Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:54:14 (910)

2003-10-29 14:54:14# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég er vissulega ekki að gera lítið úr vitsmunum fólks. En það er nú einu sinni þannig að fólk er misjafnlega viti borið. Og það er þannig að kerfin eru að verða mjög flókin. Ég rekst á það aftur og aftur í mínu starfi að fólk veit ekki af því að það á rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði. Það veit ekki einu sinni að hann sé til. Það eru meira að segja hv. þingmenn sem hafa flutt hér þingsályktunartillögur og breytingartillögur við lög sem í greinargerð stendur ekkert um alla sjúkrasjóðina sem eru starfandi í landinu. Þeir vissu það ekki. Vita hv. þm. að sjúkrasjóðir margir hverjir borga 80--90% af launum ef menn veikjast? Ég er ekkert viss um það.

Þetta kerfi er orðið svo flókið. Ég rekst líka á það að fólk sem á rétt á örorkulífeyri sækir ekkert um hann af því það veit ekkert um hann. Ég er ekki að segja að þetta fólk sé heimskt, en kerfin eru orðin svo flókin og menn sitja og úthugsa kerfin aftur og aftur, einhverjir spekingar sem eru vel inni í hlutunum. Akkúrat þessum hluta, ferðakostnaðinum. Þeir vita allt um ferðakostnað. En þeir vita ekkert um alla hina endana, sjúkrasjóðina og bara nefna það hvað kerfin eru orðin flókin. Tryggingastofnun borgar um 150 tegundir trygginga, 150 tegundir bóta. Vissu hv. þingmenn það? Frammi fyrir þessu stendur fólk sem er kannski ekki sérfræðingar á þessu sviði og þarf að kunna skil á þessu.

Ég held því fram að kerfin séu orðin allt of flókin. Það er betra að hafa þau eitthvað einfaldari þannig að fólk skilji þau og nýti sinn rétt.