Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 10:31:27 (920)

2003-10-30 10:31:27# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[10:31]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Samkvæmt lögum sem gilda um starfsemi Ríkisendurskoðunar ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Ársskýrslan fyrir liðið ár var gefin út og birt í maímánuði sl. Með sama hætti og gert hefur verið á liðnum árum mun ég gera grein fyrir því helsta úr skýrslunni.

Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2002 er með nokkuð hefðbundnu sniði. Í henni er m.a. gerð grein fyrir starfsskyldum stofnunarinnar, starfsemi hennar á árinu 2002 og markmiðum með endurskoðun og leiðum á því sviði. Þá er gerð grein fyrir þeim skýrslum, leiðbeiningarritum og greinargerðum sem stofnunin gaf út á árinu. Í henni er þó lögð meiri áhersla en áður á að gera grein fyrir starfi einstakra sviða hennar en minna lagt upp úr að gera grein fyrir efni útgefinna skýrslna og greinargerða.

Rekstrarútgjöld Ríkisendurskoðunar að frádregnum tekjum af seldri þjónustu námu 264,6 millj. kr. á árinu 2002. Á árinu 2001 námu rekstrarútgjöld tæplega 250 millj. kr. Útgjöld jukust því um 15 millj., þar af eru 7 millj. kr. framlag stofnunarinnar vegna viðbótarhúsnæðis. Að teknu tilliti til þessa hækkuðu nettóútgjöld um 3,3% á milli ára. Kostnaðurinn skiptist þannig á milli starfssviða að 167 millj. eða 62% af heildarkostnaði tengjast fjárhagsendurskoðun. Rekstur stjórnsýslusviðs kostaði um 48 millj. kr. eða um 18%, rekstur lögfræðisviðs 19 millj. eða 7%, rekstur upplýsingasviðs 17 millj. eða 6% og rekstur yfirstjórnar 20 millj. eða 7%. Þessi kostnaðarskipting endurspeglar allvel umfang starfseminnar og skiptingu vinnslustunda eftir starfssviðum.

Undanfarin 10 ár hafa fastráðnir starfsmenn Ríkisendurskoðunar að jafnaði verið á bilinu 43--45. Auk þeirra hafa utanaðkomandi endurskoðendur sinnt ýmsum verkefnum fyrir hönd stofnunarinnar. Á árinu 2002 skiluðu starfsmenn alls tæplega 69.000 vinnustundum við endurskoðun og eru það heldur fleiri stundir en árið áður eða sem svarar einu stöðugildi. Aðkeypt þjónusta samsvaraði um fimm ársverkum og er það einu ársverki færra en árið áður.

Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt að stofnanir og fyrirtæki ríkisins gefi út eigin ársreikninga með áritun endurskoðanda. Árið 1997 voru gefnir út 242 ársreikningar með áritun endurskoðenda og voru 146 þeirra með áritun Ríkisendurskoðunar en 96 með áritun sjálfstætt starfandi endurskoðunarskrifstofa er starfa í hennar nafni. Á síðasta ári var fjöldi áritaðra ársreikninga kominn upp í 409, þar af áritaði Ríkisendurskoðun 328 reikninga en 81 ársreikningur var áritaður af öðrum endurskoðunarskrifstofum. Þetta jafngildir því að reikningar um 80% allra stofnana í A-hluta ríkisreiknings hafi verið teknir til endurskoðunar.

Stefnt er að því að endurskoða árlega allar stofnanir ríkisins auk þess sem áhersla verður lögð á að votta upplýsingar um umsvif og rekstrarárangur sem stofnanir birta í ársskýrslum sínum. Í þessu sambandi skal þess getið að um það bil helmingur stofnana ríkisins hefur tekið upp svokallaða árangursstjórn sem felur m.a. í sér að þær setji sér markmið til lengri eða skemmri tíma sem nota má sem viðmiðun þegar endanlegur árangur er metinn. Langfæstar endurskoðunarskýrslur eða endurskoðunarbréf sem starfsfólk Ríkisendurskoðunar tekur saman ár hvert vegna eftirlits og endurskoðunarstarfa sinna koma fyrir almenningssjónir, heldur eru þær fyrst og fremst sendar þeim aðilum sem endurskoðunin beindist að, svo og viðkomandi ráðuneyti. Í skýrslum endurskoðunar ríkisreiknings er þó jafnan að finna samandregið yfirlit um þá vinnu sem unnin er við fjárhagsendurskoðun á vegum stofnunarinnar.

Á næstu árum hyggst Ríkisendurskoðun verja enn meiri tíma en gert hefur verið til þess að kynna sér nánar starfsemi, starfsumhverfi, bókhalds- og eftirlitskerfi þeirra stofnana sem hún endurskoðar, forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi þeirra og leitast við að tryggja að endurskoðunarvinna skili tilætluðum árangri með vandaðri skýrslugjöf sem nýtist jafnt viðkomandi stofnun, Alþingi og almenningi.

Auk hefðbundinnar endurskoðunar hefur Ríkisendurskoðun undanfarin ár fylgt þeirri stefnu við fjárhagsendurskoðun að taka nokkra afmarkaða málaflokka til sérstakrar athugunar og skoða gaumgæfilega tiltekin atriði í rekstri þeirra. Markmiðið með þessu er að auka aðhald í ríkisrekstri og stuðla að góðri og markvissri nýtingu fjármuna. Við fjárhagsathuganir á árinu 2002 var hugað sérstaklega að aðalskrifstofum ráðuneytanna, framhaldsskólunum, embættum sýslumanna og þeim stofnunum sem heyra undir skattkerfið.

Þau atriði sem einkum koma til skoðunar í þessu sambandi voru samskipti þessarar stofnunar við birgja, fjárvarsla þeirra, virðisaukaskattsskil, ákvarðanir um laun yfirmanna og innra eftirlit.

Með tölvuvæðingu síðustu ára hefur orðið sú breyting á fjárhagslegu innra eftirliti að það er að stórum hluta orðið vélrænt, það er byggt inn í upplýsingakerfin sjálf í stað þess að vera unnin í höndunum eins og áður tíðkaðist. Í því skyni að auka skilning á þessum þætti fjárhagseftirlits og efla hann gaf Ríkisendurskoðun út sérstakt leiðbeiningarrit um helstu aðferðir sem vélrænt eftirlit byggir á. Ritið nefnist ,,Áreiðanleiki gagna í upplýsingakerfum`` og á einkum að vera til hjálpar við val og stillingu á nýjum upplýsingakerfum og við endurbætur á gömlum upplýsingakerfum.

Af starfsemi stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar á árinu 2002 er það að segja að sviðið lauk sjö úttektum. Á árinu var lögð sérstök áhersla á heilbrigðiskerfið og voru samdar fjórar viðamiklar skýrslur sem því tengdust. Stofnunin ákveður í hvaða stjórnsýsluathuganir eða sambærileg verkefni er ráðist. Engu að síður fær hún oft beiðnir, ýmist frá þingmönnum, með atbeina forsætisnefndar Alþingis, ráðuneytum eða stofnunum um að athuga tiltekna þætti í starfsemi eða fjárreiðum ríkisstofnana.

Eftir að hafa gengið úr skugga um að athugun heyri undir verkefnasvið stofnunarinnar reynir hún að jafnaði að verða við beiðnum af þessu tagi eigi hún þess nokkurn kost. Verkefni þessi geta verið mjög fjölbreytileg að efni og umfangi auk þess sem efnistök geta verið mjög mismunandi.

Þar sem stjórnsýsluúttektir krefjast bæði mikils tíma og mannafla hefur Ríkisendurskoðun kappkostað að velja viðfangsefni sín af kostgæfni. Einkum hefur verið lögð áhersla á málefni sem hafa verulega þýðingu fyrir stjórnsýsluna í heild, einstök ráðuneyti eða stofnanir. Við verkefnaval er sömuleiðis tekið mið af rökstuddum ábendingum um annmarka eða ágalla í rekstri stofnana eða ríkisfyrirtækja. Skýrslur af þessum meiði eru opinberar og jafnan sendar Alþingi fyrst.

Þau verkefni sem ekki verða heimfærð beint undir endurskoðun sem og önnur almenn starfsemi stofnunarinnar var með hefðbundnu sniði á árinu 2002. Hér er einkum átt við eftirlit með staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum, eftirlit með ríkisreikningsskilum sókna og kirkjugarða, námskeið, endurmenntun starfsmanna o.fl.

Ríkisendurskoðun er í umtalsverðum alþjóðlegum samskiptum á sínu sviði. Hún er aðili að ýmsum fjölþjóðlegum samtökum um endurskoðun auk þess sem hún hefur gott samband við systurstofnanir í nágrannaríkjunum. Samstarf á þessum vettvangi er mjög mikilvægt, enda má margt læra af reynslu og þekkingu systurstofnana og alþjóðasamtaka á sviði endurskoðunar.

Þess má geta að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi var kjörinn annar tveggja endurskoðenda Evrópusamtaka ríkisendurskoðenda á síðasta ári auk þess sem hann var beðinn um að sitja áfram í endurskoðunarráði Evrópuráðsins í Strassborg.

Um störf stofnunarinnar á árinu 2002 að öðru leyti mun ég ekki fjölyrða, heldur læt nægja að vísa til skýrslunnar sjálfrar þar sem grein er gerð fyrir megindráttum starfseminnar. Að lokum vil ég þó vekja athygli á því að í skýrslunni er m.a. vikið að því að Ríkisendurskoðun hafi á undanförnum árum leitast við að kynna opinberum aðilum mikilvægi áhættustjórnar í opinberum rekstri. Áhættustjórn er kerfisbundið ferli þar sem leitast er við að greina, meta og bregðast á skynsamlegan og hagkvæman hátt við þeim áhættuþáttum sem jafnan fylgja rekstri stofnana og fyrirtækja. Einn helsti þáttur áhættustjórnar er gott innra eftirlitskerfi. Samhliða hefðbundinni fjárhagsendurskoðun hefur Ríkisendurskoðun í síauknum mæli kannað ýmsa áhættuþætti í rekstri opinberra stofnana. Áhættustjórn getur gagnast opinberum aðilum með margvíslegum hætti. Hún auðveldar glímuna við þá þætti rekstrar sem viðkvæmastir eru, skýrir ábyrgðarsvið starfsmanna, dregur fram veikleika sem kunna að vera fyrir hendi, auðveldar greiningu þeirra og nauðsynlegar úrbætur. Þannig má segja að áhættustjórn stuðli að bættri og skilvirkari þjónustu hins opinbera með því m.a. að bregðast við truflunum, töfum og tæknilegum örðugleikum við starfsemina.

Stofnunin hyggst halda áfram að miðla upplýsingum um stöðu og þróunarsvið áhættustjórnar og veita aðstoð við innleiðingu innri eftirlitskerfa. Ljóst er að samhliða örri tækniþróun í framtíðinni mun eftirlitshlutverk opinberra endurskoðunarstofa í æ ríkari mæli beinast að áhættumati og innri eftirlitskerfum ríkisaðila.

Að lokum vil ég fyrir hönd forsætisnefndar, herra forseti, flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því sviði sem hér hefur verið fjallað um.