Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 15:02:38 (915)

2003-10-29 15:02:38# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hv. þingmenn Frjálsl. hafa hér flutt er ágætismál og fellur mjög að því sem ég hef oft talað fyrir á Alþingi og annars staðar um jöfnunaraðgerðir í skattkerfi, jöfnunaraðgerðir gagnvart þeim sem búa á landsbyggð andspænis höfuðborgarsvæði og, eins og hér er, jöfnunaraðgerð gagnvart þeim sem þurfa að ferðast langan veg með miklum tilkostnaði til að sækja sér vinnu. Hvort þessi leið er einmitt sú besta ætla ég ekki alveg að úttala mig um. Ég tók eftir því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson ræddi um hið norska kerfi sem ég kynnti mér mjög vel á síðasta ári. Það hugnast mér vel þannig að það sem ég vildi segja hér í upphafi er að hvort þessi leið verður farin eða önnur er mér nokk sama um ef menn komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé sanngirnismál, það sé jafnréttismál að koma svona til móts við fólk. Hvernig það er gert í gegnum skattkerfið ætla ég ekki að úttala mig um en hugmyndin er góð.

Þar þurfum við að leita, og getum leitað, í smiðju nágrannaþjóða okkar, Norðurlandanna, og þetta er til í Þýskalandi að sjálfsögðu líka og fleiri stöðum vafalaust. Frá Norðurlöndunum þekkjum við þetta þó best. Við þurfum að leita í smiðju til þeirra og athuga hvaða aðferð er best, hvað gagnast best --- líka til þess að hafa það ekki allt of flókið. Ég ætla í lok ræðu minnar að eiga smáorðastað við hv. þm. Pétur H. Blöndal út af því sem hann hefur sagt hér um skattkerfið, flókið skattkerfi og annað. Ég ætla að geyma mér það.

Ég vildi bara segja, herra forseti, að þrátt fyrir allt er þetta viðurkennd aðferð í gegnum skattkerfið, þegar við erum að telja fram til skatts, til að jafna aðstöðu fólks þó að við gerum það á misjafnan hátt.

Flutningsjöfnunarsjóður olíu og sements hefur verið ræddur. Ég veit að hv. þm. Pétri H. Blöndal finnst hann ekki góður, það heyrist á mæli hans að honum finnst aðferðin röng. Mig minnir að hann hafi einmitt vakið upp þá umræðu á síðasta þingi hvort ekki ætti hreinlega að leggja sjóðinn niður.

Margt fleira er jafnað. Ekki er langt síðan það jafnréttismál náði fram að ganga að síminn kostar það sama alls staðar á landinu, og gott ef það gerðist ekki í samgönguráðherratíð þess hæstv. forseta sem situr fyrir aftan mig. Ansi lengi bjuggum við landsmenn við það að það var miklu ódýrara að tala í síma milli húsa í Reykjavík en að tala frá Reykjavík t.d. til Siglufjarðar. Kostnaðurinn var í sjálfu sér ekkert meiri en þetta var ákveðin aðferð sem var notuð. Menn sáu að þetta var ósanngjarnt og þess vegna var landið gert að einu gjaldsvæði, mjög sanngjarnt mál.

Ég hef áður sagt að við kaupum blöðin á sama verði hvar sem er á landinu, útgáfufélögin jafna kostnaðinn við flutning og menn búa við sama verð. Nokkur atriði í neysluvörum okkar eru svoleiðis þannig að þetta er til. Þetta er sanngirnismál.

Við getum tekið dæmi af máli sem líka hefur verið mikið haft í frammi, mál sem hefur þokast í rétta átt, alveg hiklaust, þ.e. að jafna námskostnað fólks sama hvar það býr á landinu, þ.e. að jöfnunarstyrkir komi til móts við það fólk sem býr ekki við framhaldsskóla á svæðinu sínu og þarf að senda unglingana sína í annað sveitarfélag til að sækja sér þar nám. Það er hið besta mál þó að okkur geti svo að sjálfsögðu greint á um það hvort það er rétt upphæð, hvort hún er nógu há. Ég er þeirrar skoðunar að hún sé ekki enn þá orðin nógu há þó að hún hafi hækkað töluvert síðari ár. Þar er m.a. gert ráð fyrir því, og það er einmitt það sem á að gerast næstu tvo daga, að námsmenn í framhaldsskólum fjarri heimabyggð eigi að sækja um þessa jöfnunarstyrki til náms. Þar er m.a. tekið á því ef unglingar þurfa að keyra langan veg í skóla, sama hvort þeir fara á eigin bílum eða nýta sér aðrar ferðir. Þeir sem þurfa mikið að keyra til og frá fá aukinn styrk, aukið framlag til jöfnunar á námskostnaði vegna þess. Það er dæmi um það sem við erum að tala hér um, þarna höfum við í raun og veru rök og við höfum aðferð sem er viðurkennd í dag. Ég ætla svo ekki að lengja umræðuna hér um það og segja hvernig ég hefði viljað að þetta hefði verið gert. Nýlega gafst mér tækifæri til að ræða það hér á hinu háa Alþingi, þ.e. að það hefði verið auðveldara að jafna muninn í gegnum skattframtal en á þann hátt sem gert er núna með útgreiðslu úr ríkissjóði.

Við notum skattkerfið til að niðurgreiða húshitun á þeim svæðum þar sem dýrast er að hita hús. Og bara af því að það var til umræðu aðeins í iðnn. í morgun þar sem ég á sæti eru það í kringum 860 millj. sem eru notaðar í þennan pott. Auðvitað er það komið í þessa upphæð vegna þess að hér á hinu háa Alþingi hafa menn verið sammála um að það sé sanngirnismál að greiða niður himinháan húshitunarkostnað á mörgum stöðum úti á landi. Þó að þetta sé ekki gert í gegnum skattkerfið koma peningar af skattstofni ríkisins á fjárlögum til að greiða féð út og það er gert á ákveðinn hátt sem Orkustofnun heldur nú utan um.

Það er verst að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., sem hefur tekið þátt í þessari umræðu og verið hér til staðar er ekki hér núna. Ég ætla að beina máli mínu aðeins til hans. Ef það væri hægt að athuga hvort hann væri hérna nálægt mundi ég mjög gjarnan vilja það. Það snýr að hinu flókna skattkerfi sem hann hefur talað um. Væri hægt, herra forseti, að athuga hvort formaður efh.- og viðskn. væri hér nálægt vegna þess að þetta er frv. sem snýr að hans nefnd?

Virðulegi forseti. Þetta sem sagt snýr að því sem við höfum verið að tala um að eru jöfnunaraðgerðir frá hendi hins opinbera, sama hvort það er gert þá í gegnum skattkerfið með einföldu framtali --- ég þakka þér fyrir að koma, Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., vegna þess að ég er hér að ræða um nokkur atriði sem eru nú þegar í skattkerfi okkar eða ríkisfjármálum þar sem peningar eru teknir frá ríkissjóði til að jafna aðstöðu fólks. Ég var nýhættur að ræða um niðurgreiðslu á húshitun sem er ekki mjög flókið dæmi en varðar samt 860 millj. sem eru teknar út úr ríkissjóði til þess að greiða niður húshitun. Þetta er ekki flókið kerfi, þetta hefur gengið ágætlega fyrir sig og þarf ekki að vera með andstöðu við það vegna þess að það sé flókið, það er þá eitthvað annað.

Næsti þáttur sem ég ætla að nefna og er í gegnum skattkerfið varðar nokkuð sem hv. þm., formaður efh.- og viðskn., nefndi áðan. Eftir því sem skattkerfið verður flóknara, þeim mun verra verður það, sagði hann. Undir það má taka í sjálfu sér. Réttlátara skattkerfi taldi hv. þm. með öðrum orðum vera með sem allra minnstum undanþágum. Nú er mér ekki grunlaust um að hv. þm. hafi tekið þátt í því hin síðari ár að búa til flóknara skattkerfi með því að heimila þeim sem keyptu hlutabréf í ákveðinn árafjölda í viðurkenndum hlutafélögum sem skráð eru á markaði að telja þau fram til skatts og fá endurgreiðslu 1. ágúst árið eftir. Ég hygg að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi verið stuðningsmaður þessa kerfis. Þetta var gert á þeim árum sem við unnum í því að fá meira fé almennings í hlutabréf til fyrirtækja til að byggja þau upp og annað slíkt en þetta var mjög mikið stundað og við vitum hvernig veislan hjá þeim sem seldu hlutabréf var yfirleitt á gamlársdag. Það var yfirleitt fullt út úr dyrum og rauðglóandi símalínur, allir voru að kaupa til að nýta sér skattafsláttinn á eftir.

Þá er spurning mín til hv. þingmanns hvort þetta hafi verið arfavitlaus aðferð og hvort hún hafi ekki verið studd af hv. þingmanni og flokki hans. Gott ef flokkur hans var bara ekki í forsvari fyrir þetta. Hver væri munurinn á því að maður fengi að telja það fram sem einstaklingur, um leið og hann keypti hlutabréf og fengi skattafslátt árið eftir, að barn hans væri í framhaldsskóla og þar á eftir kæmi jöfnun námskostnaðar í gegnum skattkerfið? Hver væri munurinn á því? Að mínu mati er hann enginn.

Þetta eru aðeins nokkur atriði, herra forseti, um að það sé hægt að stunda mikinn jöfnuð og jafnaðarstefnu, jafna lífskjör fólks í gegnum skattkerfið. Hér er m.a. talað um að menn fái að telja fram til skatts til frádráttar sannanlegan útlagðan ferðakostnað, viðurkenndan að sjálfsögðu af skattstofu. Þetta snýst um það og ég hef hér nefnt nokkur dæmi. Það er bara ákvörðun sem þarf að taka.

Ég vil með öðrum orðum, herra forseti, segja það og ítreka að þessi hugmynd sem hér er sett fram er góð þótt við gætum jú diskúterað hvort hún sé besta aðferðin eða hvort við eigum að skoða hvað nágrannar okkar hafa gert í gegnum skattframtalið sjálft.

[15:15]

Við vitum að ferðalög fólks til og frá vinnu um langan veg, á íslenskan mælikvarða, hafa aukist hin síðari ár. Ég hygg að fyrir 10--15 árum hafi menn aðallega farið á milli hér á höfuðborgarsvæðinu, Reykvíkingar til Keflavíkur eða Keflvíkingar hingað í mesta lagi, til að sækja vinnu. Nú er þetta hins vegar miklu meira út um allt land. Inn í það blandast náttúrlega ákveðið atriði, sem er mjög dapurlegt, að störfum hefur verið að fækka á mörgum stöðum á landinu. Sú staða er komin upp vegna hinna miklu breytinga sem m.a. Alþingi hefur stuðlað að, þ.e. breytingum í tveimur aðalatvinnuvegum okkar, fiskveiðum og landbúnaði. Heilu og hálfu frystihúsunum í viðkomandi byggðarlögum hefur jafnvel verið lokað. Fólk hefur misst vinnuna og ekkert annað komið í staðinn. Fólk hefur þurft að ferðast meira milli staða til að sækja vinnu.

Svo ég fari norður í okkar ágæta Eyjafjörð og skoði ástandið þar þá sést hvernig fólk er þar farið að færa sig til Dalvíkur og Dalvíkurbyggðar. Þar rekur Samherji fiskiðjuver. Ég vil ekki kalla það frystihús einu sinni, ég vil ekki kalla það því nafni vegna þess að þetta er ekkert annað en hátæknilegt iðjuver. Þar er glæsilegt hús og mikil starfsemi og unnið nær allan sólarhringinn á vöktum, m.a. er þar unninn fiskur sem sennilega fer að leggja af stað eftir u.þ.b. klukkutíma frá Dalvík, verður kominn í flug í fyrramálið og kominn á markað úti í löndum eftir örfáa tíma.

Í nágrenni við Dalvík, á Ólafsfirði, í Hrísey og jafnvel aðeins lengra inni í Eyjafirði hefur orðið atvinnusamdráttur. Það gerir það að verkum að fólk á þessum stöðum þarf að sækja vinnu til Dalvíkur, m.a. sigla með ferju frá Hrísey. Þó að það séu ekki margir kílómetrar þá eru þeir þó nokkrir. Þessu fylgir því töluverður kostnaður og hann er hlutfallslega hár. Það má skjóta því inn í að atvinnurekendur hafa sumir komið til móts við starfsmenn sína, sem sækja vinnu til þeirra um langan veg, með því að borga þeim kaup meðan þeir ferðast og það er auðvitað virðingarvert.

Ég mundi halda að fólk sem þarf að gera þetta, eins og ég hef hér tekið dæmi um, ætti að fá að telja fram sannanlega útlagðan kostnað til og frá vinnu og fá hann dreginn frá skatti áður en skattur er greiddur af vinnutekjum þessa fólks. Þannig verður aðstaða þess jöfnuð og við fáum fleiri, t.d. í hátæknivæddum fiskiðjuverum, til að vinna og sköpum þar af leiðandi meiri verðmæti og framlegð fyrir fyrirtæki og þjóðarbúið í heild.

Ég tek undir það að breytingar í landbúnaði hafa gert það að verkum að sauðfjárbændur eiga ekki nokkurn einasta möguleika á að lifa af búrekstrinum. Hvort sem það eru bæði hjónin eða annað hvort, sem tekur sig til og ferðast langan veg frá bændabýlinu til næsta þéttbýlisstaðar til að sækja vinnu, þá getur orðið af því hrikalegur kostnaður, að maður tali ekki um það sem er enn þá stærra mál, að stundum er þar verið að keyra hálfgerðar torfærur og jafnvel illa mokaða vegi á vetrum. Það hamlar töluvert á stundum. En kostnaðurinn sem þessu fylgir er allt of mikill. Þetta nefni ég aðeins til að rökstyðja að þetta sé sanngjarnt, að jafna aðstöðu fólks sem lendir í að keyra langan veg.

Þá kunna einhverjir að spyrja: En hvað með fólkið hér á höfuðborgarsvæðinu? Það þarf að ferðast langan veg og hefur mikinn kostnað af því. Það er sannarlega rétt. Hér er ég ekki að tala fyrir því að menn geri þetta innan sveitarfélags. En vafalaust kæmi einhver lágmarks kílómetrafjöldi inn í þetta dæmi og þá mundi ég halda að þeir sem þyrftu að sækja sér vinnu suður í Keflavík eða frá Keflavík til Reykjavíkur féllu einnig þar undir. Það finnst mér sanngirnisatriði.

Þetta getur einnig átt við íbúa í Reykjavík sem sækja sér vinnu víða um land eins og sjómenn. Það þekkja þingmenn og aðrir sem ferðast mikið og fljúga mikið að þeir eru oft samferða mönnum sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu en vinna kannski austur á fjörðum, skipverjar á skipum o.s.frv. Ég hygg þó að ákveðnir skipverjar sem eru mjög eftirsóttir fái þann kostnað allan greiddan frá viðkomandi útgerð. Vonandi er það þannig en margir þurfa að borga þetta sjálfir.

Herra forseti. Ég hef rætt um þetta og lýsi stuðningi mínum við þær hugmyndir sem hér koma fram. Ég get ekki orða bundist að ræða nokkur atriði sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi um áðan. Það er alveg með ólíkindum að þegar menn nefna einhver atriði til jöfnunar og í jafnréttisátt og hyggjast nota skattkerfið til þess að þá sprettur hv. þm. Pétur H. Blöndal á fætur og finnur því allt til foráttu. Ég missti því miður af fyrri hlutanum, þar sem hann talaði um batteríin í heyrnartækin. Ég get ekki tjáð mig um það en mér fannst mjög kyndugt að hlusta á hvernig seinni hlutinn, sem ég heyrði, var settur fram.

Hv. þm. hefur talað um að eftir því sem skattprósentan sé lægri þeim mun betur skili skatturinn sér til ríkisins. Göngum út frá því að þetta sé rétt. Hann hefur talað um að tekjuskattur fyrirtækja hafi verið lækkaður úr 50% í 30% og úr 30% í 18%. Mig minnir að hv. þm. hafi ekki verið ánægður með að hafa 18% tekjuskatt af lögaðilum, heldur vildi hann fara með skattinn enn neðar vegna þess að það mundi skila sér enn þá betur. Þá vil ég, virðulegi forseti, í lokin spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort þetta eigi þá ekki líka við um almenning. Hve langt vill hann ganga í að lækka skatta á almenning og taka kannski út alls konar skattafslætti í staðinn? Getum við verið sammála um 10% skatt eða 5% skatt? Hvar endar hann í þessu? Það hlýtur að vera sama sjónarmiðið sem gildir fyrir einstaklinga og fyrirtæki?

Í lokin langar mig að segja að hv. þm. situr í þingflokki Sjálfstfl. sem reið um héruð fyrir kosningar og lofaði skattalækkunum. Reyndin er sú að þriðja málið, eiginlega fyrsta málið sem hæstv. fjmrh. talar fyrir hér á hinu háa Alþingi, er skattahækkun upp á einn milljarð þar sem Pétur H. Blöndal og aðrir stjórnarþingmenn ætla að velta einum milljarði á þá sem eiga bíla, 600 milljónir í formi bensínsskatts og 400 millj. kr. í hærri flutningskostnað, hærri þungaskatt. Það er skattahækkun sem hv. stjórnarmenn koma fram með á fyrstu dögum þingsins. Kannski væri ástæða til að óska þeim tveimur sem hér eru í salnum innilega til hamingju með glæsilegan árangur í að byrja að lækka skatta með því að leggja fram skattahækkunarfrumvarp.