Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:33:27 (969)

2003-10-30 15:33:27# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir kannski mestu máli í þessari umræðu, sem hefur farið fram í andsvörum, er að það er orðið nokkuð ljóst hvernig staðið hefur verið að þessu máli í byrjun, að allir aðilar hafi fengið tækifæri til að skýra aðkomu sína að málinu og einnig að það sem skiptir máli er að afstaða okkar, kvenna í Sjálfstfl., er efnisleg. Það eru ákveðnar efasemdir um þessa leið og ég held að það sé mjög gott að þær raddir komi fram þannig að við önum ekki út í eitthvað sem fólk vildi ekki sitja uppi með þegar til seinni tíma væri litið. Þetta verður þá til þess að málið verður skoðað í hv. allshn. með gagnrýnum augum, með hliðsjón af fram komnum efasemdum og það verði ekki bara tómur já-kór karla og kvenna sem samþykki það blindandi.