Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:24:14 (930)

2003-10-30 11:24:14# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:24]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að forsætisnefndarmaður eigi að kunna svo mikið í þingsköpum að vita að það var 2. þm. Norðaust., sem talaði hér og ber að ávarpa hann svo. Þó að hann öðrum stundum gegni því að vera forseti þá ber að ávarpa hann sem 2. þm. Norðaust. þegar hann er í ræðustól og er hér í umræðum, og er nauðsynlegt að fara yfir það.

Ég fellst ekki á þá skoðun hv. þm. að það sé tilviljanakennt hvort þingmenn fari yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar. Ég efast ekki um að þeir þingmenn sem sérstaklega fjalla um viðkomandi málaflokk fari mjög vandlega yfir þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun sendir frá sér. Hér var hv. 7. þm. Norðaust. Einar Már Sigurðarson að vitna til skýrslna um heilbrigðismál áðan. Ég efast ekki um að þeir þingmenn sem eru í heilbr.- og trn., svo dæmi sé tekið, fari mjög vandlega yfir þær skýrslur sem um þann málaflokk fjalla með sama hætti og ef við erum að tala um lögfræðileg málefni þá athugi þeir sem eru í allshn. sérstaklega þá þætti sem veita að því.

Eins og ég sagði áðan geta þingmenn tekið mál upp í þinginu ef þeim sýnist hvort sem er hér í þessum sölum eða í nefndum þingsins. Ég hef ekki orðið var við annað en að skýrslum Ríkisendurskoðunar hafi verið gefinn góður gaumur og sé ekki ástæðu til að breyta þeim reglum sem um það hafa gilt.