Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:44:57 (944)

2003-10-30 12:44:57# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:44]

Halldór Blöndal (andsvar):

Virðulegur forseti. Óhjákvæmilegt er að vekja athygli á því að samkvæmt því sem kemur fram í skýrslunni hefur verið farið að tilmælum umboðsmanns nema í einu tilviki. Það mál er fyrir dómstólum og er óhjákvæmilegt að úrskurður þar liggi fyrir eins og fram kemur á töflu á bls. 39.

Ég vil í annan stað segja að þau álit sem hér liggja fyrir eru 36. Það er fjöldi mála. Nú hefur verið venja hin síðustu ár að allshn. taki skýrslu umboðsmanns til athugunar áður en málið er tekið hér til umræðu. Ég vil segja eins og áður í sambandi við skýrslu ríkisendurskoðanda að um leið og álit umboðsmanns liggja fyrir þá gefst þingmönnum kostur á því að taka þau mál upp í þinginu, annaðhvort utan dagskrár eða með því að vekja athygli á því að þessi álit liggi fyrir í þeirri þingnefnd sem í hlut á. Ég held að störf þingsins yrðu tafsöm ef hugmyndin væri sú að hér ættu að vera almennar umræður um 36 álit umboðsmanns og ef jafnmiklar umræður yrðu ávallt --- eins og hv. 2. þm. Reykv. s. Jóhanna Sigurðardóttir sagði fyrr í dag --- um skýrslu Ríkisendurskoðunar þá mundi það tefja mjög þingmál. En þingmönnum er frjálst að taka þessi mál upp á Alþingi ef þeir sjá ástæðu til. Ekki hefur verið synjað um slíkt þannig að ég álít að þingið gegni alveg sinni skyldu að fylgja eftir álitum frá umboðsmanni og ríkisendurskoðanda þegar við á.