Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:29:02 (966)

2003-10-30 15:29:02# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt því ekki fram að hv. þingmaður væri að tala af vankunnáttu um málið sjálft, heldur um tilurð þess og hvernig það upphaflega kom til. Til að því sé algjörlega haldið til haga upplýsti hv. þm. Jónína Bjartmarz það hérna áðan að hún hefði verið aðalhvatamaður að því að þetta mál yrði kvennamál. Upphaflega fór ég af stað til að leita meðflutnings tveggja einstaklinga úr hverjum flokki. Málin þróuðust allan september milli þeirra fimm flokka sem eiga alþingismenn á þingi og á endanum varð það ljóst mjög seint í mánuðinum að samstaða næðist meðal allra kvenna í þinginu utan kvennanna í Sjálfstfl. Ég vissi satt að segja ekki hvort talað hefði verið við allar en í samtölum okkar í milli höfðu ýmsir tekið að sér að tala við sjálfstæðiskonurnar háttvirtar. Á endanum var sem sagt ekki eftir nema þessi eini dagur til að gefa þremur þeirra tækifæri til að vera með. Þær höfðu hins vegar allar haft pata af því að verið væri að reyna að fá breiða kvennasamstöðu um málið.