Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 13:47:07 (954)

2003-10-30 13:47:07# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir varðar breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, hefur í þessum sölum, í fjölmiðlum og víða í samfélaginu gengið undir heitinu ,,vændisfrumvarpið``. Þetta mál hefur verið lagt fram á fjórum undangengnum þingum en nú ber svo við að þingkonur allra flokka utan Sjálfstæðisflokksins safna sér saman á þetta mál. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Dagný Jónsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Bjartmarz, Katrín Júlíusdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman. Þetta eru þingkonur fjögurra stjórnmálaflokka sem hér sitja á Alþingi.

Málið gengur út á að hver sá sem greiði fyrir kynlífsþjónustu af nokkru tagi skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum. Þetta er megininntak 1. gr. frv., frú forseti, en að öðru leyti mun ég gera grein fyrir þeim breytingum sem yrðu á gildandi grein verði þetta mál að lögum.

Nú er það svo að refsiábyrgð vegna vændis hvílir á herðum þeirra sem leiðast út í vændi, þ.e. á herðum þeirra sem neyðast til að selja aðgang að líkama sínum. Þetta telja flutningsmenn þessa frv. vera misráðið og vilja breyta áherslum með því að færa refsiábyrgðina yfir á herðar þess sem býr til eftirspurnina, þ.e. á herðar kaupandans. Með því að gera þessa breytingu yrði aflétt refsiábyrgðinni af vændiskonunum og þeim sem leiðast út í vændi. Ábyrgðin hvíldi þannig eingöngu á herðum þeirra sem byggju til eftirspurnina.

Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því að orðalagi í núgildandi lögum verði breytt á þann hátt að þar sem segir í núgildandi lögum ,,hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra`` verði orðalagi breytt í ,,hefur tekjur af milligöngu um vændi annarra``. Má segja að hér sé um grundvallarbreytingu á lagagreininni að ræða, þar sem orðið lauslæti yrði tekið út úr henni og í staðinn yrði alla jafna sett í staðinn fyrir orðið ,,lauslæti`` orðin: vændi eða önnur kynlífsþjónusta.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir því í frumvarpsgreininni, frú forseti, að ákvæði 4. mgr. 206. gr. verði breytt þannig að aldursmörk hverfi út úr greininni og gert ráð fyrir því að athæfi það sem greinin fjallar um verði refsivert, hvort sem viðkomandi er kunnugt um tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki.

Í gildandi lögum segir um þetta atriði að það varði refsingu að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti ef viðkomandi er 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang fararinnar. Með þessu frv. er gerð tillaga um að aldursmörk falli niður og það skipti þar með ekki máli hvort viðkomandi er kunnugt um tilgang fararinnar eða ekki og einnig er lagt til að orðalagið ,,hafa viðurværi sitt af lauslæti`` breytist í: taka þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði.

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að umræðan um mansal, vændi og klám hefur aukist mjög í Evrópulöndum á síðustu árum. Aukin áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kynlífsiðnaði og Íslendingar mega að sjálfsögðu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Þess vegna þurfum við að færa gildandi lög til betri vegar.

Ýmsar deilur hafa komið upp um hvernig best sé á þessum málum haldið. Frv. það sem hér er flutt er samið eftir fyrirmynd frá Svíum. Svíar lögleiddu fyrir fjórum árum, tæpum fimm árum, svipaða breytingu í sínum lögum og hér er lögð til. Í málstofu sem Stígamót gengust fyrir ásamt nokkrum öðrum kvennahreyfingum á Íslandi undir yfirskriftinni ,,Baráttan gegn verslun með konur -- Bestu leiðirnar á Evrópuvettvangi`` flutti sérstakur ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar, Gunilla Ekberg, erindi um hvernig sænska leiðin hefði reynst hjá Svíum.

Sömuleiðis höfum við Íslendingar tekið á móti Margaretu Winberg sem er fyrrverandi jafnréttisráðherra Svíþjóðar. Hún kom til Íslands og hélt erindi í málstofu sem Stígamót og kvennahreyfingar héldu sameiginlega þann 6. september sl. Fór Margareta Winberg þar yfir hvernig sænska leiðin hefði reynst hjá Svíum og var samdóma álit þessara tveggja kvenna, Gunillu Ekberg og Margaretu Winberg, að aðferðin hefði reynst vel og það hefði sýnt sig að þessi aðferð hefði stemmt stigu við götuvændi í Svíþjóð, hefði sömuleiðis haft þau áhrif að glæpasamtök sem stunda mansal á börnum og konum í kynlífsiðnaðinn í Svíþjóð væru farin að sniðganga landið. Það má segja að það hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra þingmanna sem fluttu þetta mál í Svíþjóð hversu fljótt árangurinn virtist ætla að skila sér.

Margareta Winberg rakti tilurð þessara laga og taldi að það hefði skipt sköpum að sænskir þingmenn voru tilbúnir til að fallast á þá skilgreiningu þeirra sem stóðu að málinu að vændi væri í raun ofbeldi gegn konum. Ef við, frú forseti, skilgreinum vændi sem ofbeldi þá ber okkur að sjálfsögðu að meðhöndla málið sem slíkt, meðhöndla málið sem ofbeldi.

Hvers vegna teljum við mikilvægt að gera þá breytingu sem hér er lögð til? Jú, það er mikilvægt í vestrænum samfélögum að löggjöfin endurspegli þá þekkingu sem löggjafinn og þegnarnir telja sig hafa á málum. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að vændi hefur hörmulegar afleiðingar á það fólk sem út í það leiðist. Þær hafa m.a. sýnt að áhrifin af vændinu séu svipuð og áhrifin sem þolendur kynferðisofbeldis þurfa að þola. Fleiri en eina rannsókn væri hægt að nefna sem gefur slíkar niðurstöður.

Það má líka segja að í vændi halli ævinlega á vændiskonuna, þ.e. hún er ævinlega veikari aðilinn í sambandinu. Kúnninn er sá sterkari. Kúnninn hefur val, val um það hvort vændið er keypt eða ekki. Vændiskonan á hins vegar ekki val. Hún er venjulega að framfleyta sér með vændinu út úr neyð vegna þess að aðrir valkostir eru ekki til staðar. Einnig má fullyrða að fjöldi vændiskvenna leiti í vændi vegna sögu um misnotkun, sömuleiðis að eiturlyfjaneytendur fjármagni eiturlyfjaneyslu sína með vændi og þar fram eftir götunum. Það er því augljóst, frú forseti, að sá einstaklingur sem stundar vændi notar það sem óyndisúrræði. Þar af leiðandi er staða hans, þess einstaklings, ævinlega veikari en staða kúnnans.

Það er því mikilvægt, frú forseti, að við gerum okkur grein fyrir því að hér er líka verið að flytja mál sem höfðar til mannréttinda, þ.e. mannréttinda þeirra einstaklinga sem eiga erfitt með að framfleyta sér, erfitt með að finna leiðir í þessu samfélagi. Það er auðvitað á ábyrgð okkar samfélags að koma því fólki til hjálpar en ekki að neyða það út í óyndisúrræði á borð við vændi.

Nú er það svo, af því að við vorum að fjalla um leiðina sem Svíar hafa farið, að reynsla Svía sýnir fram á að þetta er löggjöf sem sænska þjóðin fellir sig mjög vel við. Þrjár skoðanakannanir eru til grundvallar þessari fullyrðingu minni. Þær hafa sýnt að um 80% sænsku þjóðarinnar telja sig hlynnt þessari löggjöf þegar spurt hefur verið. Hér er um yfirgripsmiklar og stórar skoðanakannanir að ræða, kannanir sem hafa verið endurteknar á mismunandi tímum og leiða í ljós að Svíar eru almennt ánægðir með að þessi löggjöf skyldi sett og refsiábyrgðin færð á herðar kaupandanum en ekki vændiskonunni.

Ekki ber að skilja það svo, frú forseti, að hér gildi refsi\-gleðin ein. Þvert á móti. Við verðum að horfa í það hvernig hlutirnir eru að þróast í samfélaginu og hvernig álit fólks er að breytast. Fólk er í auknum mæli að verða meðvitað um að ábyrgðin þurfi að hvíla á herðum sterkari aðilans að þessu leyti en ekki hins veikari í samskiptum vændiskvennanna og kúnnanna.

Samhliða því að svona mál fari í gegn, frú forseti, þarf að huga að ýmsu, t.d. því að fólk sem leiðist út í vændi eigi sér einhverja möguleika á stuðningi í samfélaginu. Þetta þýðir að við þurfum að efla félagsþjónustu, efla alla þá þjónustu sem stendur til boða fólki sem í annan tíma gæti gripið til þess óyndisúrræðis að selja aðgang að líkama sínum.

Sömuleiðis þurfum við að efla mjög fræðslu til ungs fólks varðandi kynlífsiðnaðinn og áhrif hans. Svíar hafa útbúið sérstakt fræðusluefni fyrir skóla og sérstaklega er þar verið að tala um framhaldsskóla. Meðal þess sem gert hefur verið í Svíþjóð er að fræg bíómynd Lukasar Moodyssons, Lilya 4-ever, hefur verið sýnd í skólum landsins og sannarlega gefið góða raun. Þetta hefur vakið mikla og öfluga umræðu í Svíþjóð á almennum vettvangi fjölmiðla og sömuleiðis meðal félagasamtaka. Lögreglan hefur tekið sér tak og búið til fræðsluprógramm fyrir sitt fólk. Sömuleiðis þeir einstaklingar sem starfa innan félagsþjónustunnar.

Segja má að Svíar hafi tekið vel á málum alls staðar í kerfinu þar sem þörf er á að veita stuðning. Þetta verðum við auðvitað líka að hafa í huga, að máli af þessu tagi fylgir ábyrgð. Sé horft á reynslu Svía hvað varðar ákærur þá hefur komið fram í fjölmiðlum að um 500 einstaklingar hafi þegar verið ákærðir í Svíþjóð á grundvelli þessarar tilteknu greinar laganna og flestir þeirra hafa verið sakfelldir eða viðurkennt sekt sína.

[14:00]

Svíar töldu aldrei að þessi aðferð þeirra mundi leysa öll þeirra vandamál. Við sem stöndum að baki þessarar tillögu hér, virðulegi forseti, erum heldur ekki með þá glýju í augunum að við teljum að lagabreyting af þessu tagi breyti ástandinu þannig að vændi verði útrýmt í eitt skipti fyrir öll. Það er öðru nær. Við teljum hins vegar að reynsla Svía hafi sýnt að tölur þeirra sem sjást á götunum við þessa iðju hafi hrapað það mikið að það sé alveg ljóst að stór kúfur í þessu máli breytist verði lagagrein af þessu tagi sett sem lög á Alþingi.

Segja má að Svíar hafi núna staðfest að glæpasamtökin sem hingað til hafa flutt þúsundir kvenna, jafnvel tugþúsundir, til Svíþjóðar séu farin að sniðganga Svíþjóð. Nú telja Svíar að eingöngu 200--500 konur lendi í klóm mansalsglæpahringa á mót þeim þúsundum sem áður komu um landamæri Svíþjóðar í þessum tilgangi til landsins. Því er alveg ljóst að stór hluti vandamálanna hefur breyst og hefur leyst.

Ein rödd er þó uppi í Svíþjóð sem fjallar um nákvæmlega þennan þátt. Menn segja: Sænskir kúnnar leita nú bara yfir landamærin. Dregið hefur svo mikið úr eftirspurninni í Svíþjóð að sænskir kúnnar eru farnir að leita yfir landamærin til Noregs, Finnlands og jafnvel Eystrasaltslandanna. Hvað er þá til ráða, virðulegi forseti? Þá er það auðvitað til ráða að útfæra löggjöf Svía í nágrannalöndunum því við verðum að horfa á það af alvöru að mansal er glæpur, alþjóðlegur glæpur, sem spyr ekki um landamæri. Glæpahringir þeir sem stunda mansal fara þvert yfir lönd og álfur. Það er nauðsynlegt að lönd í Vesturálfu taki höndum saman úr því löggjöf Svía virðist vera að reynast svona vel og sameinist og standi sameinuð á bak við þessa aðferð.

Ef Finnar sem núna eru að skoða möguleikann á að taka þetta upp tækju upp sömu leið --- ég tala nú ekki um baltnesku löndin sem sum hver eru með þetta til skoðunar líka, jafnvel Rússland er að skoða þessa aðferð --- þá sjáum við í hendi okkar að svæðið sem glæpasamtökin sniðganga núna, sem er Svíþjóð, stækkar. Ef við Íslendingar gætum gengið fram fyrir skjöldu, fylkt okkur að baki Svíum og sagt að við séum tilbúin til að fara þessa sömu leið þá mundi það auðvelda Finnum, baltnesku löndunum og hinum Norðurlöndunum að stíga þessi skref. Við verðum að horfa á þetta í stóru samhengi.

Svíar eru búnir að ríða á vaðið. Árangurinn virðist vera mjög sterkur, mjög góður og þá skiptir öllu máli að við höldum áfram að breiða út boðskapinn. Það er það sem þeir flutningsmenn sem hér standa að baki tillögunni hafa ákveðið að sameinast um. Við teljum mikilvægt að vestræn samfélög axli ábyrgð af þessu tagi, axli ábyrgð á sama hátt og Svíar hafa gert. Við værum stolt af því ef Ísland gæti komið næst í röðinni á eftir Svíum. Það mundi síðan auðvelda Finnum enn meira þá vinnu sem þar er í gangi.

Noregur hefur hingað til ekki verið ginnkeyptur fyrir þessari aðferð virðist vera, en þó berast þær fréttir frá Noregi, af stjórnmálaflokkum í Noregi, að Sosialistisk Venstreparti sé búið að ákveða að reyna að vinna þessari leið brautargengi í Noregi. Það er ljóst að hugmyndafræðin er að breiðast út og kannski eigum við með þessari hugmyndafræði eftir að ná utan um þann skelfilega glæp sem mansalið er.

Við erum skuldbundin samkvæmt alþjóðasáttmálum að gera slíkt. Nefna má sáttmálann um afnám skipulagðrar glæpastarfsemi milli landa og bókun, sérstakan viðauka við þann samning, sem fjallar um mansalið, þ.e. svokallaða Palermo-bókun.

Við höfum í þessum þingsal átt orðaskipti um þá bókun og ljóst er að Íslendingar rituðu undir bæði þennan samning og þessa bókun í desember árið 2000 þegar samningurinn var gerður. Nú eru svo mörg lönd búin að fullgilda bæði Palermo-bókunina og samninginn sjálfan að svo virðist vera að þess sé stutt að bíða að þessir samningar hafi lagalegt gildi fyrir aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna. Þetta er afar mikilvægt og við hvetjum auðvitað til þess að Íslendingar fylgi þeim löndum sem þegar hafa staðfest eða fullgilt þessa samninga, að fara nú að gera slíkt. Það stendur til, en það má alveg fara að huga að því að drífa í því.

Virðulegi forseti. Ég á sæti í stjórn Evrópusamtaka sem vinna gegn mansali á konum inn í kynlífsiðnað á Vesturlöndum. Þessi samtök hafa sett sér það markmið að búa til stórt og mikið net kvennasamtaka sem vinni saman að því að finna leiðir sem virka gegn mansalinu, leiðir sem tryggi að fólk geti lifað með reisn í heiminum, allir, og þurfi ekki að eiga það á hættu að lenda í klóm þeirra sem stunda mansal. Þetta er auðvitað hluti af birtingarmynd ójöfnuðar í heiminum og hún er fólgin í því að fólk í fátækari löndum telur ævinlega eftirsóknarvert að komast til Vesturlanda eða að eiga veraldlegar eignir. Fjölskyldufeður selja jafnvel dætur sínar í svona þrældóm til að geta menntað syni sína. Það er á ábyrgð okkar Vesturlandabúa að taka hér til hendinni og sjá til þess að þjóðir í heiminum þurfi ekki að leggjast svona lágt. Hér er um vandamál að ræða sem teygir anga sína víða.

Þessi Evrópusamtök sem hafa einsett sér að vinna gegn mansalinu og stuðla að því að fólk geti lifað með reisn í mannlegu samfélagi hvar sem er í heiminum hafa líka ákveðið að skoða eftirspurnina í sínum löndum eftir kynlífinu, eftirspurnina eftir vændinu, eftirspurnina eftir kláminu. Þessi samtök teygja sig nú þegar um mest alla Evrópu. Það er gaman að segja frá því hér að lokaráðstefna þessara samtaka er á næsta leiti. Það er eiginlega svona ársprósess eða ársvinna sem hefur verið að fara fram og henni er að ljúka núna í desember þannig að í desember geri ég ráð fyrir að tugir kvennasamtaka fylki sér á bak við þetta net og taki að sér að vinna í sínum löndum að þessum áherslumálum sem hafa verið sett fram í formi stofnsamþykktar. Íslendingar eru ein af þremur þjóðum sem leiða þetta starf þannig að á vettvangi Evrópu eru Íslendingar mjög framarlega í þessu tilliti. Það yrði því til sóma, virðulegi forseti, ef möguleiki yrði að koma löggjöf af því tagi sem hér er talað fyrir í gegn á Íslandi sem fyrst.

En hversu stórt er vandamálið hér heima hjá okkur? Er þetta kannski bara vandamál sem brennur á stórþjóðunum í útlöndum? Nei, virðulegi forseti, vandamálið brennur á okkur hér á Íslandi.

Árið 2001 kom út skýrsla á vegum dómsmrn. sem sýndi fram á að vændi væri stundað á Íslandi og það ekki bara einhver ein tegund af tilviljanakenndu götuvændi heldur a.m.k. fimm mismunandi og ólíkar tegundir vændis. Skýrslan ber heitið Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess og hún er afar gagnleg lesning, virðulegi forseti.

Samkvæmt þessari skýrslu er kynlífsiðnaðurinn skilgreindur því það hefur jú verið á reiki hvað hér sé um að ræða, þ.e. hvaða kynlífsþjónustu hér sé um að ræða og hvaða kynlífsiðnað hér sé verið að fjalla um. Í skýrslunni er talið að með kynlífsiðnaði sé vísað til klámrita, starfsemi nektardansstaða, klámmyndbanda, barnakláms, kláms á internetinu, skipulagðs vændis, götuvændis, símavændis, erótískra nuddstofa og fylgdarþjónustu. Við þessa upptalningu má líka bæta auglýsingum um ýmiss konar kynlífsþjónustu, t.d. í dagblöðum, auk þess sem talið er að í tengslum við ákveðnar vefsíður sé stundað skipulagt vændi.

Því er alveg ljóst að af þeirri lesningu sem skýrslan um vændi á Íslandi hefur að geyma að vandamálið brennur á okkur hér. Ekki er um neitt fjarlægt vandamál að ræða sem við getum skýlt okkur á bak við. Við getum ekki skýlt okkur á bak við að við séum lítil þjóð í norðurhöfum sem þurfi ekki að glíma við svona lagað.

Samkvæmt leiðbeinandi reglum sem jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og ráðherranefnd þess hafa afgreitt er alveg ljóst að vilji Evrópusambandsins til þess að ná böndum á þennan kynlífsmarkað allan er alveg skýr. Við erum að því leyti líka í samvinnu við Evrópulönd á breiðum grunni og ættum þess vegna að fylgja fordæmi þeirra og skoða skilgreiningar þeirra á þessu og sjá til þess að vera ekki eftirbátar þeirra úti í Evrópu sem eru núna að vinna vinnu af svipuðu tagi og hér hefur verið lýst.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að við viljum standa saman um að útrýma ofbeldi úr okkar heimi. Ofbeldið á sér margar birtingarmyndir og sumar æðiflóknar. Þeir sem standa að baki því frv. sem hér er flutt eru sammála um að kaup á kynlífi og kynlífsþjónustu sé gróf valdbeiting. Með öðrum orðum þá teljum við varðandi kynferðislegt ofbeldi að valdastaða þess sem kaupir, selur eða hefur milligöngu um þjónustuna sé staða hins sterka. Það er alveg ljóst að afleiðingar vændisins eða sölu hvers kyns kynlífsþjónustu eru mjög alvarlegar og eins og ég sagði í upphafi máls míns þá sýna rannsóknir fram á að þær eru svipaðar hjá öðrum þolendum kynferðisofbeldis, þ.e. brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, þunglyndi, sjálfsvígsþankar og tilraunir til sjálfsvíga.

Á síðari árum hafa fátækt og litlar vonir fólks um mannsæmandi framtíð víða knúið það til vændis og auðveldar það þannig þeim sem kaupa kynlífsþjónustu eða gerast milligöngumenn um slíkt að ná valdi yfir því. Þetta eru alvarlegar staðreyndir, virðulegi forseti, sem við verðum að skoða, taka nærri okkur og vinda okkur í, einhenda okkur í að tryggja að þurfi ekki að vera á okkar eigin dyraþrepum. Við þurfum að taka ábyrgð. Við sem erum í þessum sal getum gert það með því að hugleiða löggjöf af því tagi sem hér er talað fyrir og sjá til þess að vændi verði meðhöndlað eins og eðlilegt getur talist, þ.e. sem ofbeldi.