Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:41:29 (935)

2003-10-30 11:41:29# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), GÖg
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir yfirferð um skýrslu umboðsmanns Alþingis en það er eitt af ánægjulegri verkefnum í þinginu að fara yfir þessa skýrslu. Það er alltaf ljómandi góð ábending fyrir okkur sem hér störfum og vil ég þakka umboðsmanni afar áhugaverðar ábendingar til stjórnvalda. Það kemur berlega í ljós að bráðum er ekkert mannlegt óviðkomandi umboðsmanni Alþingis. Það sést á umfangi þeirra mála sem um er að ræða í skýrslunni.

Það er mjög áhugavert að skoða þar sem umboðsmaður fer yfir notkun á orðinu ,,umboðsmaður`` og þá umræðu sem á sér stað erlendis. Þetta er alþjóðaheiti yfir starfssviðið. Hann fer jafnframt yfir það að kannski sé ofnotkunin hér á annan hátt en víðast hvar annars staðar. Við höfum einungis einn annan umboðsmann sem gegnir svipaðri stöðu, umboðsmann barna, en við erum hins vegar farin að tala um umboðsmann sjúklinga líka. Ég hef verið ein af þeim sem hefði frekar viljað tala um talsmenn í þessum málaflokkum, bæði varðandi sjúklinga, fatlaða, útlendinga o.s.frv. þannig að því verði ekki ruglað saman við hin stóru embætti sem hafa verið stofnuð með lögum, eins og segir í skýrslu umboðsmannsins.

Það er líka mjög áhugavert að skoða þau frumkvæðismál sem umboðsmaður hefur tekið að sér. Þau eru afar merk og mörgum ber að fagna sérstaklega, ekki síst frumkvæðismálum varðandi málefni fanga en sá hópur á oft fáa talsmenn og ekkert bakland þannig að það er afar mikilvægt að þeirra mál séu skoðuð. Ég bendi þingmönnum sérstaklega á bls. 15, mál nr. 6, varðandi laun og launamál fanga. Það verður afar spennandi að sjá hvað kemur út úr því, enda er líka upplýst að kannski komi lagabreytingatillögur frá hæstv. dómsmrh. viðlútandi þessi mál.

Það er líka mjög fróðlegt að sjá hvernig við erum alltaf að fóta okkur betur og verða betri í því að svara málum á réttum tíma. Þó erum við kannski ekki enn alveg orðin nógu æfð í því en allt horfir til betri vegar og það er alltaf munur frá skýrslu til skýrslu um hvað svörun verður betri. Það er líka afar fróðlegt að skoða alla málaflokkana og það kemur ekki á óvart að flest málin varða dóms- og kirkjumál. Ég bendi á bls. 31 þar sem þetta yfirlit kemur fram.

[11:45]

Það kemur mér samt sem áður á óvart að ekki skuli vera meira varðandi félagsþjónustuna og þá komum við kannski að þeirri spurningu hvort fólk sé nægilega meðvitað um þann rétt sem það á samkvæmt félagsþjónustulögunum og þær kæruleiðir sem fólk hefur í sveitarfélögunum. Það hefur löngum viljað bera á því að sá réttur sé ekki nægilega vel kynntur nema það sé tekið fyrir sérstaklega í sveitarfélögunum og í raun gefnir út bæklingar varðandi þessa réttarstöðu. Þar sem ég hef einmitt unnið mjög lengi í þeim málaflokki þá kemur mér á óvart hve það eru fá mál sem lúta að félagsþjónustunni en auðvitað er það líka mjög ánægjulegt. Við eigum eflaust líka eftir að sjá aukningu varðandi skólamálin í ýmsum málum sem kæmu til umboðsmanns þannig að í rauninni er þessi skýrsla oft vísbending inn í framtíðina um hvar við þurfum að skoða ýmsa stjórnsýslu og í rauninni styrkja rétt fólks til þess að láta reyna á sín mál.

Það er líka afar ánægjulegt að sjá að það er eiginlega undantekning ef ekki er farið eftir tilmælum umboðsmanns. Að vísu heyrum við auðvitað að sumir vilja spyrna við fótum og eru ekki alltaf alveg sáttir við það álit sem umboðsmaður kemur með en það er hins vegar mjög ánægjulegt að sjá að einungis er um eitt tilfelli að ræða þar sem ekki er farið eftir tilmælum og það er á bls. 39 í þeirri skýrslu, en þegar ég skoðaði það mál þá sá ég að það er mál sem fer sennilega til dómstólanna þannig að það er mjög ánægjulegt líka að sjá að það er í rauninni farið meira eftir þessum málum.

Ég vil ekki ræða einstök mál. Ég vil hins vegar benda fólki á bls. 97. Það er frekar sjaldgæft að fá barnaverndarmál hér inn en kannski má líka búast við einhverri aukningu á því en það er líka allt í lagi að benda t.d. á að þarna er verið að ræða um fósturráðstöfun. Það er kannski líka hollt að benda á það að þó að fósturforeldrar hafi alið önn fyrir barni frá ómunatíð, þá hafa þeir engan rétt samkvæmt barnaverndarlögum og teljast ekki aðilar máls ef upp kemur mál varðandi þá þannig að það segir manni kannski að það getur líka verið vísir inn í framtíðina fyrir umboðsmann að skoða.

Það er ekki hefð fyrir því að vera með mjög langar umræður um þessa skýrslu en það er mjög gott að sjá að hinn venjulegi borgari er búinn að sjá að umboðsmaður er sá aðili þar sem hægt er að koma með kvartanir til þegar allt um þrýtur. Að sjálfsögðu koma þangað mál án þess að umboðsmaður taki þau fyrir en mér finnst þessi skýrsla og þessi starfsemi fyrst og fremst benda til þess að styrkja réttarstöðu hins almenna borgara gagnvart stjórnkerfinu og er það afar vel.