Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:27:25 (932)

2003-10-30 11:27:25# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er öllum örugglega mjög létt í salnum að nú sé þetta á hreinu með forsetaumboðið. Það er sá sem situr á forsetastóli á hverjum tíma og ekki aðrir sem fara með það vald. Annars væri hér stjórnleysi og margir forsetar á ferli í salnum samtímis og það kynni ekki góðri lukku að stýra. Hitt er svo annað mál að í einum og sama manninum fara auðvitað saman hv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, og sá sem oft er á forsetastóli, hv. 2. þm. Norðaust., forseti þingsins, Halldór Blöndal. Og það er ekkert að því að vekja athygli á því sem slíku. Hér var auðvitað hv. þm. Halldór Blöndal og virðulegur forseti þingsins í hlutverki sínu af því að til umræðu var skýrsla Ríkisendurskoðunar og er. (HBl: Á þingmaðurinn erfitt með að þekkja þá í sundur?) Mér er hlýtt til beggja, hv. 2. þm. Norðaust. og forseta þingsins. Það er mikilvægt að forsætisnefndarmenn séu hér virkir í umræðum, það er eðlilegt þegar í hlut eiga umræður um þær stofnanir sem undir Alþingi heyra, þessar tvær mikilvægu stofnanir, Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis.

Ég ákvað að blanda mér aðeins í þessa umræðu í framhaldi af orðaskiptum hv. þm. Halldórs Blöndals og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem vitnuðu m.a. til þingreynslu sinnar og var svona pínulítið eins og gamalt kærustupar væri að kýta þegar þau sem hafa þingreynslu á þriðja áratuginn voru að ræða um störf þingmanna og samviskusemi þeirra við lesa m.a. skýrslur Ríkisendurskoðunar sem ég ætla ekki að draga í efa.

Hitt er ljóst og það vitum við mörg sem höfum áður tekið þátt í umræðum um þessar skýrslur og ýmislegt sambærilegt að það er gamalkunnug umræða hér með hvaða hætti Alþingi ætti að taka við efni af þessu tagi og fylgja því eftir. Sú umræða er alveg á sínum stað.

[11:30]

Það hefur iðulega verið rætt hvort heppilegt væri að hér starfaði sérnefnd. Það er þekkt í ýmsum þjóðþingum í kringum okkur að sérstök nefnd hafi það hlutverk með höndum að taka við skýrslum eftirlitsstofnana af þessu tagi, einhvers konar eftirlitsnefnd, kontrólnefnd eins og hún er kölluð á skandinavísku, og það fyrirkomulag kemur vel til greina. Þá hefur sérstakur aðili það fyrir fram ákveðna hlutverk að taka við efni af þessu tagi, fjalla um það, m.a. meta hvort niðurstöður gefi tilefni til lagabreytinga, hvort í framhaldinu þurfi að huga að lagasetningu eða öðru slíku o.s.frv. Þetta var rætt hér á sínum tíma, bæði í tengslum við umræður um skýrslurnar og í tengslum við vangaveltur um breytingar á þingsköpum Alþingis. Hin leiðin væri sú að þessar skýrslur gengju til allra fagnefnda þingsins og þær hefðu það hlutverk hver og ein að sortera út og fara yfir það sem er á þeirra sviði. Það fyrirkomulag kæmi líka vel til greina.

Í tilviki Ríkisendurskoðunar má yfirleitt heimfæra það allt undir fjárln. út af fyrir sig en þó er oft verið að fjalla um faglega þætti í leiðinni, t.d. kemur hér fram að viðamikill hluti af starfi Ríkisendurskoðunar hefur á síðustu missirum legið inni á sviði heilbrigðismála. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt, jafnútgjaldafrekur og sá málaflokkur er. En ég a.m.k. áskil mér allan rétt til þess að halda áfram til haga þeim hugmyndum að það geti komið vel til greina að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem hér hefur verið við lýði í þau 12--15 ár sem þessi embætti hafa verið til og starfað í skjóli Alþingis. Það er ekki lengra síðan eins og kunnugt er. Ef minni mitt svíkur ekki var embætti umboðsmanns stofnað undir lok 9. áratugar síðustu aldar og Ríkisendurskoðun hvarf út úr fjmrn. sem deild og öðlaðist sjálfstæði og færðist í skjól af Alþingi um svipað leyti. Mér finnst því, herra forseti, að vel geti komið til greina að skoða breytt fyrirkomuleg. Síðan vantar auðvitað fleiri stofnanir af þessu tagi sem ættu að starfa í skjóli Alþingis. Þá vil ég sérstaklega nefna hagfræðilega stofnun. Það voru að mínu mati mikil mistök, mikið óráð, að leggja Þjóðhagsstofnun niður í stað þess að nota tækifærið og færa undir verndarvæng Alþingis sjálfstæða, óháða eftirlits- eða matsstofnun á því sviði sem hefði síðan getað verið þriðja stoðin í þessu eftirlits- og aðhaldskerfi sem Alþingi hefur sjálft starfandi í skjóli sínu og lýtur m.a. og ekki síst að fjármálalegum þáttum en einnig framkvæmd í stjórnsýslunni eins og embætti umboðsmanns auðvitað sérstaklega hefur með höndum.