Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 10:44:09 (923)

2003-10-30 10:44:09# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa skýrslu. Ég vil þó segja það að Ríkisendurskoðun er ein mikilvægasta stofnunin í íslenskri stjórnsýslu og mjög mikilvægt að búa vel að henni. Almennt hefur Ríkisendurskoðun risið ágætlega undir þeim skyldum sem henni eru settar á herðar þó að þar kunni að vera einhverjir hnökrar á. Ég hef áður fundið að því að beiðni sem kom frá þinginu, frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, um að könnun á einkavæðingarferlinu, störfum einkavæðingarnefndar, þá ekki síst með tilliti til Landssímans, yrði hraðað. Það er orðið mjög langt um liðið síðan þessi beiðni kom fram. Ríkisendurskoðandi hefur hins vegar fullvissað mig um að hennar sé að vænta innan skamms. Á þessu vildi ég aðeins vekja athygli, hef áður gert það í þessum ræðustól.

[10:45]

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í máli hæstv. forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, kemur fram að umhverfismál og umhverfisþátturinn vegi þyngra nú en áður í athugunum Ríkisendurskoðunar.

Hér segir, með leyfi forseta, í skýrslunni eða aðfaraorðum forstjóra Ríkisendurskoðunar:

,,Umhverfisendurskoðun beinist einkum að ýmsum skyldum, markmiðum, áætlunum og aðgerðum sem hafa eða geta haft áhrif á umhverfið. Meðal mikilvægra verkefna er að kanna hvort og með hvaða hætti stjórnvöld innleiða alþjóðasamninga og samþykktir á sviði umhverfismála.``

Þetta er atriði sem ég vildi vekja athygli á og taka sérstaklega undir, tel vera mjög jákvætt.

Einnig er vikið að svokallaðri áhættustjórnun. Ég skal alveg viðurkenna að þótt ég hafi hlustað vel á framsöguræðu hæstv. forseta þá skil ég ekki hvernig þetta orð er til komið. Áhættustjórnun. Ég skil að vísu að opinberar stofnanir á Íslandi búa við mikið áreiti, stöðugt áreiti og lifa í sannkölluðu áhættuumhverfi vegna þeirra stjórnvalda sem við búum við, þeirrar ríkisstjórnar sem hér stýrir ferðinni. En þetta er sennilega eitt af þessum tískuorðum sem hefur leitað inn í íslenskuna og starfsemi Ríkisendurskoðunar.

Eitt vakti athygli mína í skýrslunni, það eru athugasemdir sem fram koma í tengslum við stjórnsýsluendurskoðun.

Hér segir, með leyfi forseta:

,,Í skýrslum Ríkisendurskoðunar er bent á ýmsa veikleika í fyrirkomulagi þeirra málaflokka og stofnana sem voru til endurskoðunar. Í sumum tilvikum hefur ríkisfé augljóslega verið notað á annan hátt en gert var ráð fyrir í samningum og þar þyrfti viðkomandi ráðuneyti að kanna lögvarin réttindi sín og leitast við að tryggja að farið sé eftir þeim skilyrðum sem ríkið setur þjónustuaðilum. Í öðrum tilvikum skortir nógu góðar upplýsingar um kostnað við heilsuvernd eða læknisverk til að hægt sé að meta hagkvæmni einstakra valkosta á markvissan hátt og nýta betur þá takmörkuðu fjármuni sem eru til ráðstöfunar. Í enn öðrum tilvikum skortir nauðsynlega verkaskiptingu sem m.a. hefur valdið því að einingaverð vegna heilbrigðisþjónustu hefur hækkað mun meir en sem nemur almennum verðhækkunum.``

Hér er vísað í eina tiltekna skýrslu sérstaklega. Ég vek athygli á þessu almenna sjónarmiði sem Ríkisendurskoðun sér ástæðu til að setja fram, að ríkisfé sé augljóslega notað ,,á annan hátt en gert var ráð fyrir í samningum og þar þyrfti viðkomandi ráðuneyti að kanna lögvarin réttindi sín og leitast við að tryggja að farið sé eftir þeim skilyrðum sem ríkið setur þjónustuaðilum``.

Það verður fróðlegt að fá nánari skýringar á þessum lið því að það er ekki farið mjög rækilega í hann.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa skýrslu og tek undir árnaðaróskir hæstv. forseta í garð starfsmanna Ríkisendurskoðunar.