staða sauðfjárbænda í landinu er afar erfið og tekjur þeirra hafa verið að dragast saman á undanförnum árum. Fjöldamargir sauðfjárbændur og fólk sem býr í sveitum drýgir tekjur sínar með því að sækja vinnu utan bús og verður eðlilega að leggja kostnað fram við það að sækja þá atvinnu. Svona útfærsla gæti m.a. orðið til þess að þær tekjur sem aflað yrði utan bús yrðu drýgri en ella væri og gæti þannig stuðlað að því að ýta undir að byggð héldist í landinu til framtíðar af meira öryggi en ella. Ég held að ekki sé vanþörf á að reyna með einhverju móti, ef það samrýmist eðlilegri hugsun okkar í sambandi við skattalög, að gera skattalögin þannig úr garði að þau hjálpi frekar til og ýti undir það að fólk geti aflað sér tekna og sjái sér hag í því frekar en reyna að sækjast t.d. eftir atvinnuleysisbótum sem kann að vera annar valkostur ef fólk sér sér ekki hag í því að ferðast um langan veg til að afla sér tekna.

Auðvitað eru þessi atriði einstaklingsbundin eftir því hvernig þau snúa að viðkomandi einstaklingi og hér er eingöngu verið að leggja til almenna löggjöf og almenna heimild um að fólk geti nýtt sér þennan frádráttarlið þó að það sé ekki atvinnurekendur eða með einkahlutafélag utan um starfsemi sína heldur eingöngu venjulegir launþegar.

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að geta þess að samtök sveitarfélaga, m.a. í kjördæmi mínu, Norðvesturkjördæmi, bæði á Norðvesturlandi og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, hafa ályktað um að aðlaga beri skattkerfið, m.a. til að hvetja til þess að það þurfi búsetu og byggð í landinu. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa tillögu sem var samþykkt hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi en hún er nánast samhljóða tillögu sem var samþykkt hjá sveitarfélögum á Norðvesturlandi einnig núna í haust en þessi ályktun er frá 10. október sl. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, haldinn föstudaginn 10. október 2003, vekur athygli á því að núverandi skattaumhverfi kemur oft á tíðum í veg fyrir nútímavæðingu og aðlögun breyttra aðstæðna á landsbyggðinni. Í þessu sambandi má nefna að skattalöggjöfin gerir ekki ráð fyrir því að fólk sæki vinnu langar vegalengdir. Kostnað við akstur er ekki leyfilegt að draga frá skattskyldum tekjum og dregur þessi hái kostnaður við rekstur bifreiða verulega úr sóknarfærum fólks að búa í dreifbýli.``

Eins og ég sagði áður var mjög sambærileg ályktun samþykkt í Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Ljóst er, virðulegi forseti, að tilgangur okkar þingmanna í Frjálslynda flokknum með því að flytja þetta inn í sali Alþingis er að reyna að koma inn með tillögu sem launþegar geta nýtt sér miðað við þann kostnað sem þeir leggja fram óháð búsetu þó að það kunni vissulega að verða svo að slíkur frádráttarliður nýtist í meira mæli því fólki sem sækir atvinnu út fyrir heimasveit sína og á það þá jafnt við um Reykvíkinga sem aðra sem þurfa að ferðast út fyrir byggðarlag sitt til að afla sér tekna. Kosturinn við tillöguna miðað við þá útfærslu sem við höfum lagt upp með er sá að hún mismunar ekki fólki að þessu leyti. Ef kostnaðurinn verður til og fólk getur sýnt fram á hann, og sönnunarbyrðin er vissulega hjá framteljandanum eins og áður sagði, þá eiga allir rétt á þeim frádrætti.

Við teljum, virðulegi forseti, að hér sé þarft mál á ferðinni og muni til framtíðar jafnvel geta styrkt byggð í landinu eins og ég gat um áðan varðandi stöðu fólks í sjávarbyggðum og hinum minni stöðum, ég tala nú ekki um á stöðum þar sem komið hefur upp tímabundið ástand þar sem jafnvel enga atvinnu er að fá eins og því miður eru dæmi um nú um stundir. Tillaga sem þessi gæti ýtt undir það að fólk sækti sér þá atvinnu út fyrir viðkomandi byggðarlag vegna þess að kostnaður sem það legði fram við að fara á milli staða og komast að atvinnu á öðrum svæðum fengist dreginn frá tekjum áður en skattlagt væri og mundi þar af leiðandi hækka rauntekjur fólks frá því ástandi sem er í dag. Það væri sem sagt meira virði að sækja tekjurnar en ella væri. Við höldum að ekki sé vanþörf á því, virðulegi forseti, að reyna á einhvern hátt að koma inn með jákvæðar hugmyndir í skattkerfið sem hafa áhrif til þess að styrkja atvinnu á landsbyggðinni þar sem víða hallar undan fæti því miður og einnig til þess að koma á réttlæti meðal fólks því að ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst ekki mikið réttlæti í því að launþegi sem hefur stundað atvinnu árum saman sem launþegi, tekur síðan ákvörðun um að breyta rekstrarforminu í einkahlutafélag og heldur áfram í raun og veru nákvæmlega sömu vinnu og sömu ferðalögum og áður var, þá er kostnaðurinn allt í einu orðinn frádráttarbær en meðan hann var launþegi var hann ekki frádráttarbær. Ég minni á þá umræðu sem var í gær og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á hér í ræðustól og lýsti því yfir að hægt væri að reka öll fyrirtæki með tapi, einkahlutafélög sem önnur, hann treysti sér til þess að koma að því að tryggja taprekstur í hlutafélögum. Ég held að ég hafi skilið hv. þm. rétt, en hann er hér í salnum svo hv. þm. getur alveg örugglega, leiðrétt mig ef ég hef misskilið þetta. Það vill nú svo til að ég misskil stundum hv. þm. Það er sennilega eitthvað sem ég verð smátt og smátt að læra að skilja á annan hátt en leggja má beint út af orðum hans. En þetta var útúrdúr, virðulegi forseti, og skiptir ekki þetta frv. efni máls.

Við lítum hins vegar svo á að þetta sé mál sem geti komið landsbyggðinni vel og launþegum almennt í landinu og teljum þess vegna að það eigi að fá góða og vandaða umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. með það að markmiði að heimildin verði sett í skattalögin.

Fyrir þessu máli hefur áður verið mælt hér á þingi, virðulegi forseti, a.m.k. kannast sumir þingmenn við það og eru því kunnugir en vissulega er mikið úrval af nýjum þingmönnum sem vonandi hafa eftir mál mitt áttað sig á því hvað við erum að leggja til.

Ég held ég bæti ekki miklu meira við þetta mál í bili en mun sjálfsagt fylgjast af áhuga með umræðum ef þær verða um þetta mál og taka þátt í þeim síðar, virðulegi forseti.