Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:18:40 (993)

2003-10-30 18:18:40# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:18]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. áttar sig nú á því að ég er ekki talsmaður þessarar hagræðingar. Ég var bara að lýsa því hvernig hlutirnir væru. Staðreyndin er sú að við fáum um 78 kr. fyrir dollarann þegar útflutningsatvinnuvegirnir þyrftu að vera í þeirri stöðu að fá kannski 90--95 kr. Það er bara staðan. Þetta gildir um bændur líka. Þar af leiðandi lenda þessi fyrirtæki í erfiðleikum, fyrst og fremst í sjávarútvegi, sem framkalla og ýta mönnum út í hagræðingu. Ég ætla ekki að ræða það hér og hafa vit á því hvort hún er réttmæt eða ekki. En þetta eru bara staðreyndir málsins. Þeir sem eru í útgerð segja það fullum fetum að vegna þess að krónan sé svona sterk þá sé framlegð fyrirtækjanna minni og þeirra svar við því er meiri hagræðing. Það þýðir á mannamáli fækkun og stækkun fyrirtækja. Þetta eru bara hlutir sem eru að gerast.

Ég er ekki að lýsa því hvað mér finnst að eigi að gera. Ég hef talað fyrir sjávarútvegsstefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í mörg ár og hún byggir á allt annarri hugmyndafræði. En ég er að tala út frá því hvernig landið liggur í dag og hvernig hlutirnir eru og hvernig þeir blasa við okkur. Rækjuiðnaðurinn t.d. þolir ekki þessa stöðu krónunnar. Menn eru í miklum vandræðum þar. Sumir eru að tala um að rækjuvinnslu hér verði jafnvel hætt. Svona eru þessi mál og það er þetta sem hér er rætt um sem ruðningsáhrif vegna ákvörðunartöku um annars konar uppbyggingu í landinu á stórum skala. Þannig blasir þetta við. Menn verða að horfast í augu við þessar afleiðingar því að þær eru svona. En það þýðir ekki að ég sé sammála þeim, aldeilis ekki. Ég tjáði mig ekki um slíkt enda byggir pólitík mín og flokks míns á allt annarri hugmyndafræði en hér er á ferðinni.