Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:57:06 (950)

2003-10-30 12:57:06# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:57]

Bjarni Benediktsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil einungis koma því að í tilefni af andsvari hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að ég sé ekki að það sé tilefni til þess að þingið fari að gefa skýrslu um skýrslu umboðsmanns Alþingis vegna þess að umboðsmaður Alþingis er sérstaklega kjörinn af Alþingi til að gegna því hlutverki að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og hann gefur út skýrslu um störf sín og sú skýrsla er eins og hér hefur komið fram mjög greinargóð og aðgengileg og hún á að vera fullnægjandi fyrir þingmenn til þess að gera sér grein fyrir öllum þeim vandamálum sem kunna að finnast í framkvæmd stjórnsýslunnar. Ég tel því ekki ástæðu til að þingið fari að gefa út sérstaka skýrslu um skýrsluna heldur eigi menn frekar að einbeita sér að því að horfa til þess hvar í skýrslunni er vakin athygli á úrbótum sem við má koma í framkvæmd stjórnsýslunnar og þannig á þingheimur allur að taka það til sín að fylgja eftir þeim ábendingum sem umboðsmaður kemur á framfæri og sérstaklega á það auðvitað við þar sem stjórnvöld hafa ekki brugðist við sem eru sem betur fer alger undantekningartilvik, en við eigum í tilefni af skýrslu árið 2002 að horfa sérstaklega til þeirra ábendinga sem þar koma fram um einfaldar lagfæringar sem geta skilað miklum árangri.