Aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 18:37:30 (1001)

2003-10-30 18:37:30# 130. lþ. 18.10 fundur 45. mál: #A aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum# þál., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin á þessari umræðu þakka þeim sem tóku þátt í henni. Ég sakna þess sárlega að stjórnarliðar skyldu ekki koma til leiks. Satt að segja finnst mér stundum ekki mikil virðing borin fyrir umræðunni, sem lýðræðið á að byggjast á, í þessum sölum. Því skyldu menn ekki mæta til leiks sem galvaskir fóru í gegnum kosningar með kosningaloforð sín og hugmyndir um hvernig ætti að stjórna landinu? Af hverju fara menn ekki yfir það með myndugum og góðum hætti? Hvaða hugmyndir hafa þeir um þau verkefni sem talað er um í þessari þáltill.?

Ég er á þeirri skoðun að það sé síður en svo of seint að taka á málum. Ég vil bara segja að stefnan, hvað varðar landsbyggðina, þarf að byggjast á því að styrkja verulega sveitarfélögin í landinu. Stjórnarflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir stefni að því að fylgja eftir stækkun og eflingu sveitarfélaga á þessu kjörtímabili. Samtök sveitarfélaga í landinu hafa einnig þessa stefnu og ástæða er til að halda að það verði tekið á því máli. Mér virðist samt vanta dálítið upp á að menn ætli að fylgja því nógu fast eftir. Þar eru samt uppi fyrirætlanir sem gætu skipt miklu við að bjarga sumum svæðum.

Þau atriði sem hér hafa aðallega verið í umræðunni og ég sagði í fyrri ræðu minni að mestu máli skipti að taka á núna eru verkefni í vegamálum, í menntamálum og síðast en ekki síst að aflétta þeim hömlum sem eru á atvinnufrelsi manna í sjávarbyggðum landsins. Að mínu viti er það langmikilvægasta atriðið hvað það varðar að byggð haldist um allt land. Sjávarþorpin eru ekki bara sjávarþorp, þau eru hluti af byggðatengingunni allt í kringum landið og eru nauðsynleg fyrir sveitirnar líka.

Við höfum ekki talað mikið um landbúnaðinn. Ég ætla svo sem ekki að gera það núna. En vandamálin eru til staðar bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Þau verða ekki leyst með því að tala um annað, eins og býsna oft hefur gerst í sölum Alþingis. Þessi erfiðu byggðamál sem uppi eru núna verða ekki leyst nema menn taki á vandamálum grunnatvinnuveganna á þessum svæðum, landbúnaðar og sjávarútvegs.

Ég er á þeirri skoðun að stjórnarandstaðan þurfi að gera fleiri tilraunir og trúi því að það hljóti að koma að því að lokum að stjórnarliðar mæti hér til leiks og fari yfir það hvernig þeir ætla að taka á þessum málum í framtíðinni. Þó að þeir hafi ekki lagt í þá umræðu núna munum við ekki gefast upp við reyna að fá þá í ræðustól til að fara yfir þessi mál. Við munum hlýða þeim yfir það í vetur og spyrja um hvað er fram undan. Það er náttúrlega á þeirra ábyrgð en auðvitað líka á okkar ábyrgð að benda á vandann og hvað hægt er að gera. Þeir sem styðja þessa ríkisstjórn bera hins vegar ábyrgð á því aðgerðaleysi sem er í gangi núna.

Ég vona að þingmenn sofi ekki alveg rólegir yfir þeim vanda sem er uppi í hinum ýmsu byggðarlögum landsins fyrr en þeir hafa a.m.k. komið sér upp stefnu sem þeir eru menn til að verja í sölum Alþingis.