Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:03:53 (940)

2003-10-30 12:03:53# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Embætti umboðsmanns Alþingis er núna orðið 15 ára gamalt, var stofnað með lögum árið 1987, tók til starfa í byrjun árs 1988. Þetta embætti hefur verið að treysta sig í sessi, mér liggur við að segja sækja í sig veðrið, því að það hefur átt í eins konar styrjöld við stjórnsýsluna og kerfið að reyna að færa það til betri vegar. Þetta er styrjöld sem er reyndar háð í mikilli friðsemd því að um embættið er mikil sátt í samfélaginu. Ég held að það líti allir svo á að þetta sé einn af veigameiri póstunum í okkar lýðræðissamfélagi. Ég held að það sé alger samstaða um það á Alþingi og óhætt að fullyrða að menn vilja almennt styrkja þessa stofnun.

Það eru hliðstæð embætti í öðrum ríkjum. Það kemur fram að í um 100 ríkjum víðs vegar um heiminn eru áþekk embætti umboðsmanna og ég fagna því að hér skuli það koma fram að það sé ástæða til að endurskoða notkun okkar á þessu hugtaki. Það er ábending sem kemur frá Alþjóðasambandi umboðsmanna um að við takmörkum þetta hugtak við þetta tiltekna embætti. Ég hef áður vakið máls á því við umræður um skýrslu umboðsmanns að það sé ástæða til þess að fara sparlega með þetta hugtak. Það var talað um að það væri ástæða til þess að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur umræðuna. Það má vera að hæstv. landbrh. hefði átt að vera hér því að það kemur fram í skýrslunni og kom fram í framsöguræðu að umboðsmannsheitið væri núna kennt við ákveðna húsdýrategund og þá er náttúrlega vísað til umboðsmanns hestsins. En ég held að við eigum að taka þessar ábendingar alvarlega og endurskoða heiti umboðsmanns barna. Ég held að það sé eina umboðsmannsheitið sem er að finna í lögum, eftir því sem ég best veit, en það hafa komið fram óskir og tillögur um að komið verði á fót embættum umboðsmanna öryrkja, nýbúa o.s.frv. Ég held að þetta sé ábending sem við eigum að taka til greina.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir umsvifum embættisins, fjölda kvartana, afgreiðslutíma mála hjá umboðsmanni og það vekur athygli mína að hann segir að þótt enn þá sé að finna ýmsar brotalamir þá sé þetta allt að færast til betra horfs, betur en 2002--2003 svo ég vitni orðrétt, með leyfi forseta, í skýrsluna:

,,Fann ég að breyting varð almennt til batnaðar varðandi það hversu fljótt stjórnvöld svöruðu erindum frá mér.`` Þetta segir í skýrslu umboðsmanns Alþingis og enn fremur segir, með leyfi forseta: ,,Enn eru þó dæmi um að stjórnvöld taki sér óhæfilega langan tíma til að svara erindum frá mér og það þrátt fyrir ítrekanir. Í slíkum tilvikum verður mér erfiðara um vik að standa við það markmið mitt að ljúka afgreiðslu á viðkomandi kvörtun innan sex mánaða frá því að hún barst mér.``

Mér finnst gott að stefnt skuli að því að hraða afgreiðslutíma hjá embættinu en það kemur þá niður á öðrum þáttum og þar vísa ég sérstaklega í frumkvæðismálin. Mér finnst mjög slæmt að það skuli koma niður á þeim þætti því að hér segir, með leyfi forseta:

,,Í skýrslum mínum fyrir árin 2000 og 2001 rakti ég að frumkvæðisathugunum hefði fækkað þar sem ég hefði ákveðið að leggja áherslu á að hraða afgreiðslu þeirra kvartana sem mér höfðu borist. Með sama hætti hefði ég ákveðið að láta úrvinnslu á eldri frumkvæðisathugunum bíða þar til náðst hefði ásættanlegur málshraði við afgreiðslu kvartana.``

Í skýrslunni kemur fram að umboðsmaður leggur mikið upp úr þessari vinnu, frumkvæðismálunum, og hann vísar í greinargerð með lögunum frá árinu 1987 þar sem fram kemur að embættinu hafi verið ætlað að gera tillögur um úrbætur í stjórnsýslunni og þar gegnir þessi þáttur miklu máli. Þar er vísað í frumkvæðismál sem hafa verið unnin á vegum embættisins á árinu 2002 varðandi réttarstöðu fanga t.d., töku ákvarðana ríkislögreglustjóra um að hafna útgáfu öryggisvottunar til ákveðinna einstaklinga í tilefni af fundi utanrrh. Atlantshafsbandalagsins. Þetta er athugun sem er enn í vinnslu. Það hefur verið tekið á umhverfismálunum líka. Ég hefði fyrir mitt leyti kosið ítarlega rannsókn á því sviði því að ég leyfi mér að fullyrða að oft hafi verið misræmi á milli orða og athafna, á milli laga og framkvæmda varðandi stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Ég hef haldið því fram í ræðu og riti að Landsvirkjun hafi verið á undan lögunum, menn hafi verið byrjaðir að framkvæma áður en tilskildar lagaheimildir hafi legið fyrir.

En það er eitt mál sem umboðsmaður hefur tekið sérstaklega til athugunar og tengist þessu og vísað er í þá athugun á bls. 13 í skýrslunni. Hér segir, með leyfi forseta. Það er vísað í frumkvæðisathugun varðandi:

,,Afgreiðslutíma hjá umhverfisráðuneytinu í tilefni af kærum vegna úrskurða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.``

Um þetta er síðan fjallað ítarlega í skýrslunni en í niðurstöðu úttektar umboðsmanns kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða mín samkvæmt framansögðu er því sú að umhverfisráðuneytið hafi í meiri hluta þeirra mála sem undir það eru borin á grundvelli [laga sem vísað er í] farið fram úr lögbundnum átta vikna afgreiðslufresti.`` Síðar segir: ,,Í ljósi þess eru það tilmæli mín til umhverfisráðuneytisins að leitað verði leiða til úrbóta á þessum annmarka á stjórnsýsluframkvæmd þess og þá í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef rakið í álitinu.``

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu að í meiri hluta þeirra mála sem voru borin undir umhvrn. á þessu sviði er ekki farið að lögum varðandi tímafresti.

Í skýrslunni kemur fram að umboðsmaður Alþingis hefur verið að kanna með hvaða hætti stjórnsýslan hafi bætt sig eða hvort hún hafi gert það. Einhvers staðar kemur fram að hann hafi skrifað einum 32 stofnunum og ráðuneytum til að kanna verkferlana. Hann segir þó engu að síður að á það skorti að fram fari heildstæð athugun á þessum málum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hafa verður í huga að sérstök úttekt hefur ekki verið gerð á því hvernig til hafi tekist hjá stjórnvöldum að laga vinnubrögð sín að þeim kröfum sem stjórnsýslulögin gera.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Ég hef hins vegar lýst því að mér þykir enn of hægt ganga við að stjórnvöld geri almennar ráðstafanir til að færa starfshætti sína til samræmis við þær kröfur sem leiða af reglum laganna. Þá hef ég talið brýnt að auka fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar um þær stjórnsýslureglur sem þeim ber að fylgja við úrlausn mála.`` Síðan varar umboðsmaður okkur við að alhæfa í þessu efni.

En ég vil taka undir þetta. Ég held að fræðsla innan stjórnsýslunnar skipti mjög miklu máli. Hún er til þess fallin að gera fólk betur í stakk búið að sinna sínum verkum og gerir stjórnsýsluna þar með markvissari í öllum vinnubrögðum. Því vil ég sérstaklega vekja athygli á þessari ábendingu umboðsmanns um að efla almennt starfsfræðslu hjá starfsfólki innan stjórnsýslunnar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa skýrslu sem er vönduð og vel fram sett og vil gera slíkt hið sama gagnvart starfsfólki umboðsmanns Alþingis og ég gerði gagnvart starfsmönnum Ríkisendurskoðunar að óska þeim alls góðs.