Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:51:23 (947)

2003-10-30 12:51:23# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:51]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hvaðan hv. þm. Halldór Blöndal hefur þá hugmynd að hér sé einhver að ræða um það að taka hvert einasta álit umboðsmanns fyrir og ræða það í ræðustóli. Ég vil ítreka það enn og einu sinni að ég hef ekki heyrt neinn nefna það í umræðunni.

Málið snýst einfaldlega um það hvort þingið telji að nægilega vel sé að málum staðið hjá stjórnvöldum og hvort þingið eigi að grípa til einhverra aðgerða til þess að styrkja enn betur slíkt eftirlit. Í þeim efnum teldi ég það vera ráð að nefndirnar hafi skýrslur á borð við þessa í sérstökum farvegi hér í þinginu og hugsanlega í allshn. þar sem þær eru teknar til sérstakrar umfjöllunar. Á þann hátt er það tryggt, frú forseti, að það sé eitthvert ábyrgt apparat í þinginu sem kafi ofan í þá skýrslu. Gefi síðan mat sitt á það og leggi fram í þinginu hvort einhver ástæða sé til að breyta lögum eða styrkja þennan ramma enn betur.

Ég vil líka ítreka, eins og fram kemur í skýrslu umboðsmanns, að sem betur fer hefur mjög mikið lagast á síðustu árum og eftir að embættið tók til starfa. Allt stendur þetta því til bóta, frú forseti. En spurningin er kannski sú hvort við sem erum þjóðkjörnir fulltrúar á þessari samkundu getum breytt einhverju í okkar starfsháttum til þess að tryggja enn betra eftirlit.