Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 15:34:54 (919)

2003-10-29 15:34:54# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem fram hefur farið í dag um það mál sem við höfum verið að ræða hér og flutt er af okkur þingmönnum Frjálsl. Það hefur nokkuð komið inn í umræðuna að slík útfærsla sem hér hefur verið lögð til á ferðakostnaði fólks til og frá vinnu sem það mætti draga frá tekjum áður en skattlagt yrði, kæmi sér vel víða á landsbyggðinni vegna atvinnuástands sem gæti verið að koma upp á viðkomandi svæðum og tilfallandi atvinnumissis í því byggðarlagi sem viðkomandi launþegi býr í.

Það er vissulega svo að þetta getur m.a. orðið til þess að hafa áhrif á það að ekki reyni kannski eins mikið á það að fólk, sem býr í byggðum þar sem brestur verður í atvinnulífi tímabundið, þurfi að bregða búi þar ef slík regla sem hér er lögð til yrði tekin upp því það skiptir þá ekki eins miklu máli kostnaðarlega séð að sækja atvinnu um lengri veg ef kostnaðurinn við að afla atvinnunnar fengist dreginn frá tekjum. Þannig að vissulega er það rétt sjónarmið sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum í umræðunni að þetta getur haft áhrif í þessa veru þegar svo hagar til að tímabundið atvinnuleysi myndast á ákveðnum stöðum vegna aðstæðna sem erfitt er að sjá fyrir eins og t.d. vegna þess að aflakvóti færist úr byggðarlagi vegna sölu á fyrirtæki.

Eins og menn vita eru lögin um stjórn fiskveiða þannig útfærð að það er í raun og veru eigandinn að aflaheimildunum, eins og það er skilgreint miðað við notkunarréttinn, sem getur ákveðið að fara með aflaheimildirnar úr byggðarlaginu. Þar með væri atvinna sem fylgdi því að nýta aflaheimildirnar og sjósóknarréttinn til þeirra horfin frá svæðunum. Þetta er því miður að gerast af og til, virðulegi forseti, og er innbyggt í það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. Þetta er ein af þeim vandræðareglum sem fylgja því kerfi og menn hafa orðið að láta yfir sig ganga vegna þess að þau stjórnvöld sem nú ríkja í landinu hafa viljað viðhalda því og margir í stjórnarflokkunum hafa illa séð þá vankanta sem fylgja kerfinu þó að það sé kannski að breytast nú í seinni tíð þegar menn eru farnir að sjá að jafnvel hinum stærri stöðum getur orðið hætt í þessu tilliti og að þetta gæti jafnvel farið að hafa víðtæk áhrif á atvinnu á mjög stórum stöðum og þar af leiðandi á mikinn fjölda manna, ekki bara í hinum smærri byggðarlögum heldur jafnvel í hinum stærri. Sú umræða hefur verið hér í þjóðfélaginu að undanförnu og er nærtækast í þessu sambandi að nefna eigendaskipti á Eimskipafélagi Íslands sem á sjávarútvegsrisann Brim. Ég veit að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, þá umræðu þekkja auðvitað allir hv. þm., og það vekur auðvitað ugg í brjósti þess fólks sem býr á þeim stöðum þar sem aflaheimildir þess fyrirtækis eru í ráðandi stöðu um atvinnuástand.

Eins og menn rekur vafalaust minni til hefur það komið fram, m.a. hjá bæjarstjóranum á Akranesi, að 20% af tekjum Akraneskaupstaðar tengdust því að aflaheimildir fyrirtækisins Haraldar Böðvarssonar væru áfram nýttar á Akranesi með óbreyttri úgerð og vinnslu. Þannig að það sjá allir hvaða stærðir við erum að tala um í þessu sambandi þegar jafnstór staður og Akranes getur farið þannig út úr því að þar séu 20% af tekjunum að færast til.

Þar af leiðandi er það auðvitað alveg rétt sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum í dag að áhyggjur að því er varðar atvinnuástand víða úti um hinar dreifðu byggðir landsins geta auðvitað haft mikil áhrif og okkur er það auðvitað öllum ljóst, virðulegi forseti, að þannig er í pottinn búið, því miður, og er eitt af hinum innbyggðu vandamálum kvótakerfisins sem nauðsynlegt væri að taka á fyrr en síðar.

Síðan er það atvinnuástandið í landbúnaðinum, virðulegi forseti, sem gerir það að verkum, eins og hér hefur líka verið komið inn á, að fólk sem stundar landbúnaðarstörf, einkum í sauðfjárrækt, þarf að auka tekjur sínar með annarri vinnu. Samanlagt getur því svona tillaga eins og hér er verið að ræða haft veruleg áhrif á það að fólk þurfi ekki að bregða búi í raunverulegum skilningi, þ.e. af bújörðum sínum, né heldur jafnvel úr sveitarfélögum sem lenda í tímabundnu atvinnuleysi vegna aðgerða eins og ég hef áður nefnt í máli mínu.

Allt þetta eru fyllilega rök með því að slík tillaga sem hér er flutt í frumvarpsformi bæti stöðu fólks, einkum launafólks, eins og henni er ætlað að gera, og gæti þar af leiðandi að hluta til valdið því að festan í byggðarlögunum yrði meiri, fólk sæi ekki jafnfljótt ástæðu til þess að bregða búi og flytja aðsetur sitt ef slík heimild sem hér er lögð til væri til staðar í íslenskum skattalögum.

Það er auðvitað fjöldamargt fleira sem væri hægt að ræða í þessu sambandi, virðulegi forseti, en ég vil bara að lokum þakka þingmönnum fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag um þetta mál. Hún hefur verið málefnaleg og menn hafa tínt fram ýmis rök inn í þennan málflutning og bent á að leiðir sem hér mætti nota til þess að jafna aðstöðu fólks að þessu leyti megi vissulega nota með þeim hætti og þeirri hugsun sem við höfum hér lagt til.

Það er ekkert launungarmál að þegar við vorum að hugsa þessa tilögu þá veltum við því auðvitað fyrir okkur hvort hér ætti frekar að tala um kílómetragjald, flugfarseðla eða einhverjar fastar viðmiðanir sem menn ættu að setja inn sem frádráttarliði varðandi skattalögin. En til þess að gæta alls jafnræðis meðal fólks og binda þetta ekki niður við ákveðinn ferðamáta af neinu tagi þá ákváðum við að leggja til að miðað væri við ákveðna upphæð, sem stendur í frv. að þurfi að vera a.m.k. 120 þús. ári svo að fólk geti farið að draga kostnað umfram það frá tekjum sínum áður en til skatta kemur. Síðan setjum við einnig fram tilögu um að á þessari upphæð verði ákveðið þak, þ.e. að enginn geti þó fengið að draga frá meira en 400 þús. kr. varðandi ferðakostnað.

En eins og ég gat um í framsögu minni, virðulegi forseti, þá höfum við ekki haldið því fram í þessari umræðu eða fyrri umræðu þegar við höfum kynnt þetta mál, en það hefur áður verið kynnt í hv. Alþingi, að þessar tölur væru eitthvað heilagar í þessari framsetningu heldur settar fram bæði til að benda á það að auðvitað þarf að vera eitthvert lágmark, því að allir leggja fram einhvern kostnað í ferðalag til og frá vinnu sinni, og einnig sé eðlilegt að hafa eitthvert hámark á þessu, virðulegi forseti. Þannig að ég tel að tillagan sé efnislega vel útfæranleg. Það hefur réttilega verið bent á það, m.a. af þingmönnum sem hér hafa talað eins og hv. þm. Kristjáni Möller, að útfærslur sem tengjast því að ríkið greiði mönnum til baka mismunandi kostnað eins og námskostnað eða húshitunarkostnað, þetta er allt þekkt í okkar kerfi, og sú tillaga sem hér er lögð til er í raun og veru jafnvel mun einfaldari en þær tillögur sem hv. þm. Kristján Möller vitnaði hér til.

Ég vil svo bara, virðulegi forseti, að endingu minna á það að landshlutasamtök eins og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Samtök sveitarfélaga á Norðvesturlandi hafa ályktað um það að nota aðlögun skattkerfisins til þess að bæta réttarstöðu fólks að þessu leyti og hafa m.a. bent á það í ályktun sem mig langar til að lesa hér í lokin, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, haldinn föstudaginn 10. október 2003 vekur athygli á því að núverandi skattaumhverfi kemur oft á tíðum í veg fyrir nútímavæðingu og aðlögun breyttra aðstæðna á landsbyggðinni. Í þessu sambandi má nefna að skattalöggjöf gerir ekki ráð fyrir því að fólk sæki vinnu langar vegalengdir. Kostnað við akstur er ekki leyfilegt að draga frá skattskyldum tekjum og dregur þessi hái kostnaður við rekstur bifreiða verulega úr sóknarfærum fólks að búa í dreifbýli.``

Ég held að það sé ágætt, virðulegur forseti, að enda mál mitt á því að vitna í þessa samþykkt. Það sýnir auðvitað að sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið hafa hugleitt það með hvaða hætti megi nota skattkerfið til þess að bæta stöðu fólks og hafa beinlínis lagt það til í tillögum sínum og þessi tillaga gengur einmitt í þá átt, virðulegi forseti, að gera launþegum kleift að bæta stöðu sína að þessu leyti varðandi kostnað til og frá vinnu sinni.