Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 14:24:03 (956)

2003-10-30 14:24:03# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. 1. flm. frv. fyrir framsöguna og mjög góða framsögu um málið. Hún rakti í rauninni allar forsendur og rök sem eru á bak við það að flutningsmenn leggja til þessa breytingu á almennum hegningarlögum. Ég, eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, kem fyrst og fremst hér til að lýsa stuðningi mínum við frv.

En það sem mig langar að gera að umtalsefni er afstaða þeirra úrtölumanna sem við höfum heyrt töluvert mikið í. Afstaða þeirra sem ýmist gera grín að frv. eða kappkosta að tína til einhver þau rök og ástæður til að þessa breytingu eigi ekki að gera. Það hefur valdið því að ég hef hugsað þetta mál aftur og aftur og velt því fyrir mér hvort þetta væri rétt. Eins og ákvæðið er núna er refsivert að selja líkama sinn, enda dugi það viðkomandi til framfærslu. Annars er það ekki refsivert eins og við vitum.

Spurningin er sú ef menn vilja ekki ganga þetta skref og gera þessa breytingu, hvað vilja þeir þá? Þetta ákvæði er barn síns tíma. Sett fyrir áratugum síðan við allt aðra þjóðfélagsmynd en við búum við í dag. Sett fyrir tíma mansals og klámvæðingarinnar og þess alls. Það sem við erum í rauninni að gera er að bregðast við breyttu þjóðfélagi, breyttri þjóðfélagsmynd. Við erum að bregðast við þeim raunveruleika vestrænna samfélaga sem við sjáum bæði í mansalinu og þeirri klámvæðingu sem ríður yfir okkur.

Ég velti því fyrir mér að ef menn vilja hafa lögin óbreytt, með hvaða rökum er það? Þá hljótum við m.a. að taka afstöðu til þess hvort við trúum því raunverulega að nokkur kona, nokkurn tímann af frjálsum og fúsum vilja, sé að selja líkama sinn. Ég hef ekki hitt enn þá neina konu sem heldur því fram að svo sé, og þess vegna svo sem ekki marga karla. Vegna þess að raunveruleikinn er alltaf sá að það eru yfirleitt ekki konurnar sjálfar heldur einhverjir allt aðrir sem hagnast á þessu fjárhagslega. Þær eru yfirleitt notaðar öðrum til hagnaðar.

Það sem við vitum líka af skýrslu dómsmrh. frá árinu 2001 um vændi er að flestir þeir sem fara út í þetta eru annaðhvort fíkniefnaneytendur eða konur og þess vegna drengir sem hafa verið misnotaðir kynferðislega í æsku. Við vitum öll hvaða áhrif það hefur á þá sem verða fyrir því. Það er brotin sjálfsmynd og eyðilögð æska og fólk sem hefur verið eyðilagt félagslega og andlega. Ætlar svo einhver að halda því fram að slíkir einstaklingar hafi frjálst val? Ég get a.m.k. ekki fallist á það.

Ef við sjáum hverjir þeir eru sem hafa verið að selja líkama sinn, þá er líka alveg ljóst að þeir sem kaupa vændi eru að nýta sé eymdina og volæðið sem þetta fólk býr við, nýta sér veika félagslega og efnahagslega stöðu þessa fólks, andlega, félagslega og efnahagslega fátækt. Það sem við þurfum líka að hugsa til er að kaupendurnir í þessu tilviki, ef við skoðum kaupendahópinn út frá þeim sem hafa verið að bjóða vændi til sölu, út frá þeim sem eru að bjóða, þeir hafa val. Hinir hafa ekki val.

Þess vegna segi ég, eins og lagaákvæðið er núna að refsivert sé að bjóða en ekki að kaupa vændi, þá finnst mér það ólíðandi ef við höldum í þá löggjöf. Og þá getum við skoðað hvort ekki séu rök til þess að fella það brott. Þá erum við í rauninni að lögleiða vændi. Er það eitthvert lagaástand sem við viljum búa við?

Viljum við í rauninni að í samfélagi okkar verði vændið gert að starfsgrein? Að konur geti boðið líkama sinn til sölu og karlmenn geti keypt. Nú er rétt að taka fram að það eru líka ungir drengir sem hafa verið að bjóða líkama sinn til sölu og eldri karlmenn að kaupa líkama þeirra, við skulum ekki binda þetta bara við konurnar. Þessi leið hefur verið farin í sumum löndum og á sér ýmsa talsmenn. Rökin fyrir því eru m.a. þau að ekki sé hægt að koma í veg fyrir vændi --- við erum ekki að tala um Norður-Evrópu, við erum ekki að tala um Norðurlöndin --- og rök ríkjanna eru þá þau að það sé réttast að leyfa þetta, vegna þess að þá sé hægt að koma á heilbrigðiseftirliti og svo sé hægt að innheimta hjá vændiskonunum skatta og gjöld. Ég hef ekki heyrt önnur rök fyrir því að þetta eigi að vera refsilaust hjá þeim ríkjum sem hafa verið að fara þá leið.

Við skulum heldur ekki gleyma því að á sama hátt og við erum hérna að manni finnst stundum miðað við umræðuna eins og hún hefur verið og úrtölurnar, að við séum svolítið hjáróma í rökum okkar fyrir þessari breytingu, að þá eru alveg gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi í kynlífsiðnaðinum og þeir eiga sér óskaplega marga sterka talsmenn. Þetta er alveg gífurleg velta sem menn hafa sagt að megi alveg jafna við þá veltu eða þann hagnað sem er bæði í eiturlyfjaiðnaðinum og vopnasölu.

[14:30]

Og þá segi ég: Það er í ekki hægt að fara þá leið heldur, ekki í okkar samfélagi, ekki í norrænum velferðarsamfélögum. Ég get ekki fallist á að við gerum það. Og þá spyr ég: Hvað stendur þá eftir? Að mínu mati stendur þá ekkert annað eftir en þessi þriðja leið, að gera kaupin refsiverð. Rökin fyrir því að gera það eru í rauninni þau sömu. Þau eru akkúrat þessi: Að sá sem er sterkari í þessum samskiptum, sá sem hefur betri efnahagslega og félagslega stöðu er að nýta sér bágindi, eymd og volæði annars manns. Við erum þá með því að reyna að sporna við eftirspurninni og við erum að reyna að sporna fæti við þessari klámvæðingu.

Mér finnst einhvern veginn að við getum ekkert rætt bara um þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi búum við í allt öðru samfélagi en við gerðum þegar þetta hegningarlagaákvæði var sett á sínum tíma því nú þurfum við að horfast í augu við mansalið, þessa nýju gróðavon í vestrænum heimi. Við getum ekkert talað bara um vændið eitt og sér. Við getum ekki talað um það án þess að horfa líka til mansalsins og klámvæðingarinnar.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég sannfærðist endanlega um að þetta væri eina rétta leiðin eftir að ég sá kvikmyndina Lilya 4-ever. Hún fjallar um stúlku frá einu af baltnesku löndunum, einstæðing, allslausan, sem á sér varla vin, sem er blekkt til þess að fara til Svíþjóðar undir því yfirskyni að hún eigi að tína þar ávexti af trjám, ef ég man rétt. Síðan er hún lokuð inni og það er selt inn á hana. Og ég sé ekkert til fyrirstöðu, eða ég sé alla vega ekkert í okkar umhverfi sem segir að við getum ekki staðið frammi fyrir nákvæmlega því sama hér.

Ef við ætlum að hafa kaup á vændi refsilaust og ef við ætlum að hafa söluna refsilausa, hvort tveggja, þá erum við að bjóða upp á nákvæmlega sams konar innflutning á barnungum stúlkum og þess vegna drengjum til Íslands. Við erum að opna fyrir þennan markað hérna. Og það er ekki nema með því að gera kaupin refsiverð sem við erum í rauninni að spyrna við fótum gagnvart því að við gætum þurft að horfast í augu við svipuð dæmi og svipaðar aðstæður hér.

Þessi leið hefur verið farin í Svíþjóð. Og svo segja sumir: Það er ekki tímabært að fara þessa leið hér, fyrst skulum við sjá hver reynslan af þessu verður. En reynslan í Svíþjóð á þessum fjórum árum er einmitt sú að það hefur stórlega dregið úr mansali. Menn leita fyrir sér og leita hófanna með þessi viðskipti í öðrum löndum þar sem auðveldara er að koma þessum kaupum á. Og ég spyr bara: Eftir hverju er þá að bíða? Hvers vegna förum við ekki, að fenginni reynslu Svía, þessa sömu leið?

Mér finnst það líka stóra spurningin í allri þessari umræðu, sem mér finnst gleymast þegar maður er að hlusta á úrtölumennina, þá sem tala gegn því að fara þessa leið, hvaða boðskap við ætlum að flytja út í samfélagið og hvaða gildismat við erum talsmenn fyrir í íslensku velferðarsamfélagi. Erum við talsmenn þess að hér, eins og víða annars staðar þar sem þjóðir búa ekki við þá velferð sem við búum við, þurfi að vera eitthvert botnfall, eitthvert fólk í samfélaginu sem þurfi að þjóna þessum þörfum?

Menn hafa líka sagt að sönnunarstaðan í þessum málum væri svo slæm. Og þá segi ég: Hún er það líka í nauðgunarmálum. Þar er oft bara staðhæfing á móti staðhæfingu. Hvað með sönnunarstöðuna í málum um kynferðisbrot, kynferðisofbeldi gagnvart börnum? Hún er ekki góð. Það hvarflar samt ekki að neinu okkar að fella þau ákvæði út úr hegningarlögunum. Við viljum halda í refsinæmi þeirra, þó svo að vinnan geti verið erfið við að koma fram fullri sönnun og koma fram fullri refsingu. Að mínu mati eru það því ekki nokkur rök.

Á vettvangi Norðurlandaráðs sem lauk í Ósló í gær var töluverð umræða um þessi mál í tengslum við mansalið. Þar kom m.a. fram tillaga, sem ég veit ekki betur en hafi verið samþykkt í lok þingsins, um að gera myndina Lilya 4-ever að kennsluefni á öllum Norðurlöndunum. Og tilmælunum er beint til norrænu ráðherranefndarinnar að hún styðji það fjárhagslega að myndin sé tekin upp sem kennsluefni, ekki bara í einu landi, heldur á Norðurlöndunum öllum. Og ég horfi nú á hv. þm. Drífu Hjartardóttur sem kannski getur upplýst það í umræðunni hvort þessi tillaga var samþykkt á vettvangi ráðsins.

Annað sem hefur verið gagnrýnt í þessu máli er að flutningsmenn séu bara konur. Ég ætla að viðurkenna það hér að ég held að ég hafi verið helsti hvatamaðurinn að því að flutningsmenn yrðu einungis konur. Og það var fyrst og fremst í þeirri trú og von að við næðum fullri samstöðu kvenna um þetta mál, vegna þess að þetta er þverpólitískt mál. Það er ekki flokkapólitík sem þetta mál fjallar um. Hins vegar veit ég að það er stór hópur þingmanna sem styður okkur í þessu máli og mun styðja það þegar kemur að því að greiða atkvæði um það og getur þá sýnt stuðning sinn við það í verki. En það var fyrst og fremst til að sýna að þetta væri ekki flokkapólitík sem málið fjallaði um sem við ákváðum, konur, að standa saman um þetta í þeirri trú og von og vissu að karlmenn mundu síðan fylgja okkur að málum í því.

Það er alveg ljóst að þó að við gerum kaup á vændi refsivert, þá útrýmum við ekki vændi. Á ákveðinn hátt er þetta táknrænt og bara með þessu einu útrýmum við ekki vændi. Það er fjölmargt annað sem við þurfum að gera. Það þarf að endurmennta lögreglumenn. Það þarf að endurmennta saksóknara. Það þarf að byggja upp ákveðin félagsleg úrræði og ég tala nú ekki þau sem við þurfum að hafa tiltæk gagnvart þeim sem eru fluttir hingað mansali. Það er óteljandi. Þetta er fyrsta skrefið. Þannig að þetta er svar mitt við þeirri spurningu hvort við höldum að með þessu útrýmum við vændinu í eitt skipti fyrir öll. Þetta er bara fyrsta skrefið á þeirri leið.

En meginboðskapurinn er kannski sá að ég segi fyrir mitt leyti, og ég get talað fyrir hönd Landssambands framsóknarkvenna líka, að okkar sjónarmið er það að við getum aldrei fallist á það að líkami manns, karls, konu eða barns, sé söluvara, að hann sé andlag í viðskiptum manna á milli. Einhver staðar þurfum við að setja stopp við markaðshyggjunni. Ég legg til að við gerum að hér, frú forseti.