Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 16:27:44 (980)

2003-10-30 16:27:44# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur skyldum málum sem ég óskaði eftir að rædd yrðu saman þar sem þau eru nátengd og nánast hvort öðru háð. Annað er frv. um bótarétt höfunda og heimildarmanna og hitt er frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Flutningsmenn beggja frv. eru auk mín hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Sænska konungsskipið Vasa árið 1628, geimferjan Challenger árið 1986, MS Estonia árið 1994. Hvað er sameiginlegt með þeim fyrirbærum sem hér voru talin upp? Jú, hverju þeirra tengdist lítill hópur háttsettra einstaklinga sem voru ákveðnir í að leggja af stað í stórleiðangur. En í hvert sinn átti sér stað stórslys sem kom umheiminum fullkomlega á óvart. Í öll þessi skipti var til staðar vitneskja sem þagað var yfir, vitneskja um galla eða vanrækslu sem, ef upp hefði komist, hefði getað varnað slysi. En enginn vildi axla þá ábyrgð að koma í veg fyrir stórvirkið og því fór sem fór.

Sumardag einn árið 1628 hlupu 30 sjómenn fram og til baka á dekki hins nýbyggða konungsskips Vasa. Þeir hlupu samsíða skipshliðanna á milli og í hvert skipti valt stolt sænska herveldisins meira og meira. Fleming aðmíráll sem stýrði æfingunni stöðvaði hana fyrir öryggis sakir vegna þess að hann óttaðist um líf sjómannanna á æfingunni. En hann lagði ekki í að leggjast gegn sjálfu sænska herveldinu, gegn því að stórvirkið gæti átt sér stað. Daginn eftir sigldi þetta stolt sænska herveldisins 1.300 metra á vötnum Stokkhólms og sökk síðan með minnst 30 manns innan borðs.

[16:30]

Þetta er saga sem er oft nefnd sem dæmi í sænskum fjölmiðlarétti um mikilvægi þess að mikilvægar upplýsingar er varða almannahagsmuni og eiga brýnt erindi til almennings skili sér þangað. Hún dregur fram mikilvægi þess að fólk þori að tjá sig, að upplýsa um mál sem geta varðað almenning miklu hvort sem þar er um að ræða embættismenn, opinbera starfsmenn og jafnvel eftir atvikum starfsmenn einkafyrirtækja. En til þess að svo sé þarf heimildaverndin að vera trygg og um það fjalla þau frv. sem hér eru til umræðu.

Fjölmiðlar eru gríðarlega mikilvægt afl í samfélaginu. Þeir eru skoðanamyndandi en skoðanir eru grundvöllur ákvarðanatöku. Fjölmiðlar eru farvegurinn fyrir ekki aðeins skoðanir almennings og stjórnvalda heldur einnig fyrir ýmsa aðra áhrifahópa sem gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu, stjórnmálaflokka, frjáls félagasamtök, verkalýðshreyfingu og samtök atvinnurekenda svo dæmi séu tekin.

Tjáningarfrelsið er verndað í 73. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt þeirri grein eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Á síðari árum benda ýmis dæmi til þess að dómstólar í lýðræðisríkjum hafi viðurkennt með skýrum hætti hlutverk og gildi fjölmiðla í samfélaginu. Í íslenskum dómum eru nokkur dæmi þessa þótt ekki sé þar feitan gölt að flá, eins og Páll Sigurðsson kemst að orði í riti sínu Fjölmiðlaréttur. Skýrust eru slík ummæli í héraðsdómum sem gengu vegna undirskriftanna um Varið land á sínum tíma, en sá dómur er birtur með dómi Hæstaréttar frá 1979 á bls. 647. Þar er komið svolítið inn á þetta og mikilvægi þess að hagsmunir samfélagsins af því að umræður um opinber málefni geti farið fram í þeim mæli sem hinar lýðræðislegu og þingræðislegu grundvallarreglur krefjast. Það er m.a. nauðsynlegt að menn geti gagnrýnt pólitíska andstæðinga, athafnir þeirra og skoðanir að vissu marki en þótt menn séu ekki sammála um það hversu langt eigi að ganga í þessu efni almennt, þá virðast dómstólar vera að skera úr eftir málavöxtum hverju sinni.

Svipaðar vangaveltur eru uppi í dómi Hæstaréttar frá 1995 á bls. 408, og í dómi Hæstaréttar í máli Agnesar Bragadóttur frá árinu 1996 er að finna vangaveltur af svipuðu tagi. Hvað sem líður almennum umsögnum af þessu tagi í íslenskum dómum er á hinn bóginn óhætt að fullyrða að í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hafa vissulega mikla þýðingu fyrir okkar réttarfar, sérstaklega eftir að ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu voru lögtekin hér, megi finna fjölmörg dæmi þess að sá merki dómstóll hafi tjáð sig með skýrum og víðtækum hætti um hlutverk og gildi frjálsrar fjölmiðlunar. Ég ætla að nefna tvö dæmi sem merki þessa, annars vegar mál The Sunday Times frá því í apríl 1979 en þar segir í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta, að í tjáningarfrelsi felist ekki aðeins frelsi til að veita upplýsingar sem eru óumdeildar, heldur nái það einnig til upplýsinga sem eru móðgandi eða truflandi fyrir ríkisvaldið eða hvaða hluta samfélagsins sem er. Þessi grundvallarregla er óhemju mikilvæg þegar kemur að fjölmiðlum og starfsumhverfi þeirra.

Í máli Oberschlick frá 1991 segir m.a. í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta, að frelsi fjölmiðla sé besta trygging almennings til þess að uppgötva og til að mynda sér skoðanir á hugmyndum og framferði stjórnmálaleiðtoga. Þetta er undirstrikað m.a. með því að tryggja rétt almennings til upplýsinga auk þess sem frelsi til pólitískrar rökræðu er talið vera einn af hornsteinum lýðræðisins.

Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða brot á tjáningarfrelsi hefur auk þess verið staðfest að hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi felst ekki aðeins í því að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald með gagnrýninni umræðu heldur ekki síður í því að tryggja almenningi upplýsingar. Þannig að þetta snýst ekki aðeins um það hvernig starfsumhverfi fjölmiðla er heldur ekki síður um það að tryggt sé að almenningur fái upplýsingar sem eru mikilvægar og eiga brýnt erindi þangað. Það er því mikilvægt að þessi réttur almennings til upplýsinga hefur verið viðurkenndur líka.

Til þess að fjölmiðlar geti rækt þetta mikilvæga hlutverk sitt í samfélaginu þarf starfsumhverfi þeirra að vera þannig að þeim sé gert það kleift. Þeir þurfa í fyrsta lagi að njóta frelsis til að sinna starfi sínu. Njóta íslenskir fjölmiðlar frelsis til starfa? Skiptir eignarhald á fjölmiðlum máli? Eru íslenskir fjölmiðlar frjálsir að sinni ritstjórnarstefnu eða eru eigendur þeirra með óhófleg afskipti af því hvernig fréttir eru sagðar og hvaða fréttir eru sagðar? Ég ætla ekki að svara þessum spurningum hér og frv. sem hér eru til umræðu taka ekki á þessu en ég tel þó að full ástæða sé til að endurskoða þennan þátt málsins líka og í raun er löngu orðið tímabært að endurskoða allt starfsumhverfi fjölmiðla frá grunni hér á landi. Dæmin eru fjölmörg bara frá síðustu árum sem benda til þess að úr þessu þurfi að bæta og þá ekki síst það sem snýr að vernd heimildarmannanna eða vernd trúnaðarsambands heimildarmanna og fjölmiðlanna og nægir þá að nefna til sögunnar alla litlu mennina sem hafa verið til umræðu á síðustu missirum hvort sem þeir hafa starfað í BYKO, hjá Símanum eða verið fréttamenn á Stöð 2. Setja þyrfti skýrari línur hvað varðar ritstjórnarfrelsi og e.t.v. væri ástæða til að kveða skýrar á um mikilvægt hlutverk fjölmiðla í slíkum lögum þannig að ábyrgðin sé líka gerð skýrari. Grundvallarskilaboðin sem felast í siðareglum blaðamanna mætti t.d. setja í slík lög einnig til þess að styrkja grunn og mikilvægi þeirra. Til er nýlegt efni sem ég mun koma hér að svolítið síðar, m.a. sem tekið hefur verið saman eru leiðbeinandi reglur hjá Evrópuráðinu og víðar þar sem meginhugmyndirnar í þessum efnum eru í raun og veru til og tilmælum hefur verið beint til aðildarríkja Evrópuráðsins að taka þær upp í lög en ég veit ekki til þess að það hafi verið gert hér á landi og kann að vera að einhver vinna sé í gangi í menntmrn. hvað það varðar.

Siðareglur Blaðamannafélagsins setja fjölmiðlamönnum ákveðinn ramma í sínum störfum og m.a. er í þeim reglum vakin athygli á persónulegri ábyrgð blaðamannsins á öllu sem hann skrifar og honum er uppálagt að virða trúnað við heimildarmenn sína. En þarna erum við einungis að tala um siðareglur sem eru vissulega mikilvægar en ekki jafnbindandi og lagareglur eru. Blaðamanni er samkvæmt reglunum skylt að vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Honum ber líka að foraðst allt sem valdið gæti saklausu fólki eða fólki sem á um sárt að binda óþarfasársauka og vanvirðu. Þá er í siðareglunum tiltekið að blaðamanni beri í frásögnum af dóms- og refsimálum að virða þá meginreglu að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Blaðamanninum er líka skylt að varast að lenda í hagsmunaágreiningi, t.d. með því að flytja fréttir af fyrirtækjum eða samtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í starfi sínu.

Eins og ég sagði áðan, eru siðareglurnar mikilvægur hlekkur. Þær eru mjög mikilvægar fyrir stéttina sem slíka og fjölmiðlamenn, en þær hafa ekki sömu áhrif og lagareglur í þessum efnum.

Ég minntist aðeins áðan á erlenda strauma og þá einkum frá Evrópu. Þó að vissulega hafi líka ýmislegt gerst í þessum efnum vestan hafs hef ég sérstaklega skoðað í þessu samhengi og þá með tilliti til þess að okkar löggjöf er miklu skyldari Norðurlandalöggjöfinni það sem snýr að réttarfari og ýmsu öðru í okkar löggjöf, þannig að ég horfði kannski aðallega austur um haf við skoðun á þessu. Við Íslendingar erum aðilar að Evrópuráðinu og Evrópuráðið hefur gefið út tilskipun ráðherraráðs Evrópuráðsins sem eru reyndar leiðbeinandi reglur nr. 7/2000, um rétt fjölmiðlamanna til að halda heimildum sínum og heimildarmönnum leyndum. Í þeim reglum og eins reyndar líka í ályktun Evrópuþingsins frá 1994 um sama efni eru mjög skýr tilmæli, eða eins og ég segi þetta eru ekki bindandi heldur svona leiðbeinandi reglur fyrir aðildarríkin og tilmæli til aðildarríkjanna um það að þau taki þessa vernd tryggilega upp í sína löggjöf. Ef maður skoðar íslenska löggjöf með tilliti til þessara ályktana og þessara grundvallarreglna, þá er það ekki svo að þessir straumar hafi borist inn í íslenska löggjöf enn, og ég vitna í þeim efnum í Pál Sigurðsson sem segir í riti sínu Fjölmiðlaréttur, með leyfi forseta:

,,Enda þótt nú nýlega hafi farið fram umfangsmikil og stórgagnleg endurskoðun á réttarfarslöggjöf okkar þar sem lagaákvæðin um nafnleynd eða þagnarvernd höfunda og heimildamanna er m.a. að finna, eru þau ákvæði lagabálkanna sem hér skipta máli varla nægilega skýr að öllu leyti svo sem fyrr hefur verið rakið. Úr því þarf að sjálfsögðu að bæta en við þær endurbætur mætti m.a. hafa nokkra hliðsjón af hinum nýlegu dönsku ákvæðum sem fjalla um þetta efni en þau eru um sumt skýrari en hin íslensku auk þess sem dönsku ákvæðin virðast hafa að geyma heppilegri efnisreglur en okkar, a.m.k. í sumum efnum.``

Það má segja að þetta hafi verið grundvöllurinn sem ég hafði til hliðsjónar og við sem unnum að þessum tveimur frumvörpum sem hér eru til umræðu og ætla ég nú að fara yfir efni þeirra. Í fyrsta lagi er um að ræða frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildamanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Þarna er um að ræða breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, um meðferð einkamála, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og á sveitarstjórnarlögum og almennum hegingarlögum. Þar er lagt til að sérstakar reglur verði settar til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildamanna þeirra.

Við vísum til þess í greinargerð að á síðustu árum hafa komið upp nokkur mál þar sem reynt hefur á slíkt trúnaðarsamband fyrir dómstólum. M.a. var það í máli Agnesar Bragadóttur, sem hér var áður nefnt, þar sem niðurstaða héraðsdóms í því máli --- þetta var mál sem var höfðað gegn Morgunblaðinu vegna greinaskrifa hennar um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga og viðskipti þess við Landsbanka Íslands --- var á þann veg að blaðamanninum var talið skylt að bera vitni í málinu þannig að það sýnir fram á það hversu óskýrar þessar reglur eru. Í Hæstarétti var þessu síðan snúið við og eins og ég nefndi áðan hefur almennt verið litið svo á í íslenskum fjölmiðlarétti að þetta sé mat Hæstaréttar hverju sinni. Það er að mínu mati alls ekki nægilega tryggt að þessi vernd sé tryggð á þann hátt. Ég tel að löggjafinn þurfi að kveða mun skýrar á um þetta. En markmiðið er eins og áður sagði að tryggja möguleika fjölmiðla til upplýsinga og fréttaöflunar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings og þá er það gert í ljósi þess að frjálsir og óháðir fjölmiðlar séu ein af meginstoðum hvers lýðræðisríkis og reglur um heimildavernd eitt veigamesta skilyrðið fyrir fullnægjandi starfrækslu þeirra.

Eins og ég nefndi í upphafi með dæmunum um stórslysin, þá getur þetta verið mjög alvarlegt mál. Ég nefndi reyndar mjög afdrifarík mál þar sem upplýsingar bárust ekki alla leið. Ef þær hefðu borist alla leið, ef þær hefðu borist til almennings, tökum sem dæmi ef vanrækslan sem vitað var um í tilviki MS Estoniu hefði borist til almennings, þá er mjög líklegt að ferjan hefði aldrei farið sína síðustu ferð. Alla vega hefði ekki farið á þann veg sem fór. Þannig má eiginlega segja að sá sem tekur að sér að koma slíkum boðskap á framfæri sé kannski ekki mjög vinsæll, hann á það á hættu að missa starfið sitt en hann er eigi að síður að koma mikilvægum hagsmunum almennings á framfæri. Þess vegna er mikilvægt að vernda hann.

Í fyrra frv. má annars vegar segja að meginefni þess felist í því að gerð er mikilvæg undantekning frá meginreglunni um vitnaskyldu bæði í opinberum málum og einkamálum þannig að blaðamanni er talið óskylt að gefa upp heimildarmenn sína ef eftir því er óskað fyrir dómi. Það er undantekning frá þeirri meginreglu að fólki sé skylt að greina frá öllu sem það er spurt um fyrir dómi. Þetta á við bæði í opinberum málum og einkamálum. En það er líka tekið á því í frv. að starfsmanni ríkisins og starfsmanni sveitarfélaga sé heimilt að víkja frá þagnarskyldu ef málefni varðar mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings því að starfsmenn og það á líka í raun og veru við um starfsmenn einkafyrirtækja, lenda í ákveðinni togstreitu þegar þeir komast að einhverju slíku. Þeir vita kannski um galla á einhverju farartæki og vilja koma því áfram til eiganda fyrirtækisins, hver sem það er, en eigi að síður er tekin sú ákvörðun að halda áfram og hvað á viðkomandi þá að gera? Þá lendir hann í þeirri togstreitu annars vegar að koma þessum mikilvægu upplýsingum áfram og forða jafnvel stórslysi og hins vegar að bregðast trúnaðarskyldu hjá þeim sem hann vinnur hjá. Trúnaðarskyldan hvað varðar opinbera starfsmenn og eins í sveitarstjórnarlögunum er mjög rík, hún er mjög rík í íslenskum lögum sem er vissulega gott en í þessum tilvikum er mikilvægt að heimilt sé að víkja frá henni.

Í frv. sem fylgir með þessu frv. og er um bótarétt höfunda og heimildarmanna, er um það að ræða að starfsmaður ríkis eða sveitarfélags sem rýfur þagnarskyldu með því að greina frá upplýsingum sem varða ríka hagsmuni og telja verður að eigi erindi til almennings, á rétt til bóta úr hendi vinnuveitenda fyrir tjón sem hann verður fyrir vegna uppsagnar, missis réttinda eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitenda enda þyki sýnt að aðgerðir vinnuveitenda séu viðbrögð við rofi á þagnarskyldu. Sama á við um starfsmenn annarra fyrirtækja, félaga eða stofnana hvernig sem eignarhaldi þeirra er háttað. Og það voru vissulega áhöld um hvort það eigi að láta þetta ná til annarra en opinberra starfsmanna en í ljósi þess að mjög stór hluti mikilvægrar almannaþjónustu hefur verið fluttur yfir til einkaaðila til rekstrar, þá getur verið um nákvæmlega sömu hagsmunina að ræða hjá einkafyrirtækjum og þar af leiðandi engin ástæða til annars en að starfsmenn hjá einkafyrirtækjum, almenningssamgangnafyrirtæki eða flugfélag eða hvað sem það nú er, njóti sömu verndar.

Ég legg þessi frumvörp fram og vona að þau fái jákvæða umfjöllun. Ég legg til að þeim verði vísað til hv. allshn. og það verður að viðurkennast að ég var í pínulitlum vandræðum með það hvert rétt væri að vísa málunum en eftir að hafa fengið ráðgjöf hjá vísum mönnum, komst ég að því að eðlilegast væri að þau færu til allshn. Annað málið fjallar um bótarétt höfunda og heimildarmanna og hitt fjallar um lög til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna þannig að þetta á kannski heima í félmn., allshn. og jafnvel í menntmn. ef út í það er farið því það yrði menntmrn. sem hefði þær reglur til skoðunar sem Evrópuráðið hefur samþykkt, leiðbeinandi reglurnar. En til þess að unnt sé að skoða bæði frumvörpin saman og að þau séu rædd í samhengi, tel ég mikilvægt að þau fari til hv. allshn. og verði rædd þar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég hvet hv. þingmenn til þess að skoða þessi mál vel og þá ekki síst með tilliti til þeirra alþjóðlegu samþykkta sem hefur verið beint til okkar að taka upp í íslensk lög sem eru í anda þess sem hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Ég legg að lokum til að málunum verði vísað til hv. allshn.