Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 16:12:35 (979)

2003-10-30 16:12:35# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns koma á framfæri þökkum til þeirra kvenna sem hafa flutt þetta frv. hér í dag. Ég tel að þetta sé þarft og gott mál. Ég vil líka þakka fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað í dag. Þær hafa verið málefnalegar og mjög athyglisverðar og á margan hátt fræðandi.

Mér finnst alveg sjálfsagt að það skuli vera refsivert að fólk greiði fyrir kynlífsþjónustu, það skuli vera refsivert að fólk hafi tekjur af milligöngu um kynlífsþjónustu, það skuli vera refsivert að fólk sé flutt mansali á milli landa til að taka þátt í klámi og kynlífsiðnaði. Líka að það skuli vera refsivert að verið sé að ginna, hvetja eða aðstoða börn yngri en 18 ára til að taka þátt í vændi eða annarri kynlífsþjónustu.

Frú forseti. Ísland er lítið land og um margt sérstakt land. Við njótum hér ákveðinnar einangrunar sem felst í því að landið er eyja. Sem betur fer hafa vandamál vegna vændis ekki verið jafnmikil hér á landi og í nágrannalöndum okkar en það er margt sem bendir til að þetta hafi verið að aukast á undanförnum árum. Séð í ljósi þeirra mannlegu harmleikja sem oft tengjast vændi og kynlífsiðnaði af ýmsu tagi þá finnst mér allt í lagi að við á hinu háa Alþingi reynum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann, ef svo má að orði komast, og setja reglur sem á einhvern hátt geta komið í veg fyrir að sú þróun nái að verða með þeim hætti sem við höfum séð í nágrannalöndunum.

Ég vil vekja athygli á því að verið er að tala um að breyta lögum. Það er hægt að breyta þeim á þann veg sem lagt hefur verið til hér í dag. Einnig er hægt að breyta þeim aftur þannig að ef þetta virkar ekki eins og til er ætlast, þá er hægt að fella þetta úr gildi. Hvers vegna ættum við ekki að gefa þessu möguleika? Hvers vegna ættum við ekki að reyna að fara þá leið, að setja þessi lög? Við höfum allt að vinna og engu að tapa.

Ég tel því, frú forseti, að það sé sjálfsagt mál að veita málinu brautargengi og það fái eðlilega afgreiðslu í Alþingi og frv. verði samþykkt.