Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:17:46 (927)

2003-10-30 11:17:46# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður taldi greinilega ekki mikla ástæðu, ef marka má orð hans, til að breyta þeirri meðferð sem er á þeim skýrslum sem koma frá Ríkisendurskoðun og ég harma það, herra forseti. Það er staðföst skoðun mín að skýrslur Ríkisendurskoðunar, stjórnsýsluúttektir sem Ríkisendurskoðun gerir, fái ekki nægjanlega umfjöllun hér á þingi. Á þeim tíma sem Ríkisendurskoðun hefur starfað hafa verið gerðar sennilega á annað hundrað stjórnsýsluúttektir og þetta eru kannski um tíu skýrslur sem nefndir hafa tekið til efnislegrar meðferðar og ályktað um, eða kannski innan við 10% af þeim skýrslum, og ég fullyrði að allar þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur gert á þessum árum, stjórnsýsluúttektir, eiga erindi í þingnefndir til umfjöllunar þar.

Við það er ekki hægt að búa að það sé undir hælinn lagt og tilviljanakennt hvernig og hvort nefndir taka slíkar skýrslur til umfjöllunar. Mér finnst það ekki boðlegt, herra forseti. Ég tel að setja eigi ákvæði um þetta í þingsköp, að það sé föst regla að gera slíkt, að taka þær skýrslur til umfjöllunar og álykta um þær. Þarna koma oft fram ábendingar um það sem betur má fara í stjórnsýslunni og tillögur um það. Það er hlutverk þingmanna að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og framkvæmdarvaldinu og það getum við auðvitað best gert með því að fara yfir slíkar skýrslur, kalla til þá aðila sem ábendingar og tillögur beinast að til þess að fylgjast með framkvæmd mála.

Ég harma það að forseti þingsins skuli ekki taka betur undir það setja þessi mál í fastari skorður en verið hefur.