Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 17:34:59 (987)

2003-10-30 17:34:59# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla einungis að segja örfá orð. Í sjálfu sér er ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í henni og fagna því að þeir hafa allir tekið nokkuð vel í meginefni frv. Það hlýtur að auka mér bjartsýni á að málið fái jákvæðar undirtektir í meðferð hins háa Alþingis.

Einni spurningu vil ég svara sem kom fram í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz. Hún velti því fyrir sér hvort þörf væri á þessu og vísaði til þess að hæstaréttardómur í máli Agnesar Bragadóttur hefði fallið þannig að henni væri talið óskylt að gefa upp heimildarmenn sína. En ég dreg þá ályktun eftir að hafa skoðað það nokkuð frekar, reyndar dró ég það fram í framsöguræðu minni, að í raun væri það háð mati dómstóla hverju sinni. Ég tel það ekki viðunandi umhverfi fyrir fréttamenn eða fjölmiðlamenn. Ég vil líka geta þess að Páll Sigurðsson prófessor sem skrifar Fjölmiðlaréttinn, það ágæta rit, er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki nægilega tryggt. Hann skoðar málið í ljósi þess sem hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur. Þar hefur þessi vernd verið að aukast þó að ábyrgðin hafi vissulega líka aukist.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki nægilega tryggt, jafnvel þó að dómur hafi fallið á þennan veg í þessu einstaka máli. Það þarf að vera algerlega skýrt að fjölmiðlamanni sé ekki skylt að gefa upp heimildarmann sinn. Hitt á einungis við þegar Hæstiréttur metur að heimilt sé að víkja frá þessari skyldu, að krefjast má þess af fjölmiðlamanninum að gefa upp heimildarmann ef um er að ræða mjög alvarlegt brot eins og nánar er tiltekið í frv. Það væri samkvæmt mati Hæstiréttar á málinu eða dómstóls sem um það fjallar hverju sinni.

Aðeins varðandi fjölmiðlamenn. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson saknaði þess að sjá ekki meiri umræðu frá Blaðamannafélagi Íslands um þetta. Ég get svo sem tekið undir það að félagið sem slíkt hafi ekki staðið mikið fyrir slíkri umræðu. Ég vil þó geta þess að ég hef leitað til einstaklinga í því félagi og nokkurra starfandi fjölmiðlamanna. Ég leitaði ekki til félagsins sem slíks til þess að undirbúa þetta frv. en hef fengið ágæta aðstoð við undirbúninginn frá fjölmiðlamönnum sem margir eru mjög áhugasamir um að úr þessu verði bætt.

Að öðru leyti vil ég þakka umræðurnar.