Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:49:15 (946)

2003-10-30 12:49:15# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:49]

Halldór Blöndal (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má löngum gera betur og kannski er maðurinn svo ófullkominn að alltaf kemur einn öðrum fremri, ekki skal ég draga það í efa, nema kannski nú eins og á stendur þegar þingmönnum Sjálfstfl. hefur fækkað á Alþingi.

Á hinn bóginn hlýt ég að segja eins og áður að skýrslur umboðsmanns liggja fyrir og eru aðgengilegar á netinu og ef þingmenn telja ástæðu til geta þeir tekið skýrslurnar til athugunar og umræðu í þingsölum með því að óska eftir umræðum utan dagskrár eins og ég sagði áður og jafnframt hygg ég að þingnefndir, a.m.k. formenn þingnefnda fylgist með því hvort athugasemdir séu gerðar innan þeirra málaflokks og málsviðs. Ég tel eðlilegt að þingmenn vinni með þeim hætti og eftirlitsstörf þingsins séu þannig vel unnin.

Á hinn bóginn þykir mér líka nauðsynlegt að benda á að í upphafi hvers þingfundar er hægt að kveðja sér hljóðs um störf þingsins og vekja athygli á því ef þingnefnd skorast undan því að taka til athugunar sérstakt álit sem þingmenn hafa áhuga á. Ég hygg á hinn bóginn, eins og hv. þm. sagði raunar áðan, hæpið að efna til þess að umræður séu í þingsal um hvert einasta álit og þess vegna er óhjákvæmilegt að það sé tekið upp af einstökum þingmönnum ef sú er hugmyndin. Það er þingmönnum sjálfum í lófa lagið og það er mikill metnaður sem ég sýni fyrir hönd þingsins að ætlast til þess að þingmenn hafi dug í sér sjálfir til að taka upp þau mál sem þeir telja nauðsynlegt að taka upp á hinu háa Alþingi.