Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 17:06:00 (983)

2003-10-30 17:06:00# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir góðar undirtektir við málin. Ég vil líka taka undir með honum þegar hann segir að mjög mikilvægt sé að draga fram ábyrgð fjölmiðla. Um það er ég svo sannarlega sammála honum og get í því efni vísað til þess að ég eyddi nokkrum tíma í ræðu minni í að lesa upp siðareglur Blamaðamannafélags Íslands sem mér finnst gríðarlega mikilvægt að sé haldið vel á lofti. Ég nefndi m.a. hugmynd sem reyndar er ekki lögð til í frv. En ef lögð yrði í það vinna, sem ég tel orðið brýnt að gera, að endurskoða allt starfsumhverfi fjölmiðla með það í huga að styrkja frjálsa og óháða fjölmiðlastarfsemi og m.a. heimildarverndina þá yrði einnig að skýra þessa ábyrgð þar betur. Það mætti t.d. gera með því að setja meginhugsunina í siðareglum Blaðamannafélagsins inn í slík lög. Það mundi styrkja mun betur þessa ábyrgð sem er svo mikilvægt að sé fyrir hendi.

Auðvitað á það hins vegar alltaf við, virðulegi forseti, um allar stéttir að misjafn sauður er í mörgu fé og í fjölmiðlastéttinni eins og í öðrum stéttum eru náttúrlega einstaklingar sem fara misvel með þá ábyrgð sem þeim er falin. Kannski er lítið annað við því að gera en að hafa skýrar reglur um það hvernig með skuli farið ef út af ábyrgðinni er brugðið. En ég vil taka undir þetta með ábyrgð fjölmiðlanna. Mér finnst mjög mikilvægt að lögð sé áhersla á hana um leið og frelsi til fjölmiðlastarfa er tryggt.