Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:47:57 (976)

2003-10-30 15:47:57# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa eindregnum stuðningi við þetta frv. til laga sem er flutt af fjórtán þingmönnum með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur í broddi fylkingar. Vil ég þakka henni og öðrum þingmönnum sem standa að frv.

Það hefur margítrekað verið staðfest að vændi er stundað á Íslandi. Birtar hafa verið um þetta skýrslur, m.a. af dómsmrn. árið 2001. Þar kemur fram, og er vísað til þess í greinargerð með frv., að vændi sé stundað hér í ýmsum myndum, meðal ungs fólks í vímuefnaneyslu, meðal eldri einstaklinga í heimahúsum, hér sé stundað tilviljanakennt götuvændi í gegnum auglýsingar í dagblöðum o.s.frv. Um þetta deilir enginn. Það deilir heldur enginn um hitt að vændi eigi að vera ólöglegt og það eigi að vera refsivert. Hins vegar kunna að vera um það skiptar skoðanir á hvern hátt það skuli gert refsivert og hverjum skuli refsað, þeim sem nýtir sér vændi og neyð annarra eða hinum sem leiðast út í vændi eða eru þvingaðir út í vændi.

Þetta frv. gerir ráð fyrir breytingum frá núverandi lögum að því leyti að refsiábyrgð vegna vændis breytist þannig að kaup á vændi og annarri kynlífsþjónustu verði refsivert en vændi sem stundað er til framfærslu verði ekki lengur refsivert. Þetta er þungamiðjan í frv. Ég fyrir mitt leyti tel þetta eðlilega og mjög nauðsynlega breytingu á lögunum.

Það sem ég vildi gera að þungamiðju í máli mínu, auk þess að lýsa stuðningi við frv., er afgreiðslan hér í þinginu. Við vitum hvað hendir mál sem eru umdeild eða sem njóta ekki velvildar ríkisstjórnar eða stjórnarmeirihluta eða eru sprottin upp úr stjórnarandstöðunni. Þau eru svæfð í nefnd. Það sem er óhugnanlegt við það sem fram kemur í greinargerð með þessu frv. er að frv. sama efnis var margsinnis lagt fram á síðasta kjörtímabili. Það sem hins vegar hefur breyst frá þeim tíma er að málinu hefur aukist stuðningur. Við heyrum það nú frá talsmönnum allra flokka þótt hér hafi komið upp ágreiningur um aðdraganda þessa frv. Hann kemur mér reyndar mjög á óvart eftir að hafa fylgst með framvindu málsins í haust og á hvern hátt 1. flm. málsins reyndi að fá til fylgis flutningsmenn úr öllum flokkum. En víkjum því til hliðar. Það sem máli skiptir er hvernig málinu reiðir af í þinginu og hvort þingið fær möguleika á því að taka afstöðu til þess. Um það snýst baráttan núna, þ.e. að það verði ekki hreinlega svæft í nefnd. Það hefur allt of oft hent.

Ég minnist þess að í einu máli sem var mjög umdeilt, þar sem tilfinningar voru mjög sterkar, að það var keyrt í gegnum þingið og inn í afgreiðslu m.a. á þeirri forsendu að eðlilegt væri að þingið fengi að taka afstöðu. Það var boxið. Þingið fékk að greiða atkvæði um boxið. Fékk, segi ég. Ég var ekki hlynntur því frv. og tel samþykkt þess hafa verið til ills. En ég skal alveg játa að ég var mjög veikur fyrir þessari röksemd. Mér finnst eðlilegt að mál komi til kasta þingsins og þingið fái að taka afstöðu til þeirra.

Um þetta snýst núna baráttan á komandi vikum, að lýðræðislegur vilji í þessum sal fái að koma fram og menn geti greitt atkvæði um þetta frv. Ég hvet þá sem fylgjast með þessu máli til að hafa augun einmitt sérstaklega á þessu.

Núna verður frv. vísað til nefndar. Þaðan fer það til álitsgjafar. Því verður skotið til ýmissa aðila sem þessi mál hafa rannsakað eða tengjast í stjórnsýslunni á einhvern hátt, og til almannasamtaka. Þetta á ekki að þurfa að taka nema tiltölulega stuttan tíma, tvær til þrjár vikur gæti ég ætlað. Síðan er eðlilegt að málið komi aftur til kasta þingsins og því gefist færi á að greiða um það atkvæði. Þetta er grundvallaratriði, að málið fái lýðræðislega meðferð í þinginu. Þetta skulu vera mín lokaorð.